• Ása Jóhanns

Vilborg Davíðsdóttir


Vilborg Davíðsdóttir með nýjustu bók sína Blóðug jörð.

Skáld vikunnar er Vilborg Davíðsdóttir. Vilborg gaf nýverið út lokabókina í þríleiknum um landnámskonuna Auði djúpúðgu. Bókin ber nafnið Blóðug jörð og er sjálfstæð saga um siglingu Auðar yfir hafið frá Skotlandi til Íslands.

Sögulegar skáldsögur Sem höfundur hefur Vilborg unnið bæði með hina sögulegu skáldsögu og sannsöguna en í bók sinni Ástin, drekinn og dauðinn fjallar hún um lífið eftir að eiginmaður hennar greinist með heilakrabbamein sem að lokum dró hann til dauða. Sögulegar skáldsögur Vilborgar telja nú átta bindi en fyrstu verk hennar, unglingabækurnar Við Urðarbrunn (1993) og Nornadómur (1994), fjölluðu um Korku, ambátt sem barðist fyrir betra hlutskipti í upphafi Íslandsbyggðar.

Næstu þrjár skáldsögur Vilborgar taka á síg alvarlegri og dýpri mynd og gerast á 14. og 15. öld. Þær fjalla öðrum þræði um samskipti norrænna manna við aðra menningarheima. Eldfórnin fjallar um atburði í nunnuklaustrinu í Kirkjubæ á 14. öld og kom út árið 1997. Þremur árum seinna kemur út skáldsagan Galdur þar sem sögusviðið er Skagafjörður og ráðandi staða Englendinga í mannlífinu á 15 öld. Hrafninn kom svo út árið 2005 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Bókin gerist á meðal inúíta og norrænna manna á Grænlandi á 15.öld. Þríleikurinn um Auði Ketilsdóttur djúpúðgu Fyrsta bókin í þríleiknum um Auði Ketilsdóttur djúpúðgu kom út árið 2009 og hét einfaldlega Auður. Fjallar hún um uppvaxtarár Auðar í Skotlandi. Vilborg segir þroskasögu Auðar í bókinni en hún elst upp á róstusömum tímum hinna norrænu víkinga og leiðangra þeirra, landnáms og bardaga. Bókinni var gríðarlega vel tekið og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Vígroð, önnur bókin í þríleiknum, kom svo út árið 2012. Í viðtali við Miðstöð íslenskra bókmenntar segir Vilborg um Vígroða:

„Vígroði hefst ellefu árum eftir að fyrri bókinni lýkur, haustið 865. Auður er fráskilin og býr með ellefu ára gamlan son sinn á Katanesi á norðausturodda Skotlands á eigin jörð og hefur ekki haft samskipti við fólkið sitt í Suðureyjum í þessi ár af ótta við að karl faðir hennar gefi hana aftur í hjónaband einhverjum bandamanni sínum. Hún heldur þó í heimsókn á heimaslóðir þegar bróðir hennar kvænist dóttur Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur. Á þessum tíma er Ísland nýlega fundið af Naddoddi sem villtist þangað á leið frá Noregi til Færeyja, og fólk er farið að tala um þessa óbyggðu eyju langt norður í hafi, við brún heimskringlunnar. Sögusagnir eru um að þar sé næg veiði í ám og vötnum en óvíst hvort þar sé yfirleitt byggilegt að vetrum, svo nálægt sem þetta er Niflheimi, siglingin löng og ekki einu sinni landsýn að hafa stóran hluta hennar. Miklar ófriðarblikur eru á lofti á Bretlandseyjum og margir seilast eftir völdum á yfirráðasvæði norrænna manna, bæði Manarkonungur, Orkneyjajarl og konungur Skota. Um jól þetta ár bætist Ólafur hvíti, fyrrverandi maður Auðar, síðan í „vargahópinn“ þegar hann gerir innrás í Skotland frá Dublin og þau hittast aftur.“

Hér má sjá viðtal við Vilborgu um Vígroða í Kiljunni.

Í Blóðugri jörð, nýjustu og jafnframt síðustu bókinni í þríleiknum, hittum við Auði fyrir á faraldsfæti. Líf hennar hefur verið viðburðaríkt og hún ákveður að forða sér og barnabörnunum frá Skotlandi til Íslands. Í kynningu bókarinnar segir að eftir dauða Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs ,,stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum, ábyrg fyrir lífi ungra sonarbarna. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar[…]." Nýja landið er þó vígt blóði og eftir uppreisn þræla á Suðurlandi kemst einn lífs af ,,maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs." Egill Helgasson tók Vilborgu tali á Krosshólaborg þar sem Landnáma segir að Auður djúpúðga hafi reist krossa, í grennd við býli sitt Hvamm í Dölum. Viðtalið birtist í Kiljunni.