• Soffía Auður Birgisdóttir

Meinabörn & maríuþang. Ævintýri um ástskyldar verur og unaðstak kræðunnar - Björg Örvar


Björg Örvar DV 1996

Skáldsagan Meinabörn & maríuþang eftir Björgu Örvar hefði í raun átt að sæta tíðindum í íslenskum bókmenntum þegar hún kom út, svo frumleg og skemmtileg sem hún er. Bókina lásu hins vegar fáir, enda var hún einungis gefin út í 100 eintökum af skáldkonunni sjálfri sem hafði reynt án árangurs í þrjú ár að fá bókaforlög til að standa að útgáfunni. Þetta er bráðskemmtileg saga sem leiftrar af frásagnargleði og auðugu ímyndunarafli og er listavel skrifuð. Höfundurinn, Björg Örvar, er þekkt myndlistarkona og hafði hún áður sent frá sér ljóðabókina Í sveit sem er eins og aðeins fyrir sig (1990).

Meinabörn & maríuþang gerist á mörkum raunveruleika og fantasíu og í frásögninni fléttast saman örlög manna og ýmissa kynjaskepna. Sögð er örlagasaga fjölskyldu í sjávarþorpi; þar eru hjónin Jón og Bergþóra, dætur þeirra Álfhildur og Marta, að ógleymdri ömmu í Arnarkoti, móður Jóns. Á öðru frásagnarsviði ráða kynjaverurnar og erkióvinirnir Ljósfjandi og Sukkuba, sem bæði geta brugðið sér í allra kvikinda líki. Eða kannski er ekki rétt að segja að þau ráði aðeins á öðru sviði frásagnarinnar því vald þeirra og sköpunarkraftur teygir sig líka inn á það svið sem kalla má raunveruleikasvið frásagnarinnar. Margbrotnir söguþræðir fléttast saman í Meinabörnum & maríuþangi og ekki verður þeim öllum gerð skil hér en nefna má viðfangsefni eins og ýmiskonar ást, vinskap, hjónabandið, einsemd, samband kynjanna, stöðu kvenna, æsku og elli, kukl og morð. Á yfirborðinu vindur fjölskyldusögunni fram „en undir niðri kraumar losti, erótík og ofbeldi náttúrulegra og yfirnáttúrulegra afla“, eins og gagnrýnandi Morgunblaðsins komst að orði.

Þótt uppspretta skáldskaparins sé fyrst og fremst frjótt ímyndunarafl höfundar, notfærir Björg sér óspart aðra texta, svo sem Biblíuna og íslenskar þjóðsögur, sem og – og ekki síst – náttúrufræði fjörunnar, því fjaran er það mikla kynjabeð þar sem hlutir gerast.

Mikla lestrarnautn má hafa af texta Bjargar Örvar sem er víða sprellandi fyndinn, írónískur og ekki síst erótískur. Þá er persónusköpun er með afbrigðum skemmtileg og flestar persónurnar afar eftirminnilegar. Til dæmis má nefna áðurnefnda ömmu í Arnarkoti sem framan af sögu er karlæg en í óvæntum söguhvörfum vindur hún af sér blóðrefill einn mikinn (elli-refillinn) og yngist frá degi til dags.

Það kann að vera að nú sé rétti tíminn fyrir þessa einstöku skáldsögu. Þegar hún kom út fyrir ríflega tveimur áratugum var lítill áhugi fyrir fantasíum á íslenskum bókamarkaði – ég vona að Meinabörn & maríuþang finni nú sinn rétta lesandahóp.

Björg Örvar. Meinabörn & maríuþang. Ævintýri um ástskyldar verur og unaðstak kræðunnar. Reykjavík: 100 bóka forlagið, 1996.