• Júlía Margrét Sveinsdóttir

Auður og listagyðjan - Viðtal og smásaga eftir Auði A. Hafsteinsdóttur lífskúnstner

Þær hafa átt samleið alla tíð, Auður og listagyðjan. Sú fyrrnefnda vissi sjaldnast hvert sú síðarnefnda mundi leiða sig, en það endaði í smásagnaskrifum. Sögur hennar hafa birst í tímaritum og smásagnabókum og ný nóvella bíður yfirlesturs útgefanda. Ég tók hús á Auði og forvitnaðist um skriftirnar og upphafið.

Auður man ekki eftir sér öðruvísi en málandi og teiknandi og einu sinni hélt hún myndlistarsýningu í Hlaðvarpanum. Foreldrar hennar hvöttu hana til listnáms en stúlkan áleit að slíkur skóli mundi verða of ráðandi í hennar listsköpun. Auður byrjaði í framhaldsskóla, á verslunarbraut, lauk því námi og dreif sig út á vinnumarkaðinn. Hún vann m.a. í banka og á heildsölu, seldi bíla í Heklu og fór til Bandaríkjanna sem Au-Pair en þar stundaði hún einnig nám. Ameríkuárið var Auði dýrmæt reynsla sem hún býr að alla tíð.

Hvað varð til þess að þú fórst að skrifa og einbeita þér að því listformi?

Ég var eitthvað að pára framhaldssögu þegar ég var yngri og ég las mikið, sérstaklega þjóðsögur Jóns Árnasonar. Ég eignaðist börnin mín frekar seint á lífsleiðinni og byrjaði ekki að skrifa af neinni alvöru fyrr en 2002, eftir að yngra barnið komst á leikskóla. Þá fannst mér ég eiga óendanlega lausan tíma og það gerðist eitthvað, ég sogaðist að tölvunni og fór að skrifa sögu. Eins ótrúlegt og það nú er þá kom þetta bara eins og elding. Enginn fyrirvari. Ég myndi segja að mínar sögur væru tilviljunarkenndar, ég hef mikið hugmyndaflug og geri mér ekki grein fyrir því hvaðan þær koma svo að ég get ekki bent á neinn áhrifavald. Ég legg áherslu á að koma lesandanum á óvart. Ég skrifa eingöngu vegna þess að mér þykir það mjög skemmtilegt. Þetta sama ár 2002 sótti ég ritlistarnámskeið í Endurmenntun Háskóla Íslands og gagnaðist það mér mjög mikið.

Hvar hafa sögurnar þínar birst?

Ég hef skrifað margar smásögur og hafa þær birst á mörgum stöðum. T.d. í Kilju, sem fylgdi blaðinu Nýju Lífi, Gaddakylfunni svokölluðu sem þá fylgdi blaðinu Mannlífi, flugtímaritinu Ský, Vísbendingu, Tímariti Máls og menningar og nokkrum sinnum í Stínu tímariti um bókmenntir og listir. Auk þess hef átt sögur í sex smásagnabókum og hefur þá verið ákveðið þema á hverju ári. Núna er t.d. ástarþema og kemur sú bók út seinna á þessu ári. Ég hef skrifað eina nóvellu og liggur hún hjá útgefanda en hann hefur lofað mér að lesa hana yfir svo ég bíð bara eftir svari.

Hvernig kemur andinn yfir þig?

Þörfin kemur allt í einu yfir mig og þá iða ég í skinninu. Ég hugsa fyrst lengi um söguþráðinn og fer síðan að pikka á tölvuna eftir að hann verður nokkuð ljós. Auðvitað er þetta samt sem áður töluvert ferli.

Hér er ein smásaga Auðar:

Refsingin

Guðmundur hrökk upp með andfælum, emjandi af vanlíðan. Honum fannst eins og höfuð hans væri að springa. Grámygluleg morgunskíman sveipaði herbergið líflausu mistri. Hann leit á náttborðið sín megin og sá þar næstum tóma vodkaflösku. Við hlið hans í rúminu var enginn, það var samt eins og hann byggist við því að þar væri einhver. Sængin var bæld eins og einhver hefði legið við hlið hans en þar var engan að sjá. Hann gjóaði augunum um herbergið, leit á náttborðið hinum megin við rúmið, nær glugganum. Gulu gluggatjöldin blöktu við enda herbergisins, vegna golunnar sem kom inn um opinn gluggann.. Hann tók eftir opinni rauðvínsflösku á borðinu, hún var ekki alveg tóm.

Guðmundur greip um höfuð sér og kreisti augun á meðan hann kláraði það litla sem eftir var í vodkaflöskunni af áfergju, taumarnir runnu niður úr munnvikunum. Hann var smeykur. Loksins hafði hann dug í sér til að kíkja hinum megin við rúmið. Hann skreið yfir í hinn enda rúmsins, yfir bældu rúmfötin. Hann rakst á svartar silkinærbuxur og notaði þær til að þurrka vodkataumana sem láku niður hökuna. Staldraði við um stund. Síðan leit hann niður og þá sá hann hana. Hún lá á maganum, nakin, hreyfingarlaus og við hlið hennar lá brotið rauðvínsglas.

