• Helga Kress

Þetta ólukku dót

Eftirfarandi grein Helgu Kress birtist fyrst í Heimaslóð. Árbók Hörgársveitar 2015

Hún er um útgáfusögu Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og sjálfsmynd hennar sem skáldkonu.
Þetta ólukku dót

Um útgáfusögu Ólafar Sigurðardóttur frá Hlöðum

og sjálfsmynd hennar sem konu og skálds


Alltaf þegir þú! Ansans þögn er það. [1]Ólöf Sigurðardóttir á þrítugsaldri. Ljósmynd úr safni Ólafar P. Hraunfjörð.

Mann vantar mig


Á fimmtugsafmælinu sínu 9. apríl 1907 situr Ólöf Sigurðardóttir í litla húsinu sínu á Hlöðum og skrifar Þorsteini Erlingssyni bréf. Í fyrra bréfi, frá 28. október árinu áður, hafði hún beðið hann að gera sér greiða, en þá höfðu bréfaskipti þeirra legið niðri í fjögur ár:


Mann vantar mig til að vinna dálítið fyrir mig, því er það að ég heimsæki þig með erindi mitt, til að vita hvort þú kynnir að vera fús á að liðsinna mér, ef heilsa þín er svo að þú getir dálítið starfað. Ég ætla í vetur að fara að tína úr ljóðum mínum það helsta og búa það undir prentun, en þekking mín og mannvit er nú ekki meira en það, að ég er ekki einfær um þetta, þarf glöggskyggnan og velviljaðan ljóðavin til að leiðbeina mér með hvað takandi sé og hvað laga þurfi. [2]

Segist hún hafa hugsað sér að skrifa hvert ljóð á blað sér og senda honum svo „allt dótið“ sem hún væri að hugsa um að láta fara, svo að hann gæti tínt úr það sem honum þætti ónýtt og raðað svo „sneplunum á eftir“ í þá röð sem honum sýndist að vera ætti í bókinni. Með þessu gefur hún honum mikið vald. Þorsteinn brást vel við og Ólöf sendir honum ljóðin með bréfi 25. janúar 1907. Í því biður hún hann að „yfirfara þessi blöð“ og segja sér hvort hún sé „svo nýtilegur hagyrðingur eða skáld, að vert sé að sýna.“ Hún ítrekar að hún sé „að hugsa um að láta prenta í vetur eða vor, ef annars nokkuð verður af því.“


Það er augljóst að Ólöf tengir útgáfu ljóðanna við afmæli sitt og vill gefa þau út á afmælisárinu. Þorsteinn svarar henni ýtarlega í bréfi 17. mars 1907 og ræður henni að prenta „allt sem á það skilið vegna skáldlegs gildis, en sem fæst af hinu.“ Kvæðunum gefur hann einkunn með orðum eins og „ágætt“, „mjög gott“, „gott“, „dágott“, „dauft“, „veikt“ eða „ónýtt“, án teljandi skýringa. [3] Þó telur hann „saklaust að prenta það flest, ef eitthvað kynnu að vera uppáhaldsbörn, þó þau séu ekki jafn efnileg og fríð og sum hinna eru.“ Með þessu persónugerir hann ljóðin sem börn og skáldkonuna sem móður. Hann nefnir ekki væntanlegt afmæli hennar, en biður hana að skrifa sér „dálítið rækilegan miða“. Afmælisdaginn notar hún svo til þess. Bréfið er mjög langt, átta þéttskrifaðar síður með spássíuathugasemdum. Ólöf hefur mikið að segja, og hún fer úr einu í annað. Mest fjallar bréfið um ljóðin og athugasemdirnar sem hún kallar svo og er mjög þakklát fyrir:


Sumu er ég strax búin að breyta af því sem þú bentir mér á, sumt á ég eftir, en allt var mér það auðskilið sem þú sagðir, eins og í gamla daga, og oftast var ég samþykk áliti þínu um gildi kvæðanna. Einstöku sinnum ekki. 

Hún kvartar undan veikindum sem séu búin „að standa um tveggja mánaða tíma, án þess nokkur viti hvað að er.“ Samt segist hún hafa hlegið í hjarta sínu þegar hún las bréfið frá honum, „en það hafði ég ekki lengi áður getað.“ Hún fiskar eftir meiri hvatningu, því að nú þykist hún ekki „fullráðin í að láta prenta“, þótt sig langi til þess, ef hún hressist. Þannig slær hún oft í og úr, með úrdráttarorðum eins og „þótt“ og „ef“, bæði hvað varðar ljóðin og lýsingu á sjálfri sér.Ólöf Sigurðardóttir og Halldór Guðmundsson giftu sig í Dómkirkjunni í Reykjavík 6. ágúst 1887. Þetta er sennilega brúðkaupsmyndin, tekin af því tilefni. Sumarið eftir fluttust þau norður að Hlöðum. Ljósmynd úr safni Ólafar P. Hraunfjörð.

