SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. mars 2018

Kynleg orð og skáldkona

Tungumálið er afar karllægt. Þar ægir til dæmis saman karlkynsorðum sem eiga að ná til beggja (allra) kynja. Orð á borð við viðskiptavinir, nemendur, íbúar, kjósendur og farþegar eru notuð um hóp af fólki af báðum kynjum. Og samkvæmt hefðinni heldur karlkynið sér þegar spurt er hvort allir séu búnir að kjósa eða hvort allir séu mættir, burtséð frá því hvort konur séu þarna á meðal eða jafnvel eingöngu. Hins vegar þykir ankannalegt að tala í kvenkyni og það á einungis við ef aðeins er talað til kvenna. Það þætti undarlegt að spyrja hóp fólks af báðum kynjum hvort „allar séu mættar“.

Karlkynsorð vekja augljós hugrenningatengsl við karlkynið, líkt og gefur að skilja. Þegar talað er um lækni sjá flestir fyrir sér karlmann og þarf oftast að taka það sérstaklega fram ef læknirinn reynist vera kona. Þá getur orðræðan orðið snúin þegar vísa þarf til „hennar“ með persónufornafninu „hann“. „Hann“ læknirinn. Tína má til fjöldann allan af karllægum orðum en það sem hefur vakið hvað mesta umræðu er orðið „maður“. Þar sýnist sitt hverjum. Sumir vilja halda í hefðina, að það nái yfir bæði (öll) kyn enda er það víða notað í þeirri merkingu. Þá er löngu orðin fleyg setningin „konur eru líka menn“. Hins vegar finnst ýmsum að orðið „maður“ eigi fyrst og fremst um karlmenn og að þar séu konur jafnan undanskildar. Í þvi ljósi hljómar fyrrgreind setning á þessa leið: „konur eru líka karlmenn“. Þetta er nokkuð ljóst þegar orðið er sett í ákveðið samhengi sem á eingöngu við konur. Til dæmis fer ekkert sérstaklega vel á því að tala um óléttan mann. Þá er líklegra en ella að lesandi sjái fyrir sér karl ef hann les setningu á borð við: maðurinn sat löngum í ruggustólnum og prjónaði heilu peysurnar. Til að árétta um hvort (hvert) kynið ræðir er gjarnan talað um karlmenn og kvenmenn en málfræðilegt kyn heldur sér. Til að aðgreina konur sérstaklega úr hópi fólks er talað um kvenfólk. Öllu sjaldnar sést orðið karlfólk. Á hvorn veginn sem það er þá heldur hvorugkynið sér.

Við sem stöndum að vefsíðunni Skáld.is urðum afar ánægðar að hreppa lénið skald.is til að nota eingöngu um vef fyrir skáldkonur. Nú er orðið skáld hvorugkynsorð og á því ágætlega við um bæði kyn. Það er að því leytinu betra en karlkynsorðið „rithöfundur.“ Líklegra er þó að fyrr komi karl upp í hugann en kona þegar orðið „skáld“ er notað. Til að aðgreina kynin eru notuð orð á borð við kven- og karlskáld sem ríma ágætlega við orðin kven- og karlrithöfundur. Það er skýrt en breytir ekki kyni orðsins. Orðið „skáldkona“ er mun heppilegra og kvengerir orðið. Þetta er gott og gilt orð sem hefur verið notað víða allt frá 19. öld. Til dæmis um notkun þess þá notar Guðrún P. Helgadóttir það í bókartitlinum „Skáldkonur fyrri alda“ og Halldór Laxness kallar Rauðsmýrarmaddömuna í Sjálfstæðu fólki skáldkonu. Fyrir utan það að vera fallegt þá er hægt, aldrei þessu vant, að vísa til skáldkonu í kvenkyni, í stað þess að bregða fyrir sig hvorugkyni eða karlkyni - líkt og konur hafa þurft að venjast allt of lengi!