SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir23. október 2017

„ … LYGASAGAN UM HEIMINN OG MIG“ Ljóðagerð Ingibjargar Haraldsdóttur

Ingibjörg Haraldsdóttir

Soffía Auður Birgisdóttir:

Þegar Ingibjörg Haraldsdóttir tók á móti Íslensku bókmenntaverðlaununum, þann 30. janúar 2003, fyrir ljóðabókina Hvar sem ég verð, gerði hún vantrú á lífslíkur ljóðsins að umtalsefni:

 

Þær raddir heyrast af og til að ljóðið sé við dauðans dyr, komið að fótum fram, eigi sér engan tilgang í nútímanum innan um glingur og glans, töfratól og tryllitæki, eigi sér enga framtíð nema ef vera skyldi á einhverri gjörgæsludeild. Ég tek ekki undir þetta svartagallsraus.

 

Ingibjörg flutti síðan snjallan pistil um nytsemi ljóða og færði sönnur á ljóð geta læknað þunglyndi og líknað sjúkum auk þess sem afþreyingargildi þeirra sé ótvírætt, til að mynda þegar hafa skal ofan af fyrir börnum, en umfram allt séu ljóðin mannbætandi og stuðli að söng sálarinnar. Læknis- og líknarmáttur ljóðsins og þráin eftir að snerta aðra með skáldskapnum er einnig til umræðu í ljóðum Ingibjargar eins og sjá má af þessum ljóðlínum úr nýju bókinni:

 

gæti ég bara snert þig
snaróðum orðum
og ljóðum sem lækna

 

Hvar sem ég verð kom út á afmælisdag skáldsins, en Ingibjörg varð sextug í október 2002. Það er því kannski engin tilviljun að talan sex er víða á sveimi í verkinu. Bókinni er skipt upp í sex hluta, hver hluti hefur að geyma sex ljóð, að þeim síðasta undanskildum þar sem er að finna ljóðabálk sem deilist niður í 2x6, eða tólf hluta. Þá er verkið sjötta ljóðabók höfundar[1] Kannski má segja að utan þessa talnaleiks (eða tilviljunar) standi fyrsta ljóð bókarinnar „Fyrir þig“ þar sem Ingibjörg yrkir í minningu Nínu Bjarkar Árnadóttur. Sú fallega kveðja til liðinnar skáldkonu gefur tóninn fyrir annað meginstef ljóðanna í bókinni, en hægt er að segja að dauðinn og skáldskapurinn (eða sköpunarkrafturinn) myndi saman þann tvíhljóm sem sterkast hljómar í Hvar sem ég verð.

Ingibjörg er margverðlaunuð, bæði fyrir ljóðagerð sína og þýðingar, en þessu tvennu hefur hún sinnt jöfnum höndum undanfarna þrjá áratugi. Ef talið væri í titlum og blaðsíðufjölda mætti álykta að þýðingarstarfið sé aðalvinna Ingibjargar og ljóðagerðin meira svona aukageta. Sem ljóðskáld fór hún hægt af stað og alllangur tími líður á milli bókanna, en þýðandinn hefur sent frá sér hvert stórvirkið af öðru svo til á hverju ári frá 1989. En á listrænt gildi verða ekki settir neinir tölulegir mælikvarðar og fáir velkjast í vafa um stöðu Ingibjargar meðal hinna bestu í hópi íslenskra ljóðskálda.