Í kvöld er ég fimmtug

Í bréfinu til Þorsteins 9. apríl 1907 nefnir Ólöf afmælið sitt þrisvar, fyrst eins og undir rós: „Ekki veit ég betur en að það séu afmæli hér.“ Eftir að hafa sagt af högum sínum, eins og hann hafði beðið um, sækir hún í sig veðrið:


Í kvöld er ég fimmtug.Fóstri“ og lóan urðu ein til að gefa því gaum: hann gaf mér „Huliðsheima“, hún lofaði mér að heyra skæru röddina sína úti í sumarblíðunni í fyrsta sinni í vor, vissi ekki fyrr að hún var komin heim. [4]

Afmælið verður henni tilefni til hugleiðinga um stöðu sína sem skáld og skort á menningarlegu umhverfi:


Þegar ég hef engan til að bera undir og spyrja, þá finn ég best hvað stórbagalegt mér er að hafa engar upplýsingar fengið í neinum almennum vísindagreinum, hef ekkert að styðjast við nema það sem mér var meðfætt og ég hef náð mér í uppá eigin spýtur. Því kveið ég mest, þegar ég varð að fara frá Reykjavík, að hafa engan að umgangast sem ég græddi á og vera lokuð úti frá andlega lífinu. Alltaf langar mig þangað, að því leyti, en yndi þó ekki, héðan af, innanum fólkið, ég er oflengi búin að vera útúr til þess.

Hún upplifir sig sem útlaga og biður Þorstein að heimsækja sig. Af því tilefni lýsir hún samastað sínum, hvar (og hvernig) sig verði að finna:


Hjá húsinu okkar á ég lítinn skíðgarð með plöntum í. Þar verður mig að hitta dauða, þar ætla ég oní, en ef þú heimsækir mig í lifanda lífi, þá er ég útum hagann á sumrum en í eldhúshorninu mínu á vetrum. Þar eru flest ljóðin mín tilorðin. Þar er bjartara og hlýrra en almennt í eldhúsum. [5]

Henni verður tíðrætt um mann sem hún elskar á laun og enginn má vita hver er. Þannig gerir hún úr sér leyndardóm og spennandi konu, sem jaðrar við daður. Á spássíugrein sem hún bætir við bréfið þremur dögum eftir afmælið tengir hún aldur sinn við sjálfa sig sem kynveru og segir: „Nú er ég komin yfir fimmtugt, ætti því að vera orðin mönnum óhættuleg og þeir mér.“


Þrátt fyrir jákvæð ummæli Þorsteins gekk Ólöfu erfiðlega að fá ljóðin gefin út. Í bréfi til hans 5. maí 1907 segist hún hafa farið til Odds Björnssonar og beðið hann að prenta fyrir sig „í sumar, svo bókin kæmist til útsölumanna í haust með síðustu ferðum.“ En Oddur gat þá ekki „tekið neitt til prentunar í ár og kannski aldrei framar.“ Ólöf leitar því ásjár Þorsteins í annað sinn og biður hann að hjálpa sér við að fá ljóðin prentuð fyrir sunnan. „Helst vildi ég geta komið því á, á þessu ári, að fá prentað.“ Hún segist eiga 150 krónur sem hún hafi í mörg ár verið „að draga saman til þess arna“.Ansans þögn

Þorsteini tókst ekki að fá ljóðin gefin út í Reykjavík, og það sem meira er, hann týndi þeim. Á næstu fimm árum skrifar Ólöf honum jafnt og þétt og spyr um ljóðin og væntanlega útgáfu. Með þessum bréfum sendir hún honum einnig fleiri ljóð sem hún (í tilgerðarlegu lítillæti) kallar oftast „vísur“ og verða honum næsta ofviða. Í bréfi til hennar frá 12. október 1907 þakkar hann henni fyrir síðasta bréf og „vísurnar“ sem hann segist hafa látið hjá hinu, „en ekki man ég hversu mér líkuðu þær og má ekki vera að því að gá að því nú, en það skal ég segja þér síðar.“ Í bréfi frá 28. nóvember 1907 rekur hún á eftir honum, og sendir honum hringhendur sem hún biður hann að líta á og „og bora því einhvers staðar inn í handritið.“ Þessu virðist hann ekki hafa svarað, því að í bréfi frá 15. mars 1908 kvartar hún undan þögn hans: „Alltaf þegir þú! Ansans þögn er það.“ Um leið ráðleggur hún honum að leggja sig nú „aftur á bak, uppí eitthvað“, svo að vel fari um „skrokk“ hans og lesa hringhendurnar. Bréfinu lýkur hún með ítrekun þar sem hún allt að því særir hann um svar:


Hvað sýnist þér og segir þú, ef þú þegir ekki við mér allri og ævinlega? Í fyrra þagðir þú ekki. Þá varstu vænn og þá þurfti ég þess með.
Vertu blessaður ávallt!

