SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn18. ágúst 2017

,,SEM KVENFÓLKIÐ ER NÚ AÐ GALA" eftir Helgu Kress

Ólöf frá Hlöðum

Helga Kress skrifaði eftirfarandi grein sem birtst í Kvennablaðinu 01 okt 2013. ,,Með bréfi sem skáldkonan Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum (1857-1933) sendi vinkonu sinni Önnu Friðriksdóttur að norðan í september 1911 leggur hún langt kvæði sem hún biður hana að sýna „Ingibjörgu skólastýru“, fyrst hún sé „að gefa sér gaum“ en kunni ekki við ástarljóðin. Anna var þá rúmlega tvítug, átti heima í Reykjavík og hafði verið nemandi Ingibjargar H. Bjarnason, skólastjóra Kvennaskólans, mikillar baráttukonu fyrir réttindum kvenna. Kvæði Ólafar hafði áður birst undir dulnefni í Akureyrarblaðinu Nýjar kvöldvökur (1. tbl. 1910, bls. 48), skammstöfuninni K.B.V.K. og bar þar nafnið „Klara Broteva Viktoría talar í kvenréttindamálinu“. Það er augljóslega paródía á orðræðu kvenna sem tala gegn „kvenréttindamálinu“ sem svo var kallað og var mjög á döfinni um þessar mundir. Kvæðið er sviðsett og lagt í munn ræðukonu sem talar til yngri kvenna, tekur sjálfa sig sem dæmi um hina ákjósanlegustu stöðu giftra kvenna og þakkar hana jafnt bónda sínum sem guðlegri forsjón.

Talmál er eitt af megineinkennum á kvæðum Ólafar, en í þeim er gjarnan einhver að ávarpa, tala við annan. Í uppskrift Ólafar að kvæðinu með bréfinu til Önnu hefur hún dregið úr áherslunni á rödd konunnar (og furðulegu nafni hennar) í titlinum, sem einnig er svo í eiginhandarriti Ólafar að kvæðinu á Landsbókasafni (Lbs 19 NF), kallar það einfaldlega „Kvenréttindamálið“ og beinir þar með athyglinni að málstaðnum. Í handriti Ólafar er kvæðið sett upp sem þula, konan er óðamála í sannfæringu sinni, og er það því einnig gert hér:

Að konan sé maður, er kenning sú ný sem kvenfólkið er nú að gala. Um skoðanir mínar á málinu því ég má kannske dálítið tala! Ég fjárábyrgð mannsins gef fyllsta traust, -ég fékk ekki á ábyrgðum mætur – , nú situr hann einn með þær endalaust og er hjá þeim langt fram á nætur. Mig beygja lét guð undir bóndann minn, ég bregð mér þó launkróka með hann, og ábyrgðarþunga ég engan veg finn, sem ómyndug fer ég og héðan. Af vísdómshæð mannsins mitt útsýni er, – ég á ei við hugsanir þungar – . Af fegurð hann kaus mig til fylgdar með sér – ég fræði um það dæturnar ungar – . Að hugsa um peninga, herra minn guð! Ef heimta ég, þá kemur hann með þá. Fyrst mönnum til yndis mig ætlaði guð ég einmana get ekki séð þá. Hve tignarnafn mannsins oss togar að sér – þá tilfinning meyjar þið kennið! Ef sjálf ætti ég að vinna til virðingar mér, þá væri ég með hrukkur um ennið. Vor köllun í heiminum allra er ein: Að afhenda mönnunum sonu, og eignarmark föður skal fest við hvern svein sem fæddist – með leyfi! – af konu. Um tilgang hins alvalda ég efast ei gat, því okkur í heim þennan lét hann: Við eigum að hugsa, nær eingöngu, um mat. Til ykkar var kvöð sú, að ét’ ann! Ef fer burt úr heiminum maðurinn minn, þá má annar láta í pottinn. Sé yndi mitt visnað, svo vilji enginn hinn, þá verð ég að ákalla Drottin.

Saga þessa kvæðis er gott dæmi um það sem kalla má ritskoðun, eða jafnvel sjálfsritskoðun, á kvenréttindakvæðum Ólafar. Hún birti það að vísu nýort í tímariti, en undir dulnefni sem ómögulegt er að rekja, meðan önnur kvæði hennar birtust jafnan undir upphafsstafnum „Ó“. Ólöf gaf út (á eigin kostnað) tvær ljóðabækur um ævina og bera þær báðar sama nafn, Nokkur smákvæði 1888 og Nokkur smákvæði 1913. Í þeirri síðari eru m.a. kvæði sem birst höfðu í tímaritum, en þar er ekki að finna kvenréttindakvæðið sem hún trúði vinkonu sinni einni fyrir í eigin nafni – og bað reyndar að bera til annarrar, yfirlýstrar kvenréttindakonu, sem kynni að skilja það. Kvæðið birtist heldur ekki í Ritsafni Ólafar sem Jón Auðuns tók saman og kom út að Ólöfu löngu látinni í Reykjavík 1945. Eru þar þó prentuð fjölmörg kvæði úr handritum sem ekki höfðu áður birst. En kvæðið varðveittist meðal kvenna og árið 1949 birtist það undir nafni Ólafar í kvennatímaritinu Embla (3. árg., bls. 9-10) ásamt bréfi hennar til Önnu.

