• Ása Jóhanns

Hulda


Skáld vikunnar er Hulda eða Unnur Benediktsdóttir Bjarklind. Hún fæddist þann 6. ágúst árið 1881 að Auðnum í Laxárdal í Suður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hennar voru Guðný Halldórsdóttir sem var bókhneigð kona og Benedikt Jónsson bóndi á Auðnum en síðar sýsluskrifari og bókavörður á Húsavík. Hulda átti ekki langt að sækja skáldgáfuna þar sem Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum var afasystir hennar. Á 19. öld þreifst blómlegt menningarlíf í Þingeyjarsýslu og sömuleiðis stóðu þingeyskar konur framarlega í baráttu fyrir auknum kvenréttindum. Foreldrar Huldu tóku þátt í þessari menningarvakningu. Benedikt var einn af stofnendum Kaupfélags Þingeyinga og meðal forsvarsmanna lestrarfélags sem var stofnað til að kaupa og kynna félagsmönnum erlendar bækur. Bókakostur félagsins var varðveittur á Auðnum og mun Hulda hafa notið góðs af því. Hulda var næst yngst fimm systra og lögðu foreldrar þeirra kapp á að veita þeim sem besta menntun, kenndu þeim sjálf og fengu auk þess heimiliskennara í íslensku og öðrum tungumálum. Um tvítugt fór Hulda til Akureyrar að læra hússtjórn og hannyrðir og veturinn 1904-1905 var hún við nám í Reykjavík og las þar íslensku og erlend mál .

Árið 1905 giftist Hulda Sigurði Sigfússyni frá Halldórsstöðum í Reykjadal og tóku þau hjónin sér ættarnafnið Bjarklind. Ári síðar reistu þau sér bú á Húsavík og ráku það til ársins 1935. Þau eignuðust fjögur börn; fyrsta barn þeirra fæddist andvana en hin þrjú náðu fullorðinsaldri: Sigríður, Jón og Benedikt. Sigurður er sagður hafa sýnt konu sinni skilning og gert það sem í hans valdi stóð til að hún gæti sinnt skáldskapnum. Til dæmis ferðaðist Hulda tvisvar ein til útlanda og dvaldi þar mánuðum saman til að kynna sér bókmenntir og listir. Fáar konur áttu þess kost á þeirri tíð. Heima í byggð gegndi Hulda hlutverki eins konar menningarfulltrúa því þangað lögðu bæði innlendir og erlendir rithöfundar og menntamenn leið sína. Sömuleiðis var heimili þeirra hjóna opið bágstöddum en seinustu árin var hún rúmföst langtímum saman. Hjónin fluttust til Reykjavíkur árið 1935 og bjuggu að Mímisvegi 4 þar til Hulda lést þann 10. apríl árið 1946.

Hulda fór snemma að yrkja. Það sem hafði hvað mest áhrif á skáldskap hennar var missir fyrsta barns hennar og náttúrufegurðin í Laxárdal. Aðrir áhrifavaldar voru Edduskáldin, Snorri Sturluson, höfundar gömlu biskupasagnanna, Hallgrímur Pétursson, íslenskar þjóðsögur og þjóðvísur og af erlendum skáldum má nefna Dante, Shakespeare, Goethe, Victor Hugo, Tolstoi, Dickens, Ibsen, Björnsson að ógleymdum skáldkonunum Humphrey Ward, Berthu von Suttner og Selmu Lagerlöf.

Fyrstu kvæði Hulda birtust á prenti í kvennablaðinu Framsókn þegar hún var um tvítugt. Hún fór strax að skrifa undir nafninu Hulda og hefur það nafn fest við hana síðan. Á árunum 1904-1905 birtust allmörg ljóð enn eftir skáldkonuna í vikublöðum. Þá fær Hulda svör frá tveimur af höfuðskáldum þjóðarinnar. Einar Benediktsson orti til hennar kvæði og Þorsteinn Erlingsson skrifaði um hana grein þar sem hann hælir henni á hvert reipi og lofar mjög þuluna Ljáðu mér vængi. Þorsteinn lofaði einnig hennar fyrstu ljóðabók Kvæði sem kom út árið 1909. Þá segir Matthías Jochumsson í ritdómi um Kvæði „að falskir tónar finnist færri í ljóðum Huldu, en í kveðskap nokkurra annara skálda hér á landi, síðan Jónas Hallgrímsson leið.“

Þrátt fyrir trúlega vel meint skrif þeirra Þorsteins og Matthíasar þá tala þeir niður til Huldu. Þorsteinn kallar hana t.d. gáfað, góðlátlegt og óframfærið barn, þrátt fyrir að Hulda væri þá orðin 24 ára. Matthías segir að sálarlífslýsingar hennar séu „barnslegar og einfaldar.“ Þá fóru sumir mun harðari orðum um þessa frumraun Huldu. Jónas Guðlaugsson segir yrkisefni Huldu vera einkum „veikar, hvarflandi kvennaþrár og draumar, sem að minnsta kosti fara fyrir ofan garð og neðan hjá flestum karlmönnum.“

Hulda var afkastamikið skáld; á 45 ára rithöfundaferli komu frá hennar hendi tuttugu skáldrit, stór og smá, nokkur smásagnasöfn og sjö ljóðabækurog á sama tíma rak hún stórt heimili. Hún skrifaði einkum ljóð en einnig sögur og ævintýri og sömuleiðis ritaði hún greinar í blöð og tímarit. Þá bjó hún safn bernskuminninga sinna til prentunar. Hulda var einn af frumkvöðlum nýrómantísku stefnunnar og notaði hún t.d. markvisst stílbragðið vísanir sem er einkennandi fyrir nútímaljóð og sömuleiðis sker hún burt rím þegar henni býður svo við að horfa. Þá endurnýjaði hún og endurvakti þuluformið og var óhrædd við að tjá tilfinningar sínar og kvenlegar kenndir.

Hulda er trúlega einna þekktust fyrir þulur sínar, á borð við Ljáðu mér vængi, en einnig ættjarðarljóðið Hver á sér fegra föðurland sem bar sigur úr býtum, ásamt ljóði Jóhannesar úr Kötlum, í ljóðasamkeppni sem efnt var til í tengslum við stofnun lýðveldisins árið 1944.

Grágæsa móðir! ljáðu mér vængi“, svo ég geti svifið suður yfir höf. Bliknuð hallast blóm í gröf, byrgja ljósið skugga tröf; ein ég hlýt að eiga töf eftir á köldum ströndum, ein ég stend á auðum sumarströndum. Langt í burt ég líða vil, ljá mér samfylgd þína! Enga vængi á ég til utan löngun mína, utan þrá og æskulöngun mína. Lof mér við þitt létta fley lítið far að binda; brimhvít höf ég óttast ei eða stóra vinda. Okkar bíður blómleg ey bak við sund og tinda, bak við sæ og silfurhvíta tinda. Eftir mér hún ekki beið, – yst við drangann háa sá ég hvar hún leið og leið langt í geiminn bláa, langt í geiminn vegalausa, bláa.

Hér er hægt að nálgast skemmtilegan vef um skáldkonuna þar sem skrifað er frá hennar sjónarhorni.

Heimild og frekari upplýsingar um ævi og verk Huldu:Guðrún Bjartmars og Ragnhildur Richter. 1990. Inngangur. Hulda. Ljóð og laust mál. Úrval. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og Menningarsjóður, Reykjavík.