Á spássíu þessa bréfs eru tvær merkar athugasemdir um aldur. Í annarri er eins og hún sé að stappa í sig stálinu: „Það er gott að fara yfir fimmtugt, þá verður maður svo léttur á sér og borubrattur. Mín reynd er sú.“ Í hinni ræðir hún opinskátt um breytingaskeiðið, sem ekki var talað um á þessum tíma, og teflir reynslu kvenna gegn vísindum karla: „Sem vísindamann læt ég þig það vita, að ástin stendur ekki eingöngu í þjónustu kynfjölgunarinnar. Hún er of langlíf til þess, lifir lengur en kynfjölgunar hæfilegleiki konunnar. Púnktum!“


Í bréfi frá 13. maí 1908 þakkar Þorsteinn Ólöfu fyrir þrjú bréf og afsakar sig með því að hann sé „lítt fáanlegur til að skrifast á við menn nema einu sinni á ári,“ og þá helst viðskiptabréf. Ef hann færi að skrifast á við alla sem skrifuðu honum hefði hann engan tíma afgangs fyrir sjálfan sig. Um bókina segir hann að enn sé ekki farið að prenta hana og að hann viti ekki hvenær af því geti orðið. Hann ber við svikum um lán og gerir mikið úr basli sínu við þetta. Hringhendurnar segir hann að séu „ást og yndi“. Um þær segir hann svo – og er búinn að gleyma þessu – í bréfi rúmu ári síðar að þær séu „misjafnar nokkuð, en ágætis glefsur í þeim” og megi því þess vegna vel prenta þær með öðru.


Í bréfi frá 20. janúar 1911 spyr Ólöf enn um bókina og hvort hún muni koma út „fyrr en ég er öll á burt. Gerist nokkuð í vetur með hana?“ Bréfið endar á spássíuathugasemd um aldur, sem í þetta sinn tengist viðurkenningu og skáldskap: „Gamli St.Th. sendi mér III. útgáfuna sína með áskrifuðum vinsamlegum ummælum. Þann dag var ég glöð, og glöð er ég oft og einatt í seinni tíð. Það skyldi engin óttast það að eldast að áratölu!“ Orðið „engin“ er hér í kvenkyni. Vandamálið um aldurinn er sérkvenlegt.


Í bréfi sem Ólöf skrifar Þorsteini á afmælinu sínu 9. apríl 1913, kemur fram að ljóðahandritið er týnt. Hún er töluvert bitur og tilkynnir að hún hafi gefist upp:


Ekki skaltu reyna að ná í þessa örk sem þér er glötuð, eða gera þér meiri áhyggjur né fyrirhöfn en orðið er útaf þessu dóti mínu. Þú ert búinn að hafa alltof mikla skapraun fyrir þetta ólukku dót mitt. Ég á víst uppkast af því flestu sem til þín fór, enda nærri sama, því nú legg ég alveg inn árarnar, og þykir næstum best að ekkert varð úr útkomu kvæðanna. Finn að ég hafði ekkert nýtt eða nytsamt að segja meðmönnunum, og því enginn skaði né missir að. Frægð, eða ófrægð, hef ég ekkert að gera með héðan af, en einungis góðvild og frið til að hvíla mig við, eftir árangurslítinn daginn.
Og svo er það ekki annað að þessu sinni. Nú er jeg 56.

Bókinni kom Ólöf þó út sjálf síðar þetta sama ár hjá prentsmiðju Odds Björnssonar. Voru þá liðin rétt 25 ár frá því fyrri ljóðabók hennar kom út árið 1888. Bókin sem átti að verða afmælisgjöf til hennar sjálfrar á fimmtugsafmælinu kom sex árum of seint.Í ýtrustu nauðum

Sú jákvæða afstaða til eigin aldurs sem Ólöf lætur í ljósi í bréfunum til Þorsteins er ekki alveg í samræmi við þau tvö afmælisljóð sem hún yrkir til sjálfrar sín og prentar í ljóðabókinni 1913, hvort sem þau hafa verið í handritinu sem hún sendi honum – og hann gefið þeim góða einkunn – eða hún hefur bætt þeim við síðar. Þann sama dag og hún skrifar honum á afmælinu 9. apríl 1907 yrkir hún ljóðið „Fimmtug“. Í því kemur ellin, persónugerð sem gömul kona, með „amann, ill í framan“, þar sem „árin“ eru látin ríma við „sárin“, „tárin“ og „gránuð hárin“. Í afmælisljóðinu „Fertug“ gengur hún enn lengra. Þar hefur „kærleikinn“ í líki elskhuga frjóvgað huga hennar að „hugsanabörnum“. En þegar hún verður fertug (og er að komast af frjósemisaldri) hafnar kærleikinn henni, svo að „andlegu börnin“ deyja, og þar með ljóðin. Í stað hans kemur ellin, „höktandi hölt“ og „af hryglu hvæsandi“, persónugerð sem ófrjó og viðbjóðsleg kerling:


Við engu mér bauð eins og óféti því

en áfram þó nauðug verð halda.

