Torræð og fögur


Krístín Ómarsdóttir er ekki sérlega aðgengilegur höfundur þótt barnsleg einlægni og ævintýralegur blær sé eitt aðaleinkenni á skáldverkum hennar. Í bók hennar, Hjá brúnni (2009), stígur lesandi inn í undraheim framandi borgar á óræðum tíma þar sem ballerínur og óléttar prinsessur leika lausum hala, kynlífsandar leita uppi breim og apaskáld og valdsmenn reyna að beisla skáldskapinn og stjórna lífi fólks.

Textinn er ljóðrænn og krúttlegur, framvindan hæg, söguþráður krókóttur og samtöl taka óvæntar dýfur og valhopp.

„Stundum flugu í kringum bréfberadótturina knáu tamdar bréfdúfur en hún vingaðist við tamningarmeistarann, sem var hávaxin kona sem hafði fallega rithönd og lyktaði eins og hún væri nýskriðin úr eggi – hún bjó í hvítu húsi , allt inní því hvítt nema litirnir í blekbyttunum og pennaoddarnir, og ávextirnir og grænmetið. Og pípan hennar, sem hún reykti á kvöldin, var gul – en það gefur bréfum dularfulla mildi ef reykt er í kringum bréfaskriftirnar“ (116).

Stíllinn minnir um margt á módernísk verk Guðbergs Bergssonar, lýsingar á hversdagslegum athöfnum eru furðu nákvæmar, tilsvör skondin, ýktar lýsingar og óvænt endalok.

Persónur sögunnar birtast og hverfa, hittast og týnast á ráfi sínu um borgina. Margt undarlegt kvenfólk kemur við sögu, dóttir borgarstjórans prjónar brækur á borgarbúa en hlýtur síðan grimmileg örlög, hálfbrjálaðar konur vafra um á brúnni og hrella vegfarendur, Nóra glápir á typpið á Karli sínum og lætur sér það nægja. Ballerínan María er aðalpersónan, hún dansar á kvöldin í Leikhúsi fólksins en þrífur hótelherbergi á daginn. Hún ætlar ekki að elska neinn og er í sjálfskipuðu kynlífsbindindi.

Karlpersónurnar eru ráðvilltar, blindar, hommar eða listamenn. Trúðurinn Arnar Laufeyjarson er að vonum tragískur og lýsingar á skemmtiatriðum hans eru býsna gróteskar. Hávaxnir og jakkafataklæddir gæslumenn fylgjast með persónunum og handtaka þær ef þær eru grunaðar um að svíkja hugsjónir ríkisins, Aga- og siðferðisstofnun og Lögvernd ríkisins taka á málum og grimmur borgarstjóri upphugsar refsiaðgerðir og aftökur. Sambönd persónanna eru í upplausn og einkennast af söknuði, höfnun og ófullnægju, ljóðskáldið Hermann hefur hlaupist á brott frá óléttri unnustu sem íhugar sjálfsmorð, trúðurinn heldur við gifta konu og frændinn bíður þess eins að vera jarðaður við hlið unnusta síns.

Hér er tekist á um vald, sektarkennd, frelsi, ást og list. Sagan er bæði leikur með form og tungumál. Þrátt fyrir flókna formgerð er alltaf eitthvað sem togar lesandann áfram eftir krákustígunum, það ríkir einhver sérkennileg spenna og leikgleði í textanum, lesandi hnýtur um ljóðabrot, flækist í orðaleikjum og eltir persónurnar úr einum ógöngum í aðrar. Hjá brúnni er léttklikkuð saga, tyrfin og torræð, myndvís og ljóðræn og afspyrnu fögur á köflum.

Birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins, 20. desember 2009.