SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir26. nóvember 2017

María Rán Guðjónsdóttir tilnefnd í þriðja sinn

María Rán Guðjónsdóttir er ein af sex þýðendum sem tilnefnd var til Íslensku þýðingarverðlaunanna á föstudag fyrir skáldsöguna Veisla í greninu eftir mexíkóska rithöfundinn Juan Pablo Villalobos. Útgefandi: Angústúra. Þetta er í þriðja sinn sem María Rán hlýtur tilnefningu til þýðingaverðlaunanna en hún var tilnefnd árið 2014 og 2010. Um þýðingu Maríu Ránar á Veislu í greninu segir: "Veisla í greninu er átakanleg en jafnframt grátbroslega saga um einangrað barn í hrottalegum heimi. Sagan er lögð í munn barnsins en fullorðinslegt orðfærið skapar spennu milli hins barnslega og hins miskunnarlausa og kemur upp um brenglunina í tilveru barnsins. María Rán heldur listilega vel í tón og takt sögunnar og framandleiki bæði sögusviðs og aðstæðna kemur skýrt fram. Hér er á ferðinni stór saga í lítilli bók."

Í umsögn um bókina segir skáldið Sjón:

,,Juan Pablo Villalobos tekst hið ómögulega. Hann fer með lesandann á háskalegar slóðir mexíkósku eiturlyfjamafíunnar og sýnir honum þá grimmu veröld með augum barnslegs sakleysis. Fyrir sögumanni eru myrkraverkin í glæsihöllinni eðlilegur hluti tilverunnar. Og hver vildi ekki eiga pabba sem getur gefið honum eins marga hatta og hann langar í og líka dvergflóðhest? Veisla í greninu er engu lík og situr lengi eftir í huganum að lestri loknum."