SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir20. september 2017

KONAN SEM ORTI KONUVÍSUR

 

 

Sumar bækur fá mikla athygli og umfjöllun í fjölmiðlum og eru á allra vörum meðan aðrar fljóta hægt hjá í þögulli hógværð. Ein þeirra bóka sem lætur lítið fyrir sér fara er Ljóð og líf Helgu Pálsdóttur á Grjótá sem bókaforlagið Sæmundur gaf út 2016.

Helga var fædd 1877 (ári eftir að Stúlka, fyrsta ljóðabók eftir konu kom út á Íslandi) og lést á tíræðisaldri. Hún naut varla nokkurrar skólagöngu en hafði mikla unun af skáldskap. Helga var fátæk vinnukona, lengst af á Grjótá í Fljótshlíð. Hún var ógift og barnlaus, vann hörðum höndum allt sitt líf en orti í sínum fáu frístundum og allmikið safn kvæða liggur eftir hana.

Í bókinn er bæði úrval og heildarsafn ljóða Helgu sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt. Ágæt formálsorð, eftir ritnefndarkonurnar Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Ástu Þorbjörnsdóttur á Grjótá, varpa ljósi á ævi og skáldskap Helgu. Þá er aftast bókarauki úr heimildasafni Þórðar Tómassonar í Skógum um forna búskaparhætti og selstörf, þann hluta hefði þurft að tengja betur við ævi og samtíma Helgu; sveitungarnir geta eflaust tengt betur við þetta efni en ókunnugir.

Upp úr glatkistunni

Í formála Hörpu Rúnar kemur fram að fyrir Helgu hafi ljóðlistin fyrst og fremst verið nytjalist en hún orti mest erfiljóð og tækifæriskvæði, bæði eftir pöntun og af djúpri skáldskaparást. Einnig kemur fram að það er fyrir fórnfúst starf Ástu Grjótárbónda sem kvæði Helgu koma út á bók, annars hefðu þau endað í glatkistunni eins og oft vill verða með kveðskap og skrif alþýðufólks á fyrri öldum, ekki síst kvenna.

Kvæði Helgu eru í anda rótgróinnar skáldskaparhefðar, bæði í efnistökum og formi. Tíðindi utan úr hinum stóra heimi og tískustraumar eins og nýrómantík eða formbylting snertu hana ekki baun. En það er aðdáunarvert hvað vinnulúin alþýðukona beitir leikandi létt fyrir sig fjölbreyttum bragarháttum, s.s. braghendum og hringhendum sem eru ekkert lamb að leika sér við:

 

Óska ég styggðir, last og lygðir

lands frá byggðum snúi fljótt.

En aukist dyggðir, einnig tryggðir

angurs hryggð frá hverfi drótt.

 

Konuvísur 1915

Orðræða Helgu er lítillát, stillt og var vel þegin meðal viðtakenda á sínum tíma. Hún hefur verið helsta skáld sveitarinnar og til hennar var leitað með alls konar tækifæriskveðskap í tíma og ótíma. Helstu þemu í kveðskap hennar eru trú, náttúra og ættjörð. Árið sem konur fengu kosningarétt yrkir hún heillangt kvæði sem hún nefnir Konuvísur þar sem húsfreyjur í Fljótshlíð (en ekki vinnukonur) eru nafngreindar og kostir þeirra tíundaðir. Í lokaerindinu er skáldið sjálft þó nafnlaust og öðrum ætlað að grafa það upp:

 

Nafn mitt harla nærgætnir

námsmenn þýða í friði,

sem í anda upplýstir

eru af sólarsmiði.

 

Helga yrkir ekki margt um sjálfa sig en þó má túlka sum kvæða hennar svo, að líf hennar hafi verið dapurlegt á stundum og hún beðið skipbrot í ástamálum.

Að ganga bókafjörur

Fjallað var um kveðskap Helgu í útvarpsþættinum Orð um bækur á rás 1 ásamt verkum tveggja annarra skáldkvenna sem einnig hafa farið hljótt í ys daganna, þ.e. Guðrúnar Stefánsdóttur frá Fagraskógi og Helgu Sigurðardóttur frá Malarási. Því miður er þátturinn ekki lengur aðgengilegur hlustendum – af hverju ætli það sé, er ekki nóg pláss á internetinu? Um bækur þessara skáldkvenna allra eiga vel við ummæli Þórunnar J. Valdimarsdóttur sem hún lét falla í grein um bókmenntir og menningarástand á visir.is, 2015: „það þarf að ganga á bókafjöru á útmánuðum svo góðar bækur hverfi ekki ólesnar“.

 

 

Greinin birtist fyrst í Kvennablaðinu, 24. febrúar 2016 og er lítillega breytt.

 

 

 

 

 

 

Tengt efni