Ferill ljóðskáldsins hófst árið 1974 með útgáfu bókarinnar Þangað vil ég fljúga þar sem skáldið kynnir sig í ljóðinu UPPHAF. Þar segir meðal annars frá því að

 

í gráu húsi
í bláhvítu landi við ysta haf
einn októberdag fyrir löngu

 

hafi skáldkonan fæðst og þar með hafist það sem hún kallar „lygasagan um heiminn og mig“. Þessi sýn, að ekki sé allt sem sýnist í lífinu, gengur síðan sem rauður þráður í gegnum skáldskap Ingibjargar. Við þráum öll að skynja lífið sem sögu og búa til sögu úr tilveru okkar en þeirri þrá verður aldrei fullnægt og það eina sem við getum búið til eru mismunandi útgáfur af lygasögum. Ýmsir er á þeirri skoðun að ljóðið sé betur til þess fallið að höndla einhvern kjarna (eða sannleika) um tilveruna en nokkuð annað form skáldskaparlistarinnar. Kannski má segja að ljóðið feli í sínu knappa formi aflvaka íhugunar og aðeins með því að láta það kveikja á hugsun sinni geti lesandinn nálgast einhvern kjarna og sneitt hjá „lygasögunum“. Sjálf er ég höllust undir þá skoðun að hvert líf búi yfir ótal söguþráðum og að í hverju okkar búi margar manneskjur – og kannski er farsælt líf undir því komið að geta látið þessa mergð njóta sín um leið og sambýlið verður að ganga án stóráfalla.

Í ljóðabókum Ingibjargar eru sagðar sögur af mörgum konum, sem mig grunar að búi allar innra með skáldkonunni, eða hafi að minnsta kosti gert svo um stund. Jafnvel ber svo við að lýst er eftir týndum konum, eins og í einu ljóði þriðju ljóðabókarinnar:

 

Lýst er eftir konu
sem fór að heiman í árdaga
fáklædd og loguðu
eldar í augum

 

Þessi týnda kona er að öllum líkindum sú sem kynnt var til sögu í Þangað vil ég fljúga. Ingibjörg yrkir þar um æsku sína og uppvöxt og segir frá því hvernig heimurinn opinberast fyrir lítilli stúlku smátt og smátt með öllum sínum ógnum og furðum. Þessi litla stúlka spinnur upp sögur og ævintýri sem hún segir kúnum úti í haga sem lygna augunum og hlusta þolinmóðar. Þegar hún kemur heim eftir sumardvöl úr sveitinni hefur þrengst um í margs konar skilningi:

 

…snorrabrautin
hefur þanist út og harnað
í gráu ryki gnæfa húsin
upp úr steinmörkinni
og hvergi sér í gras
allt hefur stækkað nema kyrtran okkar
í kjallaranum

 

En fleiri breytingar hafa orðið, lítill bróðir sefur í kommóðuskúffu og faðirinn útskýrir fyrir dóttur sinni hvað það þýðir að vera í verkfalli. Stúlkan vex upp, kyssir álfaprins í leiksýningu en neitar honum síðan um koss í húsasundi. En með kynþroskanum kemur aukinn skilningur á umheiminum og hún sem fædd er á stríðstímum gerir sér grein fyrir áhrifum stríðs á börn:

 

það er svo erfitt fyrir börn
að vera hamingjusöm
þegar himininn rignir eldi
og barnamorðingjarnir ganga lausir

 

Þessi „þroskasaga“ sem sögð er í nokkrum fyrstu ljóðum bókarinnar, leggur grunn að þeirri ljóðveru sem mælir í ljóðunum sem á eftir koma. Af lærdómi bernskunnar og uppeldinu í föðurhúsum sprettur hin pólitísk meðvitaða kona sem heldur út í heim og lítur á jarðarbúa sem félaga sína og

 

sambýlismenn
á þessari stjörnu

 

En þrátt fyrir samkennd með öðrum á hún einnig stundir einmanaleika og þrár eftir heimalandinu:

 

Að vera útlendingur
er að geyma í lokaðri hirslu
sumarnótt í kyrrum björtum bæ

 