Í ýtrustu nauðum mér forða eg og flý

í fangið á dauðanum kalda.


Í þessum ljóðum er hún gömul kona, „í ýtrustu neyð“, að tapa á tíma. Í ritdómi um Nokkur smákvæði í Skírni 1914 ræðir Guðmundur Finnbogason sérstaklega um ljóðið „Fimmtug“ og sér ekkert í því annað en þakklæti, birtu og léttleika. „Það er friður yfir þessum vísum,“ segir hann. „Orðin falla létt, eins og í leik.“ Hann vitnar í þrjú erindi af sjö en tekur ekki eftir þeim sem lýsa ónógri ævi: „Ónóg var allt hér að framan, / ónýtt gaman.“ Valtýr Guðmundsson skrifar ritdóm um bókina í Eimreiðina 1914. Hann leggur mikla áherslu á „hagmælskuna“, en það var einmitt slíkur stimpill sem Ólöf óttast þegar hún spyr Þorstein í bréfinu frá 25. janúar 1907 hvort hún sé „nýtilegur hagyrðingur“ en bætir síðan djörf við „eða skáld“. Að mati Valtýs er allt í ljóðum Ólafar „jafnleikandi lipurt og létt [...] – eins og dillandi lóukvak á vordegi.“ Fyrir honum er hún þó fyrst og fremst gömul kona. Hans mesta hrós felst í því að „hagyrðingssnilld“ hennar sé svo mikil að ungu skáldin „hefðu gott af að krjúpa að fótum gömlu konunnar nær sextugu og læra af henni að yrkja.“Í óðsnillingalöndum

Ljóðabækur Ólafar Sigurðardóttur bera báðar nafnið Nokkur smákvæði. Þær komu út með 25 ára millibili, sú fyrri 1888 og sú síðari 1913, og gaf hún þær út á eigin kostnað. Ljósmynd Helga Kress.

Báðar ljóðabækur Ólafar bera nafnið Nokkur smákvæði. Gæti það verið vísun í orð „litla frænda“ í „Grasaferð“ Jónasar Hallgrímssonar sem kallar kvæði sín „smákvæði“, [6] en einnig í sjálfsmynd hennar sjálfrar sem konu og skálds. Ljóð hennar eru ekki bara smá, heldur einnig fá. Kallast þetta á við myndmál smæðarinnar sem einkennir mörg ljóða hennar. Í kvæði sem hún nefnir „Lítil“ setur hún jafnaðarmerki milli líkama síns og anda:Lítill máttur lyfti mér,

lítið gerði eg með hann.

Lítil kom og lítil er,

lítil fer ég héðan.


Í næsta erindi er líkaminn „limasmár“ og andinn „lítilsigldur“. Um leið gerir hún sér grein fyrir félagslegum orsökum smæðarinnar, því að samfélaginu líkir hún við „hrjósturland“ þar sem ekkert fær vaxið, og í lok kvæðisins vonast hún eftir að „stækka“ í öðrum heimi ef „skilyrðin ögn skárri fæ.“ Þetta kvæði hefur Þorsteini Erlingssyni sennilega ekki líkað því að Ólöf birtir það ekki í ljóðabókinni 1913, og var það fyrst prentað í Ritsafni sem vinur hennar Jón Auðuns tók saman, úrvali með bæði birtum og áður óbirtum kvæðum, og kom út að henni löngu látinni árið 1945.


Smæðartilfinningu Ólafar má auðveldlega tengja stöðu hennar sem skálds í ríkjandi menningu karla og þeim viðtökum sem ljóð hennar fengu. Hún sækir mjög í viðurkenningu, einkum frá karlskáldum samtímans sem hún dáir. Báðum ljóðabókum sínum velur hún einkunnarorð eftir eitt frægasta þeirra, Steingrím Thorsteinsson, en honum hafði hún sýnt handritið að fyrri ljóðabókinni og fengið hjá honum hvatningu. [7] Í „Óðulin mín“ sem birtist í þeirri síðari (og hefur því fengið grænt ljós frá Þorsteini Erlingssyni) ber hún sig saman við þau í samblandi af smæðar- og siglingamyndmáli: „Ég erfði ögn af söndum / í óðsnillingalöndum.“ Með þennan litla arf siglir hún í fyrstu ótrauð að ströndum skáldskaparins en kann ekki að stýra, villist og strandar:


Ég villtist, varð að strandi

á vanþekkingarsandi,

er starði á óðul andi

og ættmenn þar í landi.


