SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir17. mars 2018

Júlíana Jónsdóttir

Skáld vikunnar að þessu sinni er Júlíana Jónsdóttir en hún fæddist 27. mars 1838 á Búrfelli í Hálsasveit. Júlíana gegndi ýmsum störfum um ævina en var lengst af vinnukona á Akureyjum á Breiðafirði. Um 1885 flutti hún til Vesturheims þar sem hún sinnti heimilishjálp og barnapössun. Júlíana lést árið 1917, ógift og barnlaus.

Júlíana orti talsvert og skrifaði auk þess leikrit en eftir hana liggur Víg Kjartans Ólafssonar í handriti. Það var sviðsett í Stykkishólmi veturinn 1879 og lék Júlína sjálf aðalhlutverkið, Guðrúnu Ósvífursdóttur.

Júlíana var fyrst íslenskra kvenna til að fá eftir sig útgefna ljóðabók. Ljóðabókin hét einfaldlega Stúlka og kom hún út á Akureyri árið 1876. Fjörutíu árum síðar kom út bókin Hagalagðar sem var gefin út í Winnipeg árið 1916.

Í bókinni Stúlka birtast m.a. Sláttuvísur þar sem Júlíana veitir innsýn í líf vinnukonunnar og lýsir svo vel hversu viðkvæmt líf manneskjunnar er þegar ljárinn er á lofti, það er eins og hvert annað strá.

Sláttuvísur

Hugsandi ég horfi á
hvað ég er að vinna,
saklaus hegg ég sundur strá;
síst er vægð að finna.

Ó, hvað nauðug læt ég ljá
lífi þeirra granda;
varnarlaus ei flúið fá,
falla þar sem standa.

Við erum eins og önnur strá,
enduðum lífs að fetum
fyrir dauðans föllum ljá,
flúið ekkert getum.

Hvarflar mér í huga þá
hitt sem fæstir rækja,
hvenær dauðinn kuldastrá
komi mitt að sækja.