Þegar Þangað vil ég fljúga kom út hafði Ingibjörg búið um árabil erlendis. Hún hafði lokið Mag.art.-prófi í kvikmyndastjórn frá Kvikmyndaskóla ríkisins í Moskvu (1969) og hafði starfað sem aðstoðarleikstjóri í Havana á Kúpu frá 1970. Það þarf því ekki að koma mjög á óvart hversu þroskað ljóðskáld kemur fram strax í þessari fyrstu bók. Höfundur er kominn á fertugsaldur og hefur búið og mannast með erlendum þjóðum lengi. Allt þetta setur að sjálfsögðu svip sinn á ljóðin í Þangað vil ég fljúga. Ingibjörg sneri aftur til Íslands aðeins ári síðar, 1975, en alllangur tími leið þar til næsta bók hennar, Orðspor daganna, kom út. Það var árið 1983 og þá hafði hin íslenska hversdagsbarátta sett mark sitt á skáldið, eins og sjá má af mörgum ljóðum þeirrar bókar. En hún hefst á ljóðinu ÚTLEGÐ sem er í raun afbragðs tenging á milli þessa tveggja fyrstu bóka. Þar er sagt frá konu í suðrænni borg sem er þó ekki allskostar heima hjá sér því að í göngulag hennar vantar trumbusláttinn. Konan flytur aftur heim en Ísland tekur ekkert sérlega hlýlega á móti henni. Hún átti von á hlýjum faðmi:

 

sól
í grænu grasi
huggun
hvíld

 

En vonin brást og hennar biðu

 

nakin fjöll
og naprir vindar

 

Í Orðspori daganna hefur tíminn þrengt sér fram sem eitt aðalviðfangsefnið. Skáldið finnur fyrir öryggisleysi yfir því að geta ekki stöðvað dagana sem „koma og fara“ og „verða að vikum / mánuðum árum“. Í bókinni ríkir sterk tilfinning fyrir missi og glötuðum tækifærum, hversdagslífið hefur fangað ljóðmælandann með öllum sínum efnislegu kröfum og hér má einnig sjá áleitnar hugsanir um stöðu kvenna:

 

Markmiðin nálgast
minnka
leysast upp og hverfa
niðrum eldhúsvaskinn
líf mitt

 

Ljóðmælandinn lítur í spegil og sér:

 

ekki mig heldur einhverja
miðaldra konu
sem hefur drukkið of mikið
reykt of mikið
og talað ógæfulega

 

og hittir vinkonur sínar

 

óvænt
í fiskbúðum veruleikans [...]
(miðaldra kellingar / að kaupa í soðið)

 

Ljóðmælandinn sem var dóttir og ferðalangur í fyrstu bókinni er orðin móðir sem er

 

á flýtisferð um lífið [...]
frá þvottavél til ritvélar
frá eldavél til ryksugu
frá morgni til kvölds

 

Það er helst í síðasta hluta bókarinnar, sem hefur að geyma ljóðaþýðingar, þar sem merkja má að þær pólitísku hugsjónir og draumar höfundar sem fyrsta bókin bar vitni um búa enn með henni.

 

Nú eru aðrir tímar er titilinn á þriðju ljóðabók Ingibjargar sem kom út 1989 og hefur hann bæði pólitíska og persónulega skírskotun. Bókin kemur út á tímum mikilla þjóðfélagsbreytinga og upphafsljóð bókarinnar, „Auglýsing“ – um týndu konuna sem vitnað var í hér að ofan – ber vitni um að ljóðveran sjálf hefur líka breyst. Úlfhildur Dagsdóttir hefur lagt út af þessu ljóði á eftirfarandi hátt:

 

...vísa [upphafsorðin] til þeirra hamskipta sem orðin voru á pólitískum eldhita, bæði skáldkonunnar og þjóðfélagsins. Hins æskurjóða (skáld)kona sem „lagði á brattann og hvarf / inn í viðsjála þokuna“ verður tákn fyrir byltingarhita, en síðan hún hvarf inn í þokuna hefur hún „ekki sést“. En þótt sú æskurjóða hafi lagt á brattann og horfið þá er langt í frá að sú sem eftir situr hafi tapað eldinum, enn brennur skáldkonunni eldur í augum, en nú er það ljóðeldur.[2]

