SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 2. apríl 2018

Skáld vikunnar - Linda Vilhjálmsdott

Linda Vilhjálmsdóttir er fædd 1. júní 1958.

Ljóð Lindu og þýðingar hafa birst í dagblöðum, tímaritum og safnritum frá 1982 en fyrsta ljóðabók hennar, Bláþráður, kom út 1990. Árið 2003 gaf hún út sjálfsævisögulegu skáldsöguna Lygasögu. Auk þess hafa leikrit og ljóðverk eftir hana verið sett upp í Borgarleikhúsinu og Kaffileikhúsinu.

Linda var eitt af sjö ungum skáldum sem tóku þátt í ljóðagjörningnum „Fellibylurinn Gloría“, en hann var gefinn út á hljóðsnældu árið 1985. Þá voru ljóð hennar sýnd á Kjarvalsstöðum í apríl 1993. Hún hefur tekið þátt í mörgum bókmennta- og ljóðahátíðum hér heima og erlendis og ljóð hennar hafa komið út í fjölmörgum tímaritum og safnritum víða um heim.

Linda fékk Menningarverðlaun DV árið 1993 fyrir ljóðabókina Klakabörnin. Hún hlaut verðlaun bókmenntahátíðarinnar „European Poets of Freedom“ (Evrópsk frelsisskáld) 2018 fyrir ljóðabókina Frelsi.

Linda Vilhjálmsdóttir er búsett í Reykjavík.

á miðri musterishæðinni undir hornsteini heimsins sem er rammaður inn í marmara og gull

er galopin gröf eða pyttur þar sem sálir feðranna marsera hring eftir hring við einn eilífðar sorgarsálm

þarna þramma ísak og ísmael saman meðan þeir bíða hins hinsta dags með abel og kaín adam og abraham jakobi jósefi og mósesi jósúa davíð salómoni heródesi og júdasi makkabeusi

jóhannesi jesúsi og múhameð spámanni nokkrum nafngreindum englum af karlkyni ásamt persneskum keisurum rómverskum landstjórum hellenskum kóngum kalífum krossförum soldánum og útvöldum nútíma harðstjórum liðnum og lífs

Mynd: bokmenntaborgin.is