SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 9. febrúar 2018

AÐ ÚTHÝSA BARN I- eftir Höllu Kjartansdóttur

Hugleiðing út frá sameiginlegum efnisþáttum í skáldsögum Auðar Jónsdóttur, Fólkinu í kjallaranum og Tryggðapanti

Foreldrar sem hlaupast undan merkjum, misbjóða börnum sínum eða valda ekki hlutverki sínu hljóta alltaf að skilja börn sín eftir á bersvæði. Óvitaskapur eða sinnuleysi foreldranna gengur í arf rétt eins og ríkidæmi eða fátækt, kynslóð fram af kynslóð. Samfélagið allt getur orðið ofurselt slíku viðhorfi og þá eiga börnin ótryggt skjól. Tvær síðustu skáldsögur Auðar Jónsdóttur, Fólkið í kjallaranum og Tryggðarpantur fjalla meðal annars um þetta áleitna og viðkvæma efni. Í víðari skilningi fjalla þær um aðskilnað af ýmsu tagi hvort heldur sem er við ættjörð, fjölskyldu, foreldra eða barn og það ríkir eins konar upplausnarástand í þeirri samfélagsmynd sem þar er dregin upp. Sögurnar búa yfir ýmsum sameiginlegum þráðum sem freistandi er að rýna í og bera saman.

Báðar sögurnar fjalla um konur um þrítugt en þar koma einnig fram fleiri kynslóðir kvenna, mæður og ekki síst ömmur sem hafa haft varanleg áhrif á líf afkomenda sinna. Æska og uppvöxtur ungu kvennanna er ólíkur en þær eiga það sameiginlegt að foreldrar þeirra voru ekkert sérlega ábyrgir uppalendur eða tóku uppeldishlutverk sitt hátíðlega og þær sitja uppi með tilfinningalega arfleifð sem skapar tómarúm og grefur undan öryggistilfinningu þeirra á fullorðinsárum. Annað sem sameinar þessar ungu konur er barnleysi þeirra sem er sjálfvalið hlutskipti enda þótt þær búi í raun báðar við kjöraðstæður til barneigna. Engu að síður koma börn talsvert við sögu í báðum sögunum, bæði í tengslum við æskuminningar sögupersónanna og börn sem ungu konurnar tengjast með einhverjum hætti á fullorðinsárum. Sögurnar fjalla því öðrum þræði um börn og misjöfn uppvaxtarskilyrði þeirra.

Þessar ungu barnlausu konur eiga það einnig sameiginlegt að lifa í öruggu skjóli efnahagslegrar velmegunar sem þær hafa ekki þurft að hafa neitt fyrir að öðlast. Klara í Fólkinu í kjallaranum á alltaf vísa bankainnistæðu sambýlismannsins og Gísella í Tryggðarpanti hefur lengst af getað gengið í ótæmandi sjóð ömmu sinnar sem hefur séð henni fyrir öruggri framfærslu. Öryggi þeirra er engu að síður afar brothætt. Tryggur efnahagur á fullorðinsárum virðist því duga skammt þegar innistæða barnæskunnar sem umhyggjusamir og ábyrgir foreldra leggja til reynist vera rýr. En enda þótt hvorug þessara kvenna hafi átt sérlega sterkan bakhjarl í foreldrum sínum er æska þeirra fráleitt verri en gengur og gerist hjá þorra fólks og þess vegna á lesandi auðvelt með að spegla sig í þeim og það gerir sögurnar ennþá áleitnari. Það er fráleitt nokkur vandlætingartónn í sögunum og höfundur fer afar varfærnum höndum um söguefnið og lesandi á auðvelt með að fá samúð með sögupersónunum.

