SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn21. september 2017

UNG OG EFNILEG - Viðtal við Teresu Dröfn Freysdóttur Njarðvík

Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík

Á næstunni munu birtast á vefnum skáld.is stutt viðtöl við ungar og efnilegar skáldkonur sem eiga framtíðina fyrir sér. Júlía Margrét Sveinsdóttir mælti sér mót við Teresu Dröfn Freysdóttur Njarðvík, 26 ára gamla menntakonu og skáld. Teresa heldur þessa dagana upp á 20 ára óslitna skólagöngu. Hún er móðir 5 ára stelpu, doktorsnemi og situr í fjölmörgum nefndum. Hún er með BA próf í bókmenntafræði með þjóðfræði sem aukafag, MA próf í miðaldafræðum, og er hálfnuð með doktorspróf í íslenskum fræðum. Hún er einnig að kenna í HÍ, er virk í Ásatrúarfélaginu, skrifar ljóð og á næstu mánuðum koma út þrjár bækur eftir hana.

Teresa, hvaðan kemur þessi náms- og bókaáhugi?

,,Ég er alin upp við bækur og lestur, gjafir voru alltaf í bókaformi og í boðum vorum við oftar en ekki spurð ,,Hvað ertu að lesa?” og jafnvel fylgdi á eftir ,,ertu ennþá með hana?” Ég vissi snemma að framtíðin yrði tengd bókum og textum. Ég ætlaði í menningarmannfræði en skipti um skoðun þegar enskukennarinn í diplómanámi MH, Mark Zimmer, sýndi mer að mínir styrkleikar lágu í bókmenntum. Ég ákvað að fara í sama nám og hann hafði lokið og endaði í bókmenntafræði við HÍ."

Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík

 

Hefurðu alltaf verið að semja eitthvað?

,,Ég man fyrst eftir mér tveggja ára, sitjandi á koppnum að semja ljóð um tröllin, sem sátu á kopp. Ég hef alltaf verið að setja saman texta. Þegar ég var barn og bjó í Mosfellsbæ, sömdum við vinkonurnar sögur og ljóð sem við seldum síðan í verslunarmiðstöðinni Kjarnanum. Ég gaf svo út mína fyrstu ljóðabók, Bragleikur, eftir að faðir minn lést skyndilega árið 2013. Í henni eru ljóð sem ég orti um sorgina og einnig eldra efni, sem ég vildi koma frá mér og búa til pláss fyrir nýtt. Ég hef lengi verið að leika mér með braghætti og hef ástríðu fyrir að velta upp gömlum orðum.”

 

Þú hefur einnig verið að semja texta fyrir hljómsveitir:

,,Ég þýddi texann á seinni tveim plötum fólkmálmssveitarinnar Árstíðir lífsins en svo orti ég fáeina texta fyrir svartmálsmsveitina Nöðru.

Segðu mér aðeins frá bókunum sem eru væntanlegar:

,,Á næstunni munu koma tvær bækur fyrir almenna lesendur um rúnir. Önnur um rúnir og merkingu þeirra, en sú seinni um íslenskar rúnir og þróun þeirra. Svo er ég að koma annarri ljóðabók út á næstunni Antikenosis, sem verður í tveim bókum. Sú fyrri inniheldur óbundin ljóð en sú seinni hefðbundin (að mestu, mikill leikur í henni). Ljóðabókin Antikenosis hverfist um hringrás eyðingar og sköpunar, um jörðina og hlutverk mannsins þar meðan þrætt er í gegnum goðsögur og vísað, bæði óbeint og beint, í önnur skálverk."

Verk eftir Teresu

Eldgangur

Moldvegar iðjum miðjum blæðir,
móberg rennur, brennur í jötunmóð,
fögur bundin grundin gjóskuslóð,
jarðar brotið þrotið þýðan græðir.

Landskjálfti þungur klungur klífur,
klettar dynja, hrynja af fjöllum,
friðlaus moldin, foldin upp af völlum,
Fimbuls kröftum, höftum hauður drífur.

Stíga flókar, strókar upp á loft,
stillir sólar kjólar lýsa heimi,
vellur hraun í víðu, tíðu streymi,
Fjörgyn heift linnir, minnir á sig oft.