SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn27. október 2017

,,HVAÐ GETUR GERST ÞEGAR ÓTTI OG ÖRVÆNTING TAKA VÖLDIN?“ - Viðtal við Sólveigu Pálsdóttur

Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur

Júlía Sveinsdóttir hitti höfund að máli um haust:

Leikarinn, bókmenntafræðingurinn, kennarinn og rithöfundurinn Sólveig Pálsdóttir hefur starfað við margt um ævina, kynnst mörgum mismunandi manneskjum og sú þekking kristallast í bókunum hennar. Í nýjustu bók sinni, Refurinn, kemur Sólveig m.a. inná málefni innflytjenda og þeirra sem ekki hafa vald á tungu landans. Sólveig leiftrar af frásagnagleði og það er auðvelt að hrífast með þessa stund á kaffihúsinu. Vindurinn feykti okkur Sólveigu Pálsdóttur á Kaffi París í týpísku íslensku haustveðri, rok og sól. Við tökum okkur tíma að dáðst að nýuppgerðum staðnum og ímyndum okkur örskotstund að við séum staddar í París Frakklandi. Ástæða kaffihúsaferðarinnar var að ræða aðeins um bókina Refurinn sem kemur út þann 2. nóvember næstkomandi. Fyrsta bók Sólveigar Leikarinn, sannkallaður sálfræðitryllir, kom út árið 2012, Hinir Réttlátu og Flekklaus fylgdu á eftir. Í bókunum hafa lesendur fylgst með rannsóknalögreglumanninum Guðgeiri og samstarfsfólki hans Særósu og Andrési takast á við margslungin glæpamál.

Hefurðu alltaf verið að skrifa?
Mér fannst alltaf eins og ég hefði aldrei skrifað neitt áður en ég byrjaði að skrifa Leikarann en auðvitað var það ekki þannig. Þau störf sem ég vann fram að þeim tíma voru öll með einum eða öðrum hætti tengd skriftum eða greiningu á texta en ég reyndi mig samt lítið við að skrifa skáldskap en vann efni fyrir útvarp, alls kyns kennsluefni, ræður, greinar og fleira sem er vissulega góð þjálfun.

Hvernig vaknaði áhugi þinn á bókmenntum?
Frá sex ára aldri var ég öll sumur í sveit. Þar, í Hraunkoti í Lóni í Austur- Skaftafellssýslu, lærði ég að lesa og uppgötvaði fljótt töfraheim bókanna sem styttu mér stundir langa rigningardaga. Svo er ég langyngst fimm systkina og bækurnar voru mér góður félagsskapur heima en foreldrar mínir áttu gott safn bóka og ég las þær nær allar. Móðurafi minn var líka mikill bókasafnari, átti eiginlega heilt bókasafn. Ég fyllist því vellíðunarkennd innan um bækur en afi er ekki aðeins tengdur bókum í mínum huga heldur líka leikhúsi því með honum fór ég fyrst í leikhús. Já, leiklistin og áhrifavaldar? Eins og ég sagði fór ég oft með afa mínum í leikhúsið og fékk fljótlega brennandi áhuga á því. Ég var í látbragðsleikskóla sem barn, byrjaði fimmtán ára gömul á leiklistarnámskeiðum hjá Helga Skúlasyni og var á helgarnámskeiðum hjá honum í ein fjögur ár eða allt þar til ég komst inn í Leiklistarskóla Íslands. Þar tók við fjögurra ára leiklistarnám í átta manna bekk, þetta var lærdómsríkur og skemmtilegur tími en um leið nokkuð erfiður. Eftir útskrift tók við tíu ára tímabil af hinu íslenska ,,þetta reddast”. Ég vann út um allt m.a. í Þjóðleikhúsinu og með ýmsum leikhópum, var dagskrárgerðarmaður á rás 1 og sá um alls kyns þætti, kenndi í skólum, las inn á auglýsingar og fleira. Oftar en ekki var þetta kvöld og helgarvinna. Á sama tíma eignuðumst við þrjú börn og vorum að koma yfir okkur þaki. Aðgengi að leikskólavistun var ekki hið sama og er í dag svo þetta var oft skemmtilegt en mikið púsl og óöryggi. Einn daginn fékk ég bara nóg af þessu og ákvað að snúa mér að einhverju sem væri praktískara. Það gekk ekki alveg upp hjá mér. Fyrst innritaði ég mig í stjórnmálafræði en skipti síðan yfir í almenna bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Viðtal við Sólveigu Pálsdóttur

