SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. febrúar 2018

Mjög til eftirbreytni

Noregur er fyrst þjóða til að gera allar norskar bækur fram að síðustu aldamótum aðgengilegar á netinu, norskum notendum að kostnaðarlausu. Síðan sem hýsir bækurnar heitir bokhylla.no og má finna þar um 250.000 bækur. Norski menntamálaráðherrann, Trine Skei Grande, sagði meðal annars við opnun þessa netbókasafns að aukið aðgengi að norskum bókmenntum og fræðiritum væri mikilvægur liður í að varðveita norskuna auk þess sem það efldi þjóðernisvitund Norðmanna því þarna mætti nálgast menningararf þjóðarinnar með afar auðveldum hætti.

Í netbókasafni Norðmanna má m.a. nálgast þýðingar á sögum Svövu Jakobsdóttur, Steinunnar Sigurðardóttur og Yrsu Sigurðardóttur og á ljóðum íslenskra skáldkvenna.

Þetta verkefni Norðmanna er mjög til fyrirmyndar og eftirbreytni og mættu Íslendingar herma þetta eftir; hér er mun meira í húfi þar sem málsvæðið er talsvert minna og eiga bæði bóklestur og íslensk tunga í vök að verjast.