• Ása Jóhanns

Halldóra K. Thoroddsen

Skáld vikunnar er Halldóra K. Thoroddsen. Halldóra hefur sent frá sér sjö verk, fjórar ljóðabækur, örsögusafn, smásögusafn og nóvellu. Hún hlaut Fjöruverðlaunin fyrir bók sína Tvöfalt gler árið 2016 og einnig verðlaun Evrópusambandsins 2017 fyrir sömu bók. Bókin fjallar um eldri komu sem verður ástfangin á efri árum, umfjöllunarefni sem er sjaldséð í íslenskum skáldskap.

Í tilefni bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins 2017 segir Halldóra Thoroddsen frá bókinni í þessu myndbroti.

Í kynningu útgefanda um bókinna Tvöfalt gler segir að þetta sé ,, stór saga þótt stutt sé og tekst höfundi sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Tvöfalt gler er bæði gegnsætt og einangrandi. Á bak við það leynist líf sem lifað er af ítrustu kröftum, líf sem hamast á glerinu eins og fluga að hausti sem enn er sólgin í birtuna." Dómnefnd Fjöruverðlaunanna kemst svo að orði í umsögn sinni við veitingu verðlaunanna árið 2016:

Í Tvöföldu gleri er skrifað um konu á áttræðisaldri sem hefur nýlega misst eiginmann sinn. Þegar hún lendir óvænt í ástarsambandi stendur hún frammi fyrir spurningum um réttmæti þess að verða ástfangin á efri árum, en jafnframt sýnir saga hennar á einstakan máta fram á fegurð slíkra ásta. Tvöfalt gler er þétt, skrifuð af einstöku næmi og hún er „stór“ þótt hún sé stutt. Höfundur dregur upp eftirminnilega mynd af lífsþorsta og ástarþrá manneskju sem dafnar og vex þegar dauðinn er allt í kringum hana. Halldóru Thoroddsen tekst sérlega vel að lýsa miklum tilfinningum í fáum en dýrmætum orðum. Verðlaunasagan Tvöfalt gler er lágstemmd og fögur – og stíllinn tær, ljóðrænn og sindrandi.

Halldóra heimsótti Kiljuna og ræddi við Egil Helgasson um bókina.

Ggnrýnendur Kiljunnar fjölluðu einnig um verkið.