Gagnvart „óðsnillingunum“ getur hún ekkert, fellir seglin og gefst upp. Þau karlskáld sem Ólöf dáir mest eru – auk Þorsteins Erlingssonar – þeir Stephan G. Stephansson og Matthías Jochumsson, en hann kallaði hún „kónginn“ sinn. [8] Hún yrkir bæði um þá og til þeirra. Ekkert þeirra orti hins vegar til hennar. Í kvæði sem hún yrkir til Stephans G. Stephanssonar í heimsókn hans til Íslands 1917 titlar hún hann „Klettafjallakonunginn“. [9] Í „Ljóðaáhrif“ sem hún birtir í Nokkrum smákvæðum 1913 verða kvæði hans, eða öllu heldur bókin með þeim, að honum sjálfum í erótísku myndmáli. [10] Hún – húsmóðirin, konan – gáir utan við sig ofan í pottana meðan hann bíður:


Stephan G. minn Stephansson

stendur bak við tjöldin.

Alla daga er hans von

inn til mín á kvöldin.


Á nóttinni er hann uppi í rúmi hjá henni: „Fangin ligg í fangi hans / fram um miðjar nætur.“ Í ljóði eftir ljóði sýnir hún þannig skáldskapinn og kvenhlutverkið sem illsættanlegar andstæður, um leið og hún veltir mjög fyrir sér sjálfsmynd sinni. Hún skilgreinir sig ýmist sem konu eða skáld og þá öðruvísi en aðrar konur sem hún ber sig saman við. „Þá athuga fljóðin, hvað mest sé í móð, / og menn huga að gróðanum sínum, / en konurnar sjóða og sýsla við jóð, / ég sit hjá þeim – ljóðunum mínum,“ segir hún í ljóðinu „Ó, gæti hún þá dáið“ í Nokkrum smákvæðum 1913, þar sem hún óskar skáldskaparþránni dauða. Hún fæðir ekki börn, heldur ljóð, og uppfyllir því ekki hlutverk sitt sem venjuleg kona. Í ljóðinu „Myrkur“, sem í handriti er ársett 1905 [11] en birtist fyrst í Ritsafni 1945, efast hún beinlínis um kynferði sitt:


Af karlmanni var held ég eitthvað mér í,

það ei samt var drottnara hæðin –

sem kona ei var ég, það veit ég af því,

ég vildi ekki eintómu klæðin.


En samkvæmt þessu er hún ekki heldur karlmaður, til þess er hún ekki nógu stór.Ljósrit af blaðsíðu úr bréfi Ólafar Sigurðardóttur til Þorsteins Erlingssonar, eiginhandarriti, dagsettu á Hlöðum 25. janúar 1907.

Hugsanabörnin

Það er athyglisvert að velta því fyrir sér hvaða kvæði það eru sem Ólöf átti í handriti en sleppir að birta í ljóðabókinni 1913. Meðal þeirra er ævikvæðið „Til hinna ófæddu“ sem hún ársetur við aldamótin 1900 en birtist fyrst í Ritsafni 1945, að vísu stytt. [12] Þetta er langt ljóðabréf í þuluformi og sex erindum, stílað til ósýnilegra viðtakenda í óræðri framtíð. Er því ætlað að segja sögu hennar sjálfrar sem allt í senn yrkir það, skrifar og sendir. Þessi saga er sönn, komin beint frá henni sjálfri:


Þér, ófædda kynslóð, minn óð ég sendi,

með eigin lýsing frá fyrstu hendi.


Ólöf er fjörutíu og tveggja ára þegar hún yrkir kvæðið, en henni finnst hún vera eldri. Andstætt því sem hún ritar Þorsteini Erlingssyni um ánægju þess að eldast, er hún hér mjög upptekin af veikum og öldruðum kvenlíkama sínum sem hún eins og stillir upp til sýnis: „Um hálffimmtugt konan er, sem þú hér sér, / og svolítill krypplingur var ég og er.“ Á sama hátt lýsir hún fæðingu sinni af fullkominni neikvæðni:


En aldrei ég sköpuð var fríð eða fögur,

var fjarska smábeinótt, veikluð og mögur,

með hrukkur í framan – ég aldrei var ung –

og aðeins níu fjórðunga þung.


