• Jóna Guðbjörg Torfadóttir

Frelsi tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs


Ljóðabókin Frelsi eftir Lindu Vilhjálmsdóttur er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, sjá hér. Bókin hefur fengið lofsamlega dóma. Hún hlaut Menningarverðlaun DV árið 2015 í flokki bókmennta en rökstuðningur dómnefndar var eftirfarandi:

„Þrátt fyrir einstaka fágun sem einkennir ljóðin í Frelsi hefur Linda Vilhjálmsdóttir á engan hátt dregið tennurnar úr ádeilunni eða mýkt hina ískrandi reiði sem hún miðlar í þessari tíðarandalýsingu og heimsósómapredikun. Útkoman er ein sterkasta ljóðabók síðari ára. Þörf áminning um trylling nánustu fortíðar, illþolandi hlutskipti mannkyns í samtímanum og möguleika ljóðsins til að segja sannleikann á meitlaðan og áhrifaríkan hátt.“

Tólf verk eru tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs að þessu sinni, sjá hér. Auk ljóðabókar Lindu tilnefna Íslendingar bók Guðmundar Andra Thorssonar. Svíar tilnefna tvær skáldkonur, Ann Jäderlund og Birgittu Lillpers sem báðar hafa verið tilnefndar áður til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en Jórunn Sigurðardóttir fjallar um skáldkonurnar Í Orð um bækur sem nálgast má hér.

Linda var skáld vikunnar á Skáld.is fyrir skemmstu. Hér fyrir neðan má sjá Lindu fjalla um ljóðabókina Frelsi í Kiljunni og lesa ritdóm Soffíu Auðar Birgisdóttur um bókina.