SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir28. janúar 2018

Hlaðguður - Hulda

Ljóð vikunnar er Hlaðguður eftir Huldu. Ljóðið birtist í ljóðabókinni Við ysta haf sem kom út árið 1926.

Í ljóðinu Hlaðguður eru vísanir í Völundarkviðu og alkunn ævintýri og unnið listilega úr þeim. Hlaðguður var valkyrja sem kaus frelsi í stað hjónabands og setur ljóðmælandi sig í spor hennar. Þetta er þó ekkert einfalt og endurspeglar ljóðið vel kunnuglega togstreitu konunnar sem lætur sig dreyma um annað líf en vill þó ekki vanrækja móðurhlutverkið. Á meðan hugurinn reikar situr hún við sauma og vonar að vanlíðan hennar bitni ekki á barninu en að hún fái síðar vængi og þor til að upplifa draumalandið.

Frekari upplýsingar um skáldkonuna Huldu má nálgast í Skáldatalinu.

Hlaðguður

Nú brosir hver stjarna og blikar á snæ

við blessaða tunglskinið glaða.

Ég horfi um gluggann sem hafdjúpið nær

til heiðblámans fjarlægstu staða.

Ég veit um land – ó, ég veit um land

sem vafið er þyrnum og blómum.

Ég finn þegar hafbáran fellur við sand

hve fjær ég er rósum og hljómum.

En sagði ég fjær? Hvílík synd var mér slíkt.

Hvort sefur ei dóttir hjá arni?

Og er ekki vorinu viðkvæma skylt

sá varmi sem stafar af barni?

Við rósofið línið og léttvarman dún

hún lítil og gullfögur sefur

með sólbjarmans lokka og liljunnar brá

sem ljósþoka draummorguns vefur.

Nú tekur þá drífan að falla á fold.

Hve fönnin skín ljósbjört við mána.

Ég sauma við gluggann – til blóðs til blóðs.

Hve biksvört er klöppin við lána.

Ég þarf ekki að óska ég eigi mér nift

sem ebenvið, blóðið og snæinn;

í vöggunni hjá mér það óskabarn er,

- ein ungrós við dunandi sæinn.

Ég veit um land – ó, ég veit um land

sem vorgyðjan umlykur höndum.

Hve hár og hve sterkur var boðinn sem bar

mig burt frá þess ónumdu ströndum.

Ég man hve ég barðist – að síðustu sveik

mig sjófarans dugur og kraftur.

En þráin er landnema sífellt jafn sár

í sæfaðminn, aftur og aftur.

Ég sauma við gluggann – til blóðs til blóðs.

Hve blikar á gull í þeim lundum.

En þyrnarnir gróa í hundrað ár hátt

og hætt er þar kóngsbarna mundum.

Ég veit að ég átti að vinna úr mold

þá vætt er und trjárótum sefur

og smíða úr gullinu gripi og skart,

það glampar – og veit ei hvað tefur.

En þú – ó, hin saklausa sætan mín smá,

skalt sannlega aldrei það finna

að móðir þin nálspor hvert telji og tár

sem til þín hún átti að vinna.

Hér vantar enn legg, hér vantar enn rós

að verði‘ henni línið við hæfi;

ég vildi að mitt blessaða litla ljós

æ ljúfan og rótt við það svæfi.

- Á hafgeiminn opinn skín máninn nú milt

og márinn til eyjanna flýgur.

Mér finnst eins og vængir mér vaxa og þor

er vindur á bárurnar stígur.

Hver veit nema sumardís ætli mig enn

á útleið í far sitt að taka?

Ég bý mig í álfheimi undir þá för,

þar ætla‘ ég að starfa og vaka.