• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Áhugavert Hugvísindaþing 2018

Að venju var margt áhugavert í boði á Hugvísindaþingi. Að lokinni þingsetningu í gær tók við opnunarfyrirlestur Marinu Warner, rithöfundar og prófessors í ensku og ritlist, og síðan rak hver málstofan aðra.

Skáld.is brá undir sig betri fætinum í dag og mætti á tvær afar áhugaverðar málstofur. Önnur þeirra bar yfirskriftina Bókmenntir og vistrýni en þar stigu Soffía Auður Birgisdóttir, Harpa Rún Kristjánsdóttir og Dagný Kristjánsdóttir á stokk. Soffia Auður fjallaði um náttúrusýn Virginiu Woolf eins og hún birtist í skáldsögu hennar Orlandó og áhrif skrifa Henry David Thoreau þar á. Harpa Rún beindi sjónum sínum að ólandssögum og sambandi manns og náttúru í skáldsögunni Lovestar eftir Andra Snæ Magnason. Loks fjallaði Dagný um kenningar um vistrýni og manngervinga og þann heimsendi sem vofir yfir í ungmennabókum Hildar Knútsdóttur Vetrarfrí og Vetrarhörkur.

Hin málstofan bar yfirskriftina Feminískar byltingar: berskjöldun, þekkingarréttlæti og vald en þar fluttu erindi Nanna Hlín Halldórsdóttir, Eyja Margrét Brynjarsdóttir og Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson. Nanna Hlín fjallaði um hugmyndir Butlers í ljósi berskjöldunar og sem viðbrögð við einstaklingshyggju nýfrjálshyggjunnar sem gerir fólki að birtast sem „hinn sterki einstaklingur“ til þess að öðlast lífsviðurværi í hinu kapítalíska vinnukerfi. Eyja Margrét fjallaði um hvernig þöggun kemur fram við hunsun hinna valdameiri og hvernig líta megi á MeToo-herferðina sem andóf gegn því þekkingarlegu ranglæti að áreitnin hafi ekki átt sér stað. Gústav Adolf hélt erindi um tengsl frásagna, á borð við MeToo sögur, og þess reynsluheims sem þær spretta úr og hvernig beri að skilja ásakanir um að hinar og þessar upplifanir séu ekki raunverulegar.

Senda inn efni

Vefurinn skáld.is er tileinkaður konum og skáldskap þeirra. Hér birtast viðburðir, fréttir, greinaskrif og fagurfræðilegir textar auk gagnabanka um íslenskar skáldkonur.

Ef þú lumar á efni um skáldkonu sem þú vilt koma á framfæri geturðu sent það inn með því að smella á hnappinn hér að neðan eða á netfangið: skald@skald.is

  • Black Facebook Icon
  • Black Twitter Icon
  • Black Instagram Icon

©2017 Skáld.is  |  ​Skáldaskinna ehf |   Ísland  |  skald@skald.is

Hafðu  samband