Þessa mynd af sjálfri sér endurtekur hún eins og til ítrekunar í upphafi næsta erindis, og kallar aðra til vitnis, hvað þeim þykir og þeim finnst: „Ég fædd þótti lítil og aftaka aum / og ófær að busla út í lífsins straum.“ Af þessum sökum vill hana enginn, „þeim fannst ég svo fráleit, / svo fádæma einþykk og eitthvað svo hjáleit“. Móðir hennar aumkast yfir hana og hún elst upp hjá þeim sem hún þó ekki unnir. Allt einkennist af skorti: „Mig vantaði unun, mig vantaði sól, / mig vantaði sjálfstraust og orkunnar skjól.“ Henni tekst að komast burt „frá æskunni ófríðri, snauðri“ og „vildi nú einsömul helst reyna að bagsa“. Eins og í „Myrkur“ er hún öðruvísi en allir aðrir og á ekki samleið með neinum, ekki heldur þeim konum sem hún leitar samstöðu með. Hún finnur sér hvergi stað og það er skýringin á því að hún giftir sig, skelfingu lostin yfir hjónabandinu og þeirri frelsisskerðingu sem því fylgir:


En hamingjan góða, hve hrædd var ég þá,

er hjúskaparböndin mig lögð voru á.


Hún er hins vegar svo heppin að eiginmaðurinn gerir ekki kröfu til hennar sem eiginkonu, heldur verður „fóstri“ hennar, og hjá honum finnur hún þann samastað sem hún leitaði að. Hjónabandið er kynlaust og Ólöf eignast ekki börn. Í ævikvæðinu koma ljóðin í staðinn, myndhverfð sem börn, getin og fædd í hugsun. Þegar hún hefur sagt frá útliti sínu eins og það kemur öðrum fyrir sjónir treystir hún sér ekki til að lýsa sér nánar en segir eins og eftir því sé spurt:


En svip mínum get ég ei sagt þér frá,

ég setti hann hugsanabörnin mín á.

Á ljóðunum kannski lifir hann,

þar líka þá sérðu minn innra mann.


Með þessu gerir hún sig að móður, kvenlegri konu, og undir það tekur einnig Þorsteinn Erlingsson þegar hann í bréfinu frá 17. mars 1907 ræðir um ljóðin sem mismunandi efnileg og fríð börn. Útlitið, líkaminn, er ekki það sem öllu skipir fyrir Ólöfu, heldur innri maðurinn, hugsanir, tilfinningar og þrár. Það er saga þeirra sem hún vill segja og vonast til að lifi áfram í hugsanabörnunum, skáldskapnum. En það verður bara „kannski“.Að konan sé maður

Á þessum hugleiðingum um skáldskapinn endar í raun ævikvæðið, það er að segja eins og það er prentað í Ritsafni 1945. Í handriti heldur það hins vegar áfram, og nokkuð óvænt með eldheitum kvenréttindaboðskap sem eins og brýst út úr upprifjuninni á eigin lífi. Þetta er löng þula, hugsuð sem hvatning til ungra stúlkna um að láta ekki kúga sig, smjaðra ekki fyrir valdinu:Mér gekk til hjarta sú grátleg sjón, sem gerir kvenfólkið mannsins þjón. Að sjá hvernig þjónslundin – því er miður – því þrýst hefur dýpra og dýpra niður. Í stað þess að játast jafngild, frjáls, sem jafnréttisaðall sérhvers máls, hin kúgaða sálin krýpur niður, með kjassmálum drottnarann biður, biður.


Með þessari umbúðalausu gagnrýni á konur sem gangast inn á misréttið með þjónustu við drottnarann, aðdáun og smjaðri, og hún sjálf – að eigin mati – er undanskilin, beinir hún máli sínu til beggja kynja jafnt með sálfræðilegri greiningu á samskiptum þeirra, áhorfandi og þátttakandi í senn:


Nú kyn okkar eru tveir andstæðir flokkar,

það ónýtir krafta og framkvæmdir okkar,

þau berast á sárustu banaspjótum

og böggla hvort annað sér undir fótum,

því mennirnir blindaðir konurnar kúga

og kvennanna athafnir hræsna og ljúga.

Að eyðileggja hvort annað sem mest,

hjá okkur sú framkvæmdin gengur nú best.

Með látgæði blekkja, og uppgerð, hvort annað,

því ærlega að þekkjast er stranglega bannað.

Mér virðist það eintóm vitfirring,

að vera að þessari kynskipting.


