• Soffía Auður Birgisdóttir, ritdómur

Gerðarmál – eða För Gerðar

Í ljóðabókinni Blóðhófnir (Mál og menning, 2010) sækir Gerður Kristný sér efnivið til eddukvæðabálksins Skírnismála og af fagmennsku og með feminísku sjónarhorni smíðar hún áhrifaríkt listaverk sem á skilið allt það lof sem á það hefur verið borið og færði henni Íslensku bókmenntaverðlaunin. Blóðhófnir er ljóðabálkur sem í hnitmiðuðum, fáguðum og afar fallegum myndum birtir okkur sýn jötnameyjarinnar Gerðar Gymisdóttur á þá atburði sem lýst er í Skírnismálum. Með því að velja nútímalegt kvenlegt sjónarhorn fær kvæðið allt á sig nýjan blæ og nýja merkingu. Endursköpun hefur átt sér stað og við blasa nýir túlkunarmöguleikar sem til að mynda gefa færi á því að tengja þetta forna kvæði við eina helstu vá samtímans; nauðung, ofbeldi og sölu á konum milli landa og menningarheima – það sem á nútímamáli kallast mansal. En spyrja má: Voru þessir túlkunarmöguleikar ekki alltaf til staðar í kvæðinu? Hvernig stendur á því að í fræðilegri umræðu um Skírnismál hafa menn, í gegnum aldir og allt þar til tiltölulega nýlega, kosið að líta fram hjá eða þegja yfir því ofbeldi sem jötnameyjan er beitt af hálfu Freys og Skírnis (hins karllega valds) í kvæðinu? Hér á eftir mun ég skoða ljóðabálk Gerðar Kristnýjar í ljósi hins forna kvæðis og túlkunarsögu þess og reyna að sýna í hverju áhrifamáttur ljóðbálks Gerðar Kristnýjar er helst fólginn. Til að auðvelda samanburðinn mun ég rekja efni Skírnismála áður en rýnt verður í ljóðmál Gerðar Kristnýjar.

