SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir16. nóvember 2017

Bókamessa í Hörpu

Það er spennandi helgi framundan, þann 18. og 19. nóvember, því þá fer fram hin árlega Bókamessa í Hörpu. Að henni standa Bókmenntaborgin og Félag íslenskra bókaútgefanda. Dagskráin í ár er fjölbreytt og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Þær eru ófáar skáldkonurnar sem taka þátt í hátíðinni. Til dæmis má nefna að á laugardeginum spjalla Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og Katrín Harðardóttir þýðandi um bækurnar Vertu ósýnilegur - Flóttasaga Ishmaels og Ég er Malala en báðar fjalla um ungt fólk sem er hrakið að heiman og út í óvissuna. Þá ræðir Soffía Auður Birgisdóttir um Tvenna tíma, endurminningar Hólmfríðar Hjaltason sem Elínborg Lárusdóttir skráði og eru nú endurútgefnar, og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir kynnir bókina Það sem dvelur í þögninni sem fjallar um sögu formæðra hennar. Á sunnudeginum verður m.a. skrímslasmiðja og ratleikur fyrir börnin og auk þess lesa barnabókahöfundar úr verkum sínum. Fjölmargar skáldkonur flytja nýútkomin ljóð og Vilborg Davíðsdóttir ræðir um nýjustu bók sína Blóðuga jörð, sem er síðasta bókin í þríleik hennar um landnámskonuna Auði Ketilsdóttur. Hér er fátt eitt nefnt en dagskrána alla má nálgast hér.

Myndin er sótt á vefsíðuna Bókmenntaborgin.is.