Þannig orti Ólöf nokkur kvenréttindaljóð sem fæst birtust á prenti, og hún virðist fyrst og fremst hafa ætlað konum. Með bréfi sem hún sendi vinkonu sinni Önnu Friðriksdóttur í september 1911 leggur hún langt kvæði sem hún biður hana að sýna „Ingibjörgu skólastýru“, fyrst hún er „að gefa mér gaum“. Anna var þá rúmlega tvítug, átti heima í Reykjavík og hafði verið nemandi Ingibjargar H. Bjarnason, skólastjóra Kvennaskólans, mikillar baráttukonu fyrir réttindum kvenna. Kvæði Ólafar hafði áður birst undir dulnefni í Nýjum kvöldvökum (1. tbl. 1910, bls. 47-48), skammstöfuninni K.B.V.K. sem á líklega að vísa til nafns konunnar í nokkuð furðulegum titli kvæðisins, „Klara Broteva Viktoria Kláusarson talar í kvenréttindamálinu“. Það er augljóslega paródía á orðræðu kvenna sem tala gegn „kvenréttindamálinu“ sem svo var kallað og var mjög á döfinni um þessar mundir. Kvæðið er sviðsett og lagt í munn ræðukonu sem talar til yngri kvenna, tekur sjálfa sig sem dæmi um hina ákjósanlegustu stöðu giftra kvenna og þakkar hana jafnt bónda sínum sem guðlegri forsjón. Í uppskrift Ólafar, bæði með bréfinu til Önnu og þeirri sem varðveist hefur í eiginhandarriti á Landsbókasafni, hefur hún breytt nafninu á kvæðinu, kallar það einfaldlega „Kvenréttindamálið“. Í eiginhandarriti Ólafar er kvæðið þula, konan er óðamála:


Að konan sé maður, er kenning sú ný

sem kvenfólkið er nú að gala.

Um skoðanir mínar á málinu því

ég má kannske dálítið tala!

Ég fjárábyrgð mannsins gef fyllsta traust,

– ég fékk ekki á ábyrgðum mætur – ,

nú situr hann einn með þær endalaust

og er hjá þeim langt fram á nætur.

Mig beygja lét guð undir bóndann minn,

ég bregð mér þó launkróka með hann,

og ábyrgðarþunga ég engan veg finn,

sem ómyndug fer ég og héðan.

Af vísdómshæð mannsins mitt útsýni er,

– ég á ei við hugsanir þungar – .

Af fegurð hann kaus mig til fylgdar með sér

– ég fræði um það dæturnar ungar.–

Að hugsa um peninga, herra minn guð!

Ef heimta ég, þá kemur hann með þá.

Fyrst mönnum til yndis mig ætlaði guð

ég einmana get ekki séð þá.

Hve tignarnafn mannsins oss togar að sér

– þá tilfinning meyjar þið kennið!

Ef sjálf ætti ég að vinna til virðingar mér,

þá væri ég með hrukkur um ennið.

Vor köllun í heiminum allra er ein:

Að afhenda mönnunum sonu,

og eignarmark föður skal fest við hvern svein

sem fæddist – með leyfi! – af konu.

Um tilgang hins alvalda ég efast ei gat,

því okkur í heim þennan lét hann:

Við eigum að hugsa, nær eingöngu, um mat.

Til ykkar var kvöð sú, að ét’ ann!

Ef fer burt úr heiminum maðurinn minn,

þá má annar láta í pottinn.

Sé yndi mitt visnað, svo vilji enginn „hinn“,

þá verð ég að ákalla Drottin.


Minnisvarði um Ólöfu Sigurðardóttur í Hólavallakirkjugarði í Reykjavík, reistur af nöfnu hennar Ólöfu P. Hraunfjörð árið 2002, hannaður af Ívari Valgarðssyni myndlistarmanni sem einnig gerði eirsteypu af andlitsmynd Ólafar greyptri í steininn. Undir henni er meitluð ein þekktasta vísa Ólafar, „Tárin“. Leiðið er týnt og finnst ekki á skrá. Ljósmynd Helga Kress.

Saga þessa kvæðis er gott dæmi um það sem kalla má ritskoðun, eða öllu heldur sjálfsritskoðun, á kvenréttindakvæðum Ólafar. Hún birti það að vísu nýort í tímariti, en undir dulnefni sem ómögulegt var að rekja, meðan önnur kvæði hennar birtust þar jafnan undir upphafsstafnum „Ó“. Í bréfinu til Þorsteins frá 25. janúar 1907 víkur hún að ótta sínum við „ámæli“ ef hún gæfi út ljóð sín. Af samhenginu má ráða að hún eigi þar einkum við þau sem hún kallar „erótísk ljóð“. En óttinn við ámæli kann einnig að eiga við þau gagnrýnu ljóð sem hún orti um stöðu kvenna um og eftir aldamótin 1900, þegar barátta íslenskra kvenna fyrir kosningarétti stóð sem hæst. Hún birti þau ekki í ljóðabókinni 1913 og Jón Auðuns sneiðir einnig hjá þeim við prentun óbirtra ljóða í Ritsafni 1945. En „Kvenréttindamálið“ varðveittist meðal kvenna, eins og einnig til stóð, og birtist fjórum árum síðar í kvennatímaritinu Emblu (3. árg. bls. 9-10) ásamt bréfinu til Önnu.