 

Skáldkonan sem auglýsir eftir sjálfri sér í líki fáklæddrar konu með logandi augu (ég geng út frá því (eins og Úlfhildur) að hér sé um sjálfsmynd að ræða) gerir það af hlýju og húmor og þetta tvennt setur áþreifanlegt mark sitt á bókina í heild og ef til vill er helsta þróun Ingibjargar sem skálds fólgin í því að sú ívið dapra sýn sem öðrum þræði setti mark sitt á Orðspor dagana víkur hér fyrir léttleika og dýpri íroníu en finna má í fyrri bókunum tveimur. Aðrar breytingar sem merkja má þegar þessar fyrstu þrjár bækur eru skoðaðar í heild eru meiri fágun í beitingu ljóðmálsins sem helst í hendur við meiri rósemi, meiri sátt við tilveruna, óþolið sem einkenndi mörg ljóðanna í Orðspori daganna er að mestu horfið, þótt að sjálfsögðu sé skáldinu enn umhugað um stöðu kvenna og félagslegt réttlæti.

Svo rækilega hafði Ingibjörg fest sig í sessi sem eitt af helstu samtímaljóðskáldum okkar með þessum þremur bókum að 1991 var gefið út heildarsafn fyrri ljóðabóka hennar, ásamt ljóðaþýðingum og nokkrum nýjum ljóðum undir heitinu Ljóð 1974-1991. Þetta safn tel ég sem fjórðu ljóðabók Ingibjargar.

Fimmta ljóðabókin Höfuð konunnar, sem kom út 1995, er að mínu mati tvímælalaust meðal albestu ljóðabóka síðustu áratuga. Sá húmor sem setti svip sinn á Nú eru breyttir tímar springur hér út í hinum leiftrandi skemmtilega ljóðabálki sem ber sama titil og bókin í heild. Ljóðið sprettur upp af þeim tveimur tilvitnunum sem standa fremst í bókinni; sú fyrri í Sigfús Daðason: „Mannshöfuð er nokkuð þungt …“ og sú síðari í Egils sögu Skallagrímssonar: „Hann tók upp hausinn Egils og setti á kirkjugarðinn. Var hausinn undarlega mikill en hitt þótti þó meir frá líkindum hve þungur var.“ „Höfuð konunnar er ekki þungt“, er fullyrt í upphafi ljóðabálks Ingibjargar, heldur er það „mjallhvítur / dúnmjúkur / hnoðri“ sem ýmist „siglir / á skærbláum sunnudagshimni / og hlær“; hangir „[s]ykurhvítt / á snúru“ eða „dansar / á Klambratúni í kvöld / undir blindfullu tungli“. Höfðinu getur verið erfitt að halda, segir þar líka, „svo ekki sé minnst / á andlitið.“ Konan tekur jafnvel „höfuð sitt / af stalli / og geymdi milli fóta sér / um hríð“ og í höfðinu „geymir konan […] / klið þeirra daga sem liðu / í alsælu draumsins og dóu / svo válega síðar“. Í þessum hnitmiðaða ljóðabálki tekst Ingibjörgu að lýsa konuævi í hnotskurn um leið og hún tekst klókindalega á við klisjur hefðarinnar. En umfram allt er það persónulegur frumleiki bálksins sem heillar.

Höfuð konunnar hefur að geyma fjölda annarra frumsamdra ljóða en ofannefnds bálks og má til að mynda nefna ljóð um föðurlandið sem Ingibjörg yrkir nú um af eindreginni sátt. Í upphafsljóði bókarinnar, LAND, getur hún fullyrt: „Hér á ég heima.“ Þessi fullvissa kemur þó ekki í veg fyrir að skáldkonan hugsi stundum:

 

Hvar er sú eyja
græn og aftur græn
með háa pálma
og hvítan sand
gula sól
og heitan rakan blæ?