Bókmenntafræðin var mjög góður skóli, góð almenn þekking en þar lærði ég líka akademísk vinnubrögð og ritgerðasmíði. Það kom sér vel að hjónin vorum bæði í námi á þessum tíma, hann með fullri vinnu, ég stöku verkefni í lausamennsku en krakkarnir okkar þrír voru öll undir tíu ára aldri svo það var nóg að gera. Við hjónin vorum mjög samhent í því að halda „röð, reglu og rútínu“ í heimilishaldinu því aðeins þannig gekk þetta upp. Við settumst við að læra um leið og börnin voru sofnuð en skiptumst á um helgar. Það var fínt að enginn tími fór í samskiptamiðla eða nethangs á þessum árum. Ég tók svo kennsluréttindi og við tók skemmtilegur og frjór tími við kennslu. Ég kenndi fullt af sjálfstyrkingar-og samskipta námskeiðum fyrir Iðntæknistofnun/ Nýsköpunarmiðstöð, vann fyrir útvarp Umferðaráðs, kenndi leiklist og tjáningu út um alla borg og tók að mér afleysingarkennslu í skólum. Í raun var þetta engu minni þeytingur en áður en bara betur borgað, fleiri möguleikar og ég gat stýrt lífi mínu betur sjálf. Meðal þess sem ég gerði var að kenna leiklist og tjáningu í Hringsjá, náms- og starfsþjálfun en fljótlega fór ég að kenna íslensku líka. Þegar mér bauðst fullt starf við skólann tók ég því fegins hendi enda orðin langþreytt á hlaupunum á milli vinnustaða. Í Hringsjá kenndi ég í 17 ár en sagði endanlega upp 2014 þegar ég ákvað að einbeita mér að ritstörfum.

 

 

Hvernig stóð á því að þú byrjaðir að skrifa?
Þannig var að með árunum fann ég æ meira til þess að eitthvað vantaði í líf mitt þótt flest gengi mér í haginn hvað varðaði atvinnu- og fjölskyldulíf. Ég hef alltaf haft mikla sköpunarþörf og hafði í nokkur ár fengið útrás með því að vinna að ýmsum menningarverkefnum meðfram kennslunni en nú fór ég að finna fyrir löngun til að skrifa skáldskap. Ég sá þó fljótt að ég var of meðvituð um það sem ég hafði lært í bókmenntafræðinni og textinn bar þess merki. Um þetta leyti ákvað ég að skynsamlegt væri að sækja um MBA nám við Háskólann í Reykjavík en áður en kom að því að hefja nám dreif ég mig á námskeið í ritlist hjá Þorvaldi heitnum Þorsteinssyni rithöfundi og myndlistarmanni. Þar losnaði fljótt um öll höft á sköpunargleðinni og ég komst í gírinn. Þorvaldur hvatti mig til að skrifa en ég sagðist ætla að fara í MBA nám. Þá spurði hann mig hvort ég hefði brennandi áhuga á viðskiptum? Ég svaraði neitandi, muldraði eitthvað um að þetta væri praktískt nám, en hann brosti bara og sagði: „Þarna sérðu“. Það þurfti ekki meira til að ég hætti við námið og næstu mánuðina fikraði ég mig svo áfram með hugmyndina að Leikaranum. Sú bók átti ekkert endilega að verða spennusaga. Heldur miklu fremur skáldsaga um venjulega manninn í næsta húsi. Mig langaði að skapa trúverðugar persónur í bók, skrifa um fólk sem ég hefði gaman að lesa um og var ekki með glæpasögu í huga en smám saman fór plottið að mótast í huga mér og eftir því sem ég þræddi fleiri þræði saman því skemmtilegra fannst mér að skrifa. Þannig má segja að ég hafi leiðst út í glæpasögur vegna spennunnar. En ef tekið er tillit til alls þess sem vekur áhuga minn, mannlegt atferli, sálfræði, þjóðsagnir, ráðgátur og krossgátur, er kannski ekkert undarlegt að Leikarinn hafi endað sem glæpasaga. Sögur fólks eru áhugaverðar, hvað mótar persónuleika þeirra og gjörðir? Hvað getur gerst þegar örvænting og ótti taka völdin? Það er óhemju spennandi að kafa ofan í það, nákvæmlega eins og það var ögrandi að skapa persónu á sviði sem var kannski algjör andstæða við mína eigin. Setja sig inn í hugsanir hennar og gjörðir. Munurinn er sá að leikarinn fær ákveðnar forsendur til að vinna út frá en rithöfundurinn hefur miklu meira frelsi til að skapa.