Skírnismál – eða För Skírnis

Skírnismál eru varðveitt í 42 erindum í Konungsbók undir heitinu För Skírnis. Kvæðið er samsett af sex samtalsatriðum og þrír lausamálskaflar fylgja því; upphafskafli þar sem aðstæður eru kynntar og tveir kaflar sem marka atriðaskipti í kvæðabálkinum. Bent hefur verið á hversu leikrænn textinn sé og sannfærandi rök færð fyrir því að kvæðið hafi upphaflega verið flutt í leikrænu formi og sé fremur leiktexti en „bókmenntir“. Ég held mig þó við að tala hér um „kvæðið“ enda eru Skírnismál ætíð flokkuð sem eddukvæði. Í lausamálinu í upphafi kvæðisins er sagt frá því að Freyr Njarðarson hefur sest í hásæti Óðins, Hliðskjálf, og séð þar „um heima alla“. Í Jötunheimum kemur hann auga á hina fögru Gerði Gymisdóttur þar sem hún gengur til skemmu sinnar. „Þar af fékk hann hugsóttir miklar“. Foreldar Freys, Njörður og Skaði, hafa áhyggjur af líðan sonar síns og í fyrsta erindi mælir Skaði til Skírnis, skósveins Freys, og biður hann að komast að því hvað það er sem veldur hugarangri Freys. Erindi 2-9 lýsa orðaskiptum Skírnis og Freys sem leiða í ljós mikla þrá frjósemisguðsins eftir jötnadótturinni. Býðst Skírnir til að fara til Jötunheima ef Freyr gefi sér hest sem geti borið hann gegnum „vísan vafurloga“ og sverð „er sjálft vegist / við jötna ætt.“ Það er því ljóst að hann á von á átökum í ferðinni. Freyr gefur Skírni hest og sverð sitt en sú gjöf á eftir að verða honum að falli síðar þegar hann mætir örlögum sínum í ragnarökum, samkvæmt Snorra-Eddu. Í 10. erindi ávarpar Skírnir síðan farskjóta sinn, hestinn, áður en þeir leggja saman í hættuför sína. Eftir þessi fyrstu tíu erindi kemur lausamálskafli sem segir í stuttu máli frá því að Skírnir ríður til Gymisgarða í Jötunheimi og kemur að sal Gerðar þar sem ólmir hundar eru bundnir við hlið. Í erindi 11-13 ræðir Skírnir við fjárhirði utan við bústað Gerðar og spyr hann hvernig hann geti komist fram hjá hundunum og náð fundi Gerðar. Hann fær það svar að hann hljóti annaðhvort að vera feigur eða framliðinn, að láta sér koma slík fásinna í hug. Í 14. erindi talar Gerður og spyr ambátt sína hvað valdi hávaða þeim sem hún heyrir utan bústaðar síns og þegar ambáttin svarar að þar sé kominn maður á hesti (15. erindi) býður hún honum að ganga inn þótt hún óttist að þar fari ofbeldismaður, „minn bróðurbani“ (16. erindi). Í 17. erindi spyr hún Skírni um ástæður komu hans. Þá hefjast orðaskipti þeirra tveggja og í erindum 19-22 býður Skírni henni góðar gjafir (epli Iðunnar og hringinn Draupni) gegn því að hún gefist Frey. Hún afþakkar boðið og hinar góðu gjafir afdráttarlaust. Þá breytir Skírnir heldur betur um aðferð og dregur upp sverð: „Sér þú þenna mæki, mær, / mjóvan, málfán, / er eg hefi í hendi hér?“ og í erindum 23-36 hótar hann henni öllu illu og stigmagnast hótanir hans við hvert erindi; hann hótar að höggva af Gerði höfuðið; vega föður hennar; hýða hana með „tamsvendi“ (svipu); dæma hana til útlegðar á „ara þúfu“ með útsýni til heljar; gera hana að athlægi og glápsviðfangi þursa; rista henni galdrarúnir sem veki henni sorg og sáran grát; hún skal verða kúguð og úrræðalaus; annaðhvort gefast þríhöfða þursi eða engan mann fá; geð hennar skal tærast; hún mun hafa reiði æðstu goða og hatur Freys og vera neitað um samvistir við jötna, hrímþursa, syni Suttunga og æsi; hún skal verða ambátt þursins Hrímgrímis „fyrir Nágrindur neðan“ og aldrei fá betri drykk en geitahland að drekka; og henni skulu ristir galdrastafirnir „ergi og æði og óþola“. Þegar þarna er komið lætur Gerður undan og segist fallast á að koma til Freys (erindi 37). Í erindi 38 vill Skírnir fá að vita hvenær hún muni láta að vilja hins frjósama guðs. Gerður svarar að eftir níu nætur muni hún hitta Frey í lundinum Barra og þar „unna“ honum „gamans“ (erindi 39). Síðasti lausamálskafli kvæðisins lýsir heimferð Skírnis og fundi hans við Frey sem spyr hann tíðinda (erindi 40). Skírnir segir honum málalok og í síðasta erindi kvæðisins lýsir Freyr óþolinmæði sinni eftir fundinum við Gerði: „Löng er nótt, / langar eru tvær, / hve um þreyjag þrjár? / Oft mér mánaður / minni þótti / en sjá hálf hýnótt.“ Hér endar kvæðið og við fáum því ekkert að vita um hvernig fundi þeirra Gerðar og Freys lyktaði.

Mismunandi túlkanir

Margvíslegar túlkanir hafa komið fram á Skírnismálum, enda kvæðið „heillandi og opið til túlkunar“ eins og Gerður Kristný orðar það í viðtali á vef Sögueyjunnar Íslands. Í útgáfu Máls og menningar á Eddukvæðum frá 1998 hníga skýringar Skírnismála að því að hér geti verið um að ræða táknrænt kvæði sem tengist frjósemisblóti. Terry Gunnell er einnig hallur undir slíka skýringu og telur að texti kvæðisins hafi tengst leikrænum flutningi, eins og áður er nefnt. Sé kvæðið túlkað á þennan veg er Gerður hér í hlutverki jarðarinnar sem frjósemisguðinn Freyr þarf að frjógva svo ávextir jarðarinnar spretti. Skírnir er þá í hlutverki sólarinnar sem vekur gróðurinn. Benda má þó á að í textanum sjálfum eru engin atriði sem byggja beint undir slíkan lestur, til að mynda er hvergi vísað til ófrjósemi jarðar eða yfirvofandi uppsprettubrests láti Gerður ekki að vilja Freys. Erfitt er einnig að fallast á að hinn ofbeldisfulli Skírnir sé sólartákn (þar er vísað í að nafn hans þýði „hinn bjarti“ eða „sá sem skín“) og í myndmáli kvæðisins er það Gerður sjálf sem hefur arma sem „lýstu / en þaðan / allt loft og lögur“ (erindi 6). Hins vegar er þessi túlkun notuð til að afsaka framferði Skírnis; hann þurfi að beita hörku eigi gróður jarðar að spretta.