 

og stilli henni upp við hliðina á „Fjallkonunni“ sem hún gekk til í leit að skjóli:

 

En fjallið skautaði
faldi hvítum
 
og kalt var fjúkið við rætur þess

 

Þótt Ingibjörg sé orðin sátt við föðurland sitt munu önnur lönd greinilega alltaf búa innra með henni líka.

Í lok Höfuð konunnar er að finna þýðingu Ingibjargar á ljóðabálki eftir rússnesku skáldkonuna Marínu Tsvetajevu (1892-1941), ásamt kynningu Ingibjargar á henni og hennar eigin ljóðabálki sem hún yrkir til þessarrar skáldsystur sinnar. Þetta efni hefði í raun nægt í heila bók út af fyrir sig enda nær það yfir tæpar fimmtíu blaðsíður. Bálkur Marínu Tsvetajevu er sjálfsævisögulegur og heitir „Ljóðið um endalokin“. Þar lýsir hún á ástríðufullan hátt endalokum þriggja mánaða ástarsambands síns og rússneska útlagans Konstantín Rodzevítsj. Þetta er ástríðufullur skáldskapur um ástir, svik og örvæntingu; skáldskapur sem er mjög ólíkur hinum meitlaða og yfirvegaða skáldskap Ingibjargar sjálfrar, en fjallar á sinn hátt líka um það sem bærist í höfði konunnar. Og Ingibjörg finnur samhljóm á milli sín og hinnar rússnesku skáldkonu, enda hafa ljóð Marínu lostið hana „kylfuhögg á hvirfil“. Í ljóðabálkinum TIL MARÍNU ber Ingibjörg sjálfa sig og Marínu saman, skoðar hið ólíka í lífshlaupi þeirra og reynslu en einnig það sem tengir þær. Þessi bálkur er meistaralega ortur og í honum spretta ljóslega fram þau tvö stef sem síðan áttu eftir að hljóma hærra en önnur í nýjustu bók Ingibjargar, Hvar sem ég verð, dauðinn og skáldskapurinn. Í ljóðmáli hennar myndar þetta tvennt hina einu sönnu andstæðu.

Hvar sem ég verð geymir aðeins frumsamin ljóð Ingibjargar og það ljóðskáld sem hér stígur fram sameinar alla bestu kosti fyrri ljóðabóka höfundar en hér hljóma einnig nýir tónar og tök Ingibjargar á ljóðmálinu eru einstök. Sá ljóðmælandi sem hér birtist hefur ekkert af því óþoli og lítið af þeirri eftirsjá sem greina má í fyrri verkunum, hann er fyrst og fremst sáttur og lítur yfir sviðið af yfirvegun:

 

Klukkan tifar
jörðin snýst
og fólkið er eitthvað að bardúsa
 
Enn sem fyrr

 

segir í „Aldamótaljóði“ sem er upphafsljóð fyrsta hlutans þar sem litið er tilbaka og fortíðin hugleidd.

En það er áður nefnd þrá eftir að geta „snert þig / snaróðum orðum / og ljóðum sem lækna“ sem er áleitnust tilfinninga í bókinni og færist í aukana eftir því sem á bókina líður. En hluti þessarar þrár, eða jafnvel skuggahlið hennar, er vitneskjan um endalokin sem bíða okkar allra. Í þeim ritdómum sem birtust um Hvar sem ég verð núna fyrir jólin voru þessi tvö þemu – dauðinn og skáldskapurinn – ætíð gerð að umtalsefni, en misjafnt hversu mikla áherslu ritdómarar lögðu á hvort fyrir sig. Þannig segir Inga Huld Hákonardóttir í ritdómi á vefritinu Kistan að Ingibjörg sendi „frá sér ljóðaflokk um efni sem er eiginlega bannorð um þessar mundir, sumsé dauðann sem óumflýjanlega bíður okkar allra“.[3] Inga Huld vill líta á ljóðabókina alla sem eina heild, einn ljóðaflokk um dauðann, og titilinn segir hún vísa til „óvissunnar um hvað taki við að þessu lífi loknu“.

