• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna

Í gærdag fór fram tilnefningahátíð Fjöruverðlaunanna - bókmenntaverðlauna kvenna á Borgarbókasafni í Tryggvagötu. Það var mikil eftirvænting í loftinu á meðan beðið var eftir úrskurði dómnefnda. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir setti hátíðina og síðan stigu fulltrúar dómnefnda á stokk og gerðu grein fyrir tilnefningum í hverjum flokki fyrir sig.

Sigrún Birna Björnsdóttir kynnti tilnefningar í flokki barna- og unglingabóka en með henni í dómnefnd voru Arnþrúður Einarsdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir. Eftirfarandi bækur voru tilnefndar: Lang-elstur í bekknum eftir Bergrúnu Íris Sævarsdóttur, Gulbrandur Snati og nammisjúku njósnararnir eftir Brynhildi Þórarinsdóttur og Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Brynhildur gat ekki mætt og leysti Sigþrúður Gunnarsdóttir, ritstjóri Forlagsins, hana af hólmi.

Sigurrós Erlingsdóttir kynnti tilnefningar í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis en með Sigurrós sátu einnig í dómefnd Helga Haraldsdóttir og Þórunn Blöndar. Í þessum flokki voru eftirfarandi bækur tilnefndar: Íslenska lopapeysan: Uppruni, saga og hönnun eftir Ásdísi Jóelsdóttur, Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur og Undur Mývatns: Um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Jökulsdóttur.

Salka Guðmundsdóttir kynnti tilnefningar í flokki fagurbókmennta en ásamt henni sátu Bergþóra Skarphéðinsdóttir og Guðrún Lára Pétursdóttir í dómnefnd. Bækurnar sem hlutu tilnefningu voru: Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Slitförin eftir Fríðu Ísberg og Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur.

Nálgast má rökstuðning dómnefnda fyrir valinu á heimasíðu Fjöruverðlaunanna.

Skáld.is óskar höfundunum til hamingju með tilnefningarnar.