Í frásögn Snorra-Eddu af þessum atburðum er heldur ekkert minnst á viðhald frjósemi í sambandi við fund Gerðar og Freys. Snorri túlkar Skírnismál hins vegar sem bónorðsför og þegir alveg yfir þeim ofbeldishótunum sem stærsti hluti kvæðisins lýsir. Um samskipti Skírnis og Gerðar segir Snorri, stutt og laggott: „Þá fór Skírnir ok bað honum konunnar ok fekk heit hennar.“ Til að styðja lestur sinn leggur Snorri Frey í munn þessi orð sem hann mælir til Skírnis: „ – ok nú skaltu fara ok biðja hennar mér til handa ok hafa hana heim hingat, hvárt er faðir hennar vill eða eigi, ok skal ek þat vel launa þér.“ Segja má að Snorri ítreki það karlaveldi sem kvæðið lýsir þegar hann bætir við frá eigin brjósti: „hvárt er faðir hennar vill eða eigi“; vilji Gerðar kemur ekki til álita hér og þessi orð Snorra eru ekki heldur í neinu samhengi við kvæðið því þar kemur faðir Gerðar aldrei við sögu, nema þegar Skírnir hótar Gerði að drepa hann. Það er hún sjálf sem býður Skírni í sín salarkynni til viðræðna. Vilji er hins vegar eitt af grundvallar stefjum Skírnismála ef rýnt er í ljóðmálið, enda fjallar kvæðið um það hvernig vilji Gerðar er brotinn á bak aftur.

Í túlkun Snorra Sturlusonar verða Skírnismál að „ástakvæði“ og hafa fleiri túlkendur fallist á þann lestur. Helga Kress sér kvæðið hins vegar sem lýsingu á „brúðarráni“ og hún sér tilraun Freys „að komast yfir jötnamey“ einnig sem lýsingu á „manndómsraun á leið [Freys] til karlmennsku og viðurkenningar í samfélagi karla“ Það má þó segja að lítill karlmennskubragur sé á því að senda skósvein sinn til að ná í jötnameyjuna í stað þess að fara í þá hættuför sjálfur. Þá bendir Helga á að Skírnismál fjalli „um kynferðislegt ofbeldi“ og vekur athygli á því hversu blindir karlkyns túlkendur kvæðisins hafi verið á þann þátt þess.

Gerðarmál

Segja má að túlkun Gerðar Kristnýjar á Skírnismálum sé samhljóða túlkun Helgu Kress að því leyti að í Blóðhófni er lýst brúðarráni og kynferðislegu ofbeldi. En Gerður Kristný notfærir sér ekki eingöngu þann efnivið sem er til staðar í Skírnismálum heldur spinnur hún söguna áfram og ljóðabálkurinn fjallar líka um það sem gerist eftir að Gerður Gymisdóttir er gefin Frey nauðug. Undir lok bálksins er síðan vísað fram til ragnaraka og sett fram sterk og óvænt sýn á þau. Eins og komið er fram hefur Skírnir orðið í stærstum hluta Skírnismála, hann talar í 26 erindum af 42. Í Blóðhófni er það hins vegar aðeins Gerður sjálf sem mælir og fer því ágætlega á að tala um bálkinn sem „Gerðarmál“ til að undirstrika að ljóðabálkurinn í heild er kröftug mótmynd við texta eddukvæðisins. Ég tek fram að hér er ég alls ekki að reyna að betrumbæta titil ljóðabókarinnar – sem er mjög flottur – heldur bara að ítreka að hér fær jötnameyjan að segja sína sögu, hún er ljóðmælandi verksins.

Blóðhófni mætti skipta upp í fimm hluta sem aðskildir eru í bókinni með stílhreinum teikningum af hringlaga formi sem vísar í skreytilist víkingaaldar og efni ljóðanna. Upphafsorð ljóðabálksins, „Minningar“, vísar til þess að ljóðmælandinn er að rifja upp sögu sína. Í fyrstu línunum er dregin upp skýr andstæða á milli Jötunheima og heimkynna ása, þ.e. heimsins sem Gerður tilheyrði áður en hún var flutt nauðug til þess heims þar sem hún er nú niðurkomin. Í örfáum orðum er dregin upp mynd af þessum andstæðu heimum, í Jötunheimi gat ljóðmælandi hnoðað snjókúlur og kastað en nú gerist það aðeins í huga hennar því:

Hér festir ekki snjó

Brúin spennist

úr iðandi grasi

í gráan mökk

Þar er landið mitt

vafið náttkyrri værð

steypt í stálkaldan ís

Hér situr tungl