Rauður pollur var við höfuð hennar sem stakk í stúf við hvítar flísarnar. Svitinn spratt fram af enni hans og hann byrjaði að skjálfa. Hann greip ósjálfrátt í rauðvínsflöskuna og kláraði það sem eftir var í henni, leit síðan aftur á kvenlíkamann og hryllti sig. Hann snerti hana, nakinn konulíkamann, hún var ísköld og mjallahvít.

Hann klöngraðist fram á bað og ældi eins og múkki. Leit í spegilinn og sá spegilmynd sína. Augun voru rauð og þrútin, andlit hans var fölt, dökka hárið var úfið. Hann skellti framan í sig ísköldu vatni, barði á kinnar sér og hristi höfuðið, ekki bætti það höfuðverk hans en hann frískaðist aðeins upp við að fá kaldar vatnsgusur í andlit sitt.

Síðan lá leið hans inn í eldhús, hann þurfti að styðja sig við veggina til að detta ekki. Guðmundur rétt mjakaðist áfram. Honum hafði ekki fundist gangurinn vera svona langur áður. Þykka ljósa rýjateppið gerði honum betur um vik að fóta sig. Það tók hann óratíma að komast áfram og inn í eldhús.

Hann leitaði ákaft að verkjatöflunum, mundi ómögulega hvar hann hafði geymt þær. Hann rótaði í skúffum og skápum, þar til að hann loksins fann þær. Fékk sér fimm panódíl og vatn með, hlammaði sér þunglega niður á einn kollinn við litla hvítmálaða eldhúsborðið. Á því var rauður fallegur handsaumaður dúkur sem frænka hans, hún Dóra gamla, hafði gefið honum. Hún hafði einnig gefið honum rauðar gardínur í eldhúsgluggann og líka gulu gardínurnar fyrir herbergisgluggann, hún saumaði þær sjálf. „Það vantar liti hjá þér Guðmundur,“ hafði hún sagt við hann þegar hún gaf honum dúkinn og gluggatjöldin. „Það er allt svo hvítt.“

Með erfiðismunum stóð hann upp aftur og setti vatn í ketillinn. Hann þekkti ekki þessa konu, mundi ekki hvað hafði gerst.

Hann hrökk allt í einu upp úr þessum þankagangi sínum er ketillinn pípti. Tók skjálfhentur bolla og skeið og blandaði saman heitu vatninu og fjórum skeiðum af Neskaffi. Hann tók bollann og saup á heitu kaffinu, var við það að brenna sig. Reis aftur upp og drattaðist að ísskápnum og náði sér í mjólk út í kaffið. Hann sötraði það óstyrkur, það slettist úr kaffibollanum á borðið og gólfið þó að hann rígheldi í bollann með báðum höndum. Á eldhúsborðinu var kexpakki. Guðmundur reyndi að fálma í hann en náði ekki tökum á honum. Við það rakst hann í bollann sem skall í gólfið með hávaða og látum.

„Hvað á ég að gera? Veist þú það? Hvað hafði gerst? Veist þú það? Já þúúú,“ öskraði hann upp yfir sig eins og hann biði eftir svari.

Allt í einu var bankað létt á hurðina og síðan opnað. Hann hrökk við og stóð upp. Hann hörfaði undan, móður og másandi, þegar hann sá hvítklæddu konuna.

„Jæja Guðmundur minn, nú er komin tími til að taka lyfin þín.“

„Þú, þú,“ endurtók hann í sífellu.

Konan brosti ísmeygilega. „Já ég ... “

„En ég sá þig áðan...“

Hún hló um leið og hún raðaði pillum hægt á borðið, hvítar, rauðar, gular og bláar, fjórar af hverri sort, nema fimm rauðar, í beinni línu. Líkt að hún væri að búa til listaverk.Voru þessar rauðu töflur fleiri til að gefa eitthvað í skyn, eða einungis listaverk? Þvílík natni, Hann horfði á hana án þess að segja orð. Fallegt, listaverk en til hvers?

„Gjörðu svo vel Guðmundur minn, við skulum ekki endurtaka harmleikinn...“

„Hvaða harmleik? Hvað gerðist? Af hverju ert þú hér? Þú varst áðan...“ Hann gat ekki klárað setninguna.

Hún brosti, frosnu brosi og augu hennar voru líflaus er hún gekk út án þess að svara.

Allt í einu stóð hann upp, barði krepptum hnefunum í borðið svo töflurnar þeyttust út á gólf. Honum sortnaði fyrir augum, greip í borðbrúnina og datt aftur fyrir sig.