Kvæði sín sendi Ólöf gjarnan gömlum vini sínum, skáldinu Þorsteini Erlingssyni, til yfirlestrar og gagnrýni – sem hann veitti óspart, sbr. bréfaskipti þeirra sem m.a. hafa birst í Orð af eldi. Bréfasamband Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og Þorsteins Erlingssonar á árunum 1883-1914, sem Erna Sverrisdóttir tók saman og kom út í Reykjavík árið 2000, en af þeim má ekki sjá að hún hafi sent Þorsteini þetta kvæði, trúað honum fyrir því. Hins vegar kemur það hvað eftir annað fram í bréfum hennar til Þorsteins að hún óttast „ámæli“ fyrir kvæði sem hún telur að einhverju leyti djörf og veigrar sér við að birta. Í bréfunum á þetta oftast við um ástarljóðin sem Ólöf fékk þó opinberlega hvað mest hrós fyrir – en „Ingibjörgu skólastýru“ líkaði ekki og fékk því kvenréttindaljóð í staðinn, og má í þessu sjá vissar andstæður sem ekki eiga saman: ástarljóð-kvenréttindaljóð. Kann þessi ótti Ólafar við „ámæli“ einnig að eiga við þau gagnrýnu ljóð sem hún orti um stöðu kvenna um og eftir 1910, þegar barátta íslenskra kvenna fyrir kosningarétti stóð sem hæst, og hún valdi að birta ekki í seinni ljóðabók sinni frá 1913 og Jón Auðuns sneiðir einnig hjá við prentun óbirtra ljóða í ritsafninu frá 1945.

Í einu þessara kvæða tekur Ólöf sjálf til máls og beinir orðum sínum til karla, andstætt konunni sem hún paróderar í „Klöru Brotevu Viktoríu“ og talar til kvenna. Þessi kvæði eru því jafnt andhverfur sem samhverfur og athyglisvert að bera þau saman. Tvær konur að takast á, „gala“ um málefni sem varðar þær báðar. Að því er best verður vitað hefur þetta kvæði ekki birst á prenti áður og er þetta því frumbirting, í nýju kvennablaði, rúmum hundrað árum eftir að það var ort:

Þið haldið því fram –

Þið haldið því fram sem að heiglist í brækur,
að helmingur mannkyns sé óliðtækur,
ef hefja skal stríð eða halda uppi vörnum
til heilla og blessunar mannanna börnum,
og talið um kvennanna vitsmuni veila,
að valt sé að treysta svo ónógum heila.

Jú, þjónustustaðan var úthlutuð okkur,
þá aflið réð lögum: hinn þróttmeiri skrokkur.
Þá setti hann lög þau, ef lifa hún vildi,
sér lúta sem aflminna dýrið hún skyldi.
Þá missti hún valdið sem móðir og drottning,
er mannréttarkúgara afhenti hún lotning.

Að vaka yfir börnunum veikum og smáum
svo vandalaust telst að þann starfa við fáum.
Að hreinsa allt saurugt og hirða ykkar klæði,
að hjúkra þeim sjúka og úthluta fæði.
Frá morgni til kvelds við þau smávikað smjúga
um smugur, það kenndi ekki sálinni að fljúga.

Í þessu kvæði kemur hvorki meira né minna en fram sú kenning sem Svava Jakobsdóttur setur fram löngu síðar í sinni klassísku ritgerð, „Reynsla og raunveruleiki. Nokkrir þankar kvenrithöfundar“ (Konur skrifa til heiðurs Önnu Sigurðardóttur, ritstj. Guðrún Gísladóttir o.fl., Reykjavík 1980), að karlveldið kunni að eiga sér rætur í jafnfrumstæðri tilfinningu og þeirri að karlmaðurinn er líkamlega stærri og sterkari en konan, hafi líkamlega yfirburði, og eigi hún því alltaf yfir höfði sér hættu á andlegu og líkamlegu ofbeldi. Í kvæði eftir kvæði upplifir Ólöf sig sem litla gagnvart samfélagslegu valdi – og viðurkenndum kveðskap karlskáldanna. Kjarnast þessi tilfinning um líkamlega jafnt sem andlega smæð í kvæðinu „Lítil“ þar sem hún í lokaerindi setur von sína á betra samfélag, annan heim: „Ef ég loksins ljósheim næ, / lífs þar stigin hækka. / Skilyrðin ögn skárri fæ, / skyldi ég ekki stækka?“ Ekki heldur þetta kvæði birti hún í lifanda lífi en það var tekið upp af Jóni Auðuns í Ritsafni 1945, enda lítillát og leyfileg orðræða kvenna."

http://kvennabladid.is/2013/10/01/helga-kress-skrifar-um-tvo-kvenrettindaljod-olafar-sigurdardottur-fra-hlodum/

 

Ása Jóhanns