Sögurnar lýsa fremur hversdagslegum hlutum í lífi þessara ungu kvenna, samskiptum þeirra við sína nánustu, vini, nágranna og sambýlisfólk. Þar er fjallað um sambýli, sambúð eða nábýli ólíks fólks þar sem reynir á margháttaða tillitssemi, skilning og umburðarlyndi. Í sögunum er tekist á um ólík lífsgildi og ýmsum spurningum velt upp um varasama fylgifiska velsældar og efnislegra allsnægta. Vitaskuld finn ég til með þeim sem þjást og ætla að hjálpa öðrum og greiða úr sem mestu á raunhæfan hátt en aðeins á mínum forsendum og svo fremi sem það komi ekki niður á mér, segir Svenni, ungi sambýlismaður Klöru í Fólkinu í kjallaranum (bls. 76 – 77). En Gísella og vinir hennar í Tryggðarpanti ganga ennþá lengra í skeytingarleysinu um annarra hag og í þeirra hópi reynist afar djúpt á samkennd eða samúð með ,,þeim sem þjást”.

Þegar slíkt viðhorf verður ráðandi í samfélagi er hætta á að mörg börn séu skilin eftir á bersvæði þar sem næðir um þau. Þetta sinnuleysi gagnvart börnum er raunar undirstrikað með ýmsum hætti í báðum sögunum. Þar fáum við að kynnast börnum sem búa við ótryggar heimilisaðstæður og óöryggi. Báðar ungu konurnar fá börn inn á heimili sín tímabundið sem þær tengjast tilfinningaböndum en börnin eru ofurseld aðstæðum mæðra sinna sem eru sannarlega engar kjöraðstæður. Þannig vekja þessar sögur lesanda til umhugsunar um hlutskipti barna í samfélaginu og þau misjöfnu uppvaxtarskilyrði sem þeim eru búin.

Í Tryggðarpanti eru andstæður valda og valdaleysis dregnar skýrum dráttum og söguna má auðveldlega túlka sem allegoríska táknmynd þjóðfélags þar sem hinir efnameiri hafa alla þræði í hendi sér, leggja línurnar, setja viðmið og semja leikreglur eftir eigin duttlungum og til að tryggja eigin hagsmuni. Gísella verður tákngervingur alls þessa þar sem hún kemur sér upp flóknu regluverki gagnvart konunum sem leigja hjá henni og þær eru nauðbeygðar til að gangast undir. Gísella veitir leigjendum sínum aðeins skjól um hríð þegar það hentar henni en úthýsir þeim svo þegar sambúðin fer að reyna á þolrifin. Hún varpar leigjendum sínum á dyr þrátt fyrir að ein konan í hópnum sé með barn á framfæri og önnur gangi með barn og enginn þeirra eigi í önnur hús að venda.

Sjálf á Gísella sér öruggt húsaskjól en það er bara eins og skel utan um tómleikann sem umlykur hana í raun. Þetta upplýkst fyrir henni að lokum þegar hún áttar sig á hvaða afleiðingar vald hennar, viðhorf og regluverk hefur á barnið í hópnum, dóttur eins leigjendanna, sem hún hefur bundist tilfinningaböndum. Samfélagsmyndin í Tryggðarpanti er raunar afar kaldranaleg þar sem firring, tómlæti og tilfinningakuldi ræður för og náungakærleikur eða samkennd hefur umbreyst í eitthvað sem kallast viðskiptasamband eða gagnkvæmir hagsmunir.

En þegar varnarlausu barni er stillt upp andspæpnis slíku viðhorfi vakna ýmsar áleitnar spurningar. Hagsmunir þess eru engan veginn tryggðir í samfélagi sem hegðar sér eins og duttlungafullur leigusali sem úthýsir sumum en dekrar við aðra og setur viðskiptahagsmuni ofar öllu. Þannig er mun þyngri undiralda í Tryggðapanti en í Fólkinu í kallaranum en í báðum sögunum er spurt áleitinna grundvallarspurninga um það hvort samfélagið sé í raun þess umkomið að veita börnum sínum öruggt skjól og hvort skeytingarleysi um þeirra hag reynist ekki dýrkeypt þegar fram í sækir.

Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins árið 2007.

Myndin af Auði er fengin af vefsíðunni bokmenntaborgin.is

 

Tengt efni