Hvar sem ég verð lýsir þá ferðalagi (algengt þema í ljóðum Ingibjargar) sem aðeins getur átt einn áfangastað, dauðann. Ljóðin um skáldskapinn og sköpunarmáttinn eru, í túlkun Ingu Huldar, „andstefið“ eða hinn nauðsynlegi „kontrapunktur“. Sjálfri finnst mér að veldi og máttur skáldskaparins sé rauði þráðurinn í bókinni og dauðaþemað sé ívafið fremur en uppistaðan, eins og ég ítrekaði í ritdómi í Morgunblaðinu. Sigríður Albertsdóttir fer bil beggja í DV og segir til að mynda um ljóðabálkinn sem ber sama titil og bókin að hann megi túlka hvort heldur sem er í tengslum við dauðann eða skáldskapargyðjuna.

Eins og áður segir skiptist bókin í sex hluta. Í þeim fyrsta eru sex ljóð þar sem ljóðmælandi lítur meðal annars til baka til fortíðar, hugleiðir tilveruna í núinu og tjáir þrá sína eftir að líkna með ljóðum. Í öðrum hluta er Ísland í aðalhlutverki; ort er um „nístandi nepjuna“ í janúar og hversu „fráleitt [er] að eiga sér draum / í febrúar“. MARS Í MUNAÐARNESI lýsir þögulu ópi „úr freðnum / iðrum /landsins“ og næstu tvö ljóð lýsa tíðinni þegar allt iðar og suðar á skærgrænu söngfuglasumri. Lokaljóð þessa hluta lýsir því síðan þegar „upplýst aðventan [er] / gengin í garð og borgin / víðaóma breiðmynd // á desembermorgni“. Hér sést glögglega hin hnitmiðaða bygging sem einkennir ekki bara þennan hluta bókarinnar, heldur hvern og einn hinna sex hluta.

Í þriðja hlutanum er ljóðmælandinn, enn eina ferðina, kominn til útlanda og hér er að finna eitt skemmtilegasta ljóð bókarinnar þar sem brugðið er upp ógleymanlegri mynd í gegnum óvænt sjónarhorn:

 

MAR CARIBE
 
Þú nemur staðar á ströndinni
stendur gleiður
í gulhvítum sandi
og þaðan sem ég ligg
sé ég himin mæta hafi
milli fóta þér, sé 
golgrænt löðrandi hafið
milli fótleggja þinna
 
þú snýrð í mig baki
ég legg aftur augun
og sé það sem þú sérð
sjónarrönd sverðfiska
seglbát og sól sem steypir sér
eldrauð í hafið
sé lengra, sé hafsbotninn
þarann og þönglana
kóralrif kistur
fullar af gulli
og beinum
kistur fullar af beinum

 

Í fjórða hluta er brugðið upp sex myndum sem vel má kalla sjálfsmyndir og hér er tekinn upp þráðurinn sem gildastur er í verkinu að mínu mati, því hér er ort um það að yrkja, um skáldskapinn sjálfan. Þessi hluti hefst á tilvísun til Jónasar Hallgrímssonar: „ég þoli ekki þetta dott“ (úr „Andvökusálmi“) og ljóðmælandi tekur þessum orðum sem áskorun og hvatningu um að halda á brattann:

 

Horfa
út yfir víðernin
 
Hlusta
á sönginn
 
Breiða út vængina
 
Fljúga

 

Í ljóðinu „Konan í speglinum“ má sjá skemmtilega vísun í (og mótmynd við) málverk Brugels af Íkarusi, þar sem hann fellur í hafið KONAN Í SPEGLINUM:

 

Konan í speglinum
vindur upp á sig
 
snýr baki í mig
þenur herðablöðin
blakar þeim hægt
hefst á loft
flýgur upp og til hægri
út úr myndinni
ofurhægt
 
það síðasta sem ég sé
er skórinn á vinstra fæti

 

Í ljóðinu „Hin konan“ er talað um aðra konu „sem er líka þú // sem á líf sitt undir þér / og þínum draumum“, og enn annarrar konu er leitað í ljóðinu SKÁLDKONAN SEM HVARF:

 

Var hún lögst til svefns
meðal blómanna hvítu?
 
