• Guðrún Steinþórsdóttir

Þrjár skáldkonur


Á síðustu dögum hafa þrjár skáldkonur bæst við Skáldatalið; þær Gróa Finnsdóttir, Oddbjörg Ragnarsdóttir og Valdís Óskarsdóttir.


Gróa hefur lengi fengist við að semja ljóð og sögur. Sum ljóðanna hafa birst í tímaritum til að mynda í Tímariti Máls og menningar og Bókasafninu. Þá á hún tvær smásögur í bókinni Jólasögur sem kom út árið 2015. Nú í sumar sendi Gróa frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hylinn. Sagan er bæði dramatísk og spennandi enda hverfist framvinda bókarinnar um glæpi þótt ekki sé um hreinræktaða glæpasögu að ræða.Oddbjörg skrifaði lengi fyrir skúffuna en 2002 sendi hún smásöguna HÆTTUR í samkeppni og birtist sagan í smásagnasafninu Hver með sínu nefi sama ár. 2015 kom út hennar fyrsta skáldsaga, Eydís, sem fjallar um unga konu á eitís-tímabilinu. Þremur árum síðar, 2018, sendi Oddbjörg síðan frá sér sakamálasöguna Hvunndagsmorð.

Valdís er þekktust fyrir klippingar sínar á kvikmyndum en á áttunda og níunda áratug síðustu aldar sendi hún frá sér fimm skáldsögur fyrir börn; Fýlupokarnir (1976), Litli loðnufiskurinn (1978), Búálfarnir (1979), Búálfarnir flytja (1982) og að lokum Elías (1983) sem hún skrifaði í samvinnu við Auði Haralds en sú bók byggði á innslögum sem þær stöllur skrifuðu fyrir Stundina okkar. Valdís skrifaði einnig samtalsbókina Börn eru líka fólk árið 1980 en þar er að finna tíu bráðskemmtileg viðtöl við krakka á aldrinum þriggja til tíu ára. Um árabil starfaði Valdís við dagskrágerð hjá Ríkisútvarpinu en á þeim tíma skrifaði hún bæði útvarpsleikrit og sögur og ævintýri sem flutt voru í barnatímum í útvarpinu.