Í nýju bókinni þinni, Refurinn, er ein persónan, Sajee, af erlendum uppruna og kemur úr gjörólíkum menningarheimi. Hún skilur íslensku en getur ekki lesið okkar ritmál. Af hverju skrifarðu um þetta málefni?

Ég er ekki að skrifa um ákveðið málefni en eins og ég sagði áðan þá gefur spennusagan/ glæpasagan, tækifæri til að koma inn á ólík svið mannlífsins. Að baki persónu Sajee liggja margar og margvíslegar ástæður. Ein er sú að ég hef sjálf lent í þeim aðstæðum að villast í landi þar sem ég skildi hvorki tungu- né ritmálið. Ég mun aldrei gleyma tilfinningunni sem greip mig þá. Ég skynjaði svo sterkt að ég var stödd í menningarheimi sem ég tilheyrði ekki, fann fyrir miklu óöryggi og varnarleysi. Sajee er sterkari en ég var þá en sem betur fer kom ekkert fyrir mig. Ég geymdi þó tilfinninguna því sem leikari er gott að geyma tilfinningar. Geyma þær í „tilfinningabankanum“ til þess að geta dregið þær upp og unnið með þær síðar með skapandi hætti. Nákvæmlega sama gildir um ritstörf, maður þarf að geta sett sig í spor annarra og komið því frá sér á trúverðugan hátt. Önnur ástæða er að ég hef kynnst, bæði í gegnum kennslu og annað í lífinu, fólki sem býr hér á landi en mjög einangrað. Sumir eiga börn sem koma t.d. með skilaboð heim frá skóla og íþróttafélögum sem foreldrarnir geta ekki lesið. Kona frá Suður- Asíu sem ég þekki kvartaði undan þessu og bað um að það væri hringt í sig en fékk það svar að hún yrði bara að fylgjast með á Fb líkt og allir aðrir. Þessi kona getur hvorki lesið né skrifað íslensku þótt hún hafi búið hér árum saman og geti gert sig þokkalega skiljanlega og maðurinn hennar ekki heldur. Ritmál þeirra er eins ólíkt okkar og hugsast getur. Konan reyndi að fara á námskeið í íslensku en gafst upp því hún á þrjú ung börn og vinnur sem húshjálp alla daga. Það gekk hreinlega ekki upp þrátt fyrir að hún sé hörkudugleg. Ég þekki margar álíka sögur. Við skulum heldur ekki gleyma að fólki sem er borið og barnfætt hér á landi en getur ekki endilega lesið eða skrifað sér til gagns. Því fylgja miklar takmarkanir sem hafa gríðarleg áhrif á líf fólks.