Var hún hvíslandi lind
var hún smáfugl á grein?
 
Var hún týnd í skógi
 
af skáletruðum orðum?
 
Var hún ef til vill orðin
 
að ljóði úti í skógi?

 

Allar þessar kvenmyndir má túlka sem tilbrigði við sjálfsmynd og tengist því sem sagt var í hér að ofan um hinar mörgu konur og mörgu sögur sem búa í ljóðlist Ingibjargar og eru hver um sig atrenna að sjálfstjáningu, leit að sögum – þó ekki væri nema lygasögum.

Í fimmta hluta Hvar sem ég verð yrkir Ingibjörg „sex lítil næturljóð“ um dauðann og fullvissu þess að „allt / tekur enda“. Í tæru og einföldu ljóðmáli þessa hluta er óttinn og grimmdin ofin saman á listilegan máta, farið er afar sparlega með orðin og hver setning meitluð af vandvirkni. Í þessum næturljóðum takast einnig á þráin eftir lífinu og óttinn við ellina, sem lýst er á miskunnarlausan hátt:

 

Allt sem gamalt er allt
sem skjögrar andfúlt
um gangana man varla
neitt engin orð engin
nöfn allt sem dauðlegt er […]

 

Sjötti og síðasti hluti bókarinnar er síðan ljóðabálkurinn HVAR SEM ÉG VERÐ sem hefst á þessum ljóðlínum:

 

Úr myrkum skógi – rödd
af svörtum himni – orð
 
í lófa mínum skerast allar línur

 

Ljóðið heldur áfram í tólf mögnuðum hlutum þar sem leikin eru tilbrigði um sama stef: Orðin, uppsprettan, hin streymandi tunguvötn, hin „rímuðu stuðlafjöll“ og hinn „myndhverfði himinn“, hesturinn áttfætti, níu nætur í tré og sviknar meyjar; allt miðar þetta myndmál að sama brunni, þeim brunni sem skáldin ausa úr. Hér yrkir Ingibjörg um orðsins list af orðsins list. En inn í þetta stef orðlistarinnar vefst dauðastefið því tíminn sem skáldinu var gefinn „á grænni jörð!“ er takmarkaður og „[b]lóðugt líf“ hangir „á bláþræði“. Endalok bálksins (og bókarinnar) vísa vissulega til jarðarfarar:

 

nú væri við hæfi
að heyrðist í fjarska
 
klukknahljómur
 
og marr í hvítri mjöll

 

en er ljóðskáldið hér að boða endalok ljóðsköpunar sinnar? Nei, auðvita er þetta ein lygasagan!

 

Eftirmálsgreinar

[1] Hér tel ég með Ljóð 1974-1991 þar sem þrjár fyrstu ljóðabækur Ingibjargar voru endurbirtar, auk nokkurra nýrra ljóða.

[2] Úlfhildur Dagsdóttir. „„Hér á ég heima”: heimar, heima og heiman í ljóðum Ingibjargar Haraldsdóttur.“ Bókmenntavefur Borgarbókasafnsins. www.borgarbokasafn.is/bokmenntavefurinn.nsf/pages/rithofundur0156 (24. feb. 2003)

[3] Inga Huld Haraldsdóttir. „Um lífið og dauðann.“ Hrifla um nýjustu ljóðabók Ingibjargar Haraldsdóttur. www.kistan.is (undir bókmenntir / gagnrýni, febrúar 2003 - ekki lengur virkt)

Greinin birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2003.

 

 

 

 

 

Tengt efni