Grein þessi er að miklu leyti byggð á því sem ég hef áður ritað um Ólöfu, einkum greinunum „Í kvöld er ég fimmtug. Afmælisljóð kvenna til sjálfra sín,“ í Helga Kress, Speglanir. Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu, Reykjavík 2000, „Saga mín er sönn en smá. Um ævikvæði kvenna,“ í Helga Kress, Óþarfar unnustur og aðrar greinar um íslenskar bókmenntir, Reykjavík 2009, og „Sem kvenfólkið er nú að gala,“ í Kvennablaðinu, vefriti 2013. Sjá einnig Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Helga Kress valdi efnið og bjó til prentunar, Reykjavík 1997 (2. útg. 2000), með úrvali af ljóðum Ólafar og kaflanum „Kona og skáld“ þar sem um hana er fjallað.Tilvísarnir


[1] Ólöf Sigurðardóttir í bréfi til Þorsteins Erlingssonar, dagsettu 15. mars 1908.


[2] Ólöf og Þorsteinn skrifuðust á með hléum frá 1883 til dánardags hans haustið 1914.Hafa bréfaskipti þeirra verið gefin út tvisvar, og það með nokkurra daga millibili. Sjá Bréfaástir. Bréfaskipti Ólafar á Hlöðum og Þorsteins Erlingssonar, Þóranna Tómasdóttir Gröndal bjó til prentunar, Reykjavík 2000; og Orð af eldi. Bréfasamband Ólafar Sigurðardóttur á Hlöðum og Þorsteins Erlingssonar á árunum 1883-1914, Erna Sverrisdóttir tók saman, Reykjavík, 2000. Hvorug útgáfan er hnökralaus. Til að mynda er dagsetning á afmælisbréfi Ólafar röng í þeim báðum. Hér er því sá kostur valinn að vitna beint í eiginhandarrit bréfanna, sbr. Bréf til Þorsteins Erlingssonar frá Ólöfu Sigurðardóttur, Lbs 4165, 4to, og Bréf til Ólafar Sigurðardóttur frá Þorsteini Erlingssyni, Lbs 19 NF. Stafsetning tilvitnana er færð til nútímahorfs.


[3] Ómögulegt er að sjá hvaða ljóð fær hvaða einkunn því að Þorsteinn vísar í blaðsíðutal handritsins sem Ólöf sendi honum og stemmir ekki við þau ljóðahandrit hennar sem varðveist hafa.


[4] „Fóstrinn“ sem Ólöf nefnir hér er eiginmaður hennar, Halldór Guðmundsson. „Huliðsheimar“ er bók eftir norska rithöfundinn Arne Garborg, kom út í íslenskri þýðingu Bjarna frá Vogi árið 1906.


[5] Þorsteinn, einu ári yngri en Ólöf, og Guðrún Jónsdóttir, hans unga kona (f. 1876), komu í stutta heimsókn að Hlöðum á ferð sinni um Norðurland sumarið 1910, en þá höfðu þau Ólöf og Þorsteinn ekki sést síðan hann sigldi til Kaupmannahafnar haustið 1883. Um heimsóknina má lesa í bréfi Ólafar, stíluðu til þeirra Guðrúnar og Þorsteins beggja, dagsettu á Hlöðum 8. ágúst 1910, en það hefst svo með tilvísun til sambands þeirra Þorsteins í gamla daga og hennar sjálfrar sem (enn ungrar) konu: „Sæl og blessuð, bæði tvö! Ég sit eftir og sakna, eins og í gamla daga, svona er ég þó ung ennþá [...]. Ég skal segja þér, Guðrún, að mér er næst að halda að mér sé orðið vel við þig, þó ekki sé líklegt og ekki sé á að treysta þar sem um kvenmann er að ræða. Ég er innst inni í mér hálf ergileg, fyrst yfir því að eiga nú ekki ótrufluð þessi fáu augnablik hjá Þorsteini sem að mér loks hlotnuðust [...].“ Í bréfinu kemur ekkert fram um það hvort rætt hafi verið um útgáfu ljóðanna, enda kvartar Ólöf undan því að þau Þorsteinn hafi ekki fengið að tala saman ein. Guðrún er fyrir. Í eftirskrift ýjar hún að því við Þorstein hvað hann sé (líka) orðinn gamall, segir hann minna sig á „gamla Grím Thomsen, einkum síðan útlitið þitt eltist.“


[6] „Smákvæðin“ sem frændinn fer með fyrir „systur“ sína á grasafjallinu eru ein þekktustu kvæði Jónasar, það er „Sáuð þið hana systur mína“ og „Snemma lóan litla í“, eða „Heiðlóarvísan“ (án nafns í sögunni), sbr. Jónas Hallgrímsson, „Grasaferð“, Ritverk Jónasar Hallgrímssonar I, ritstj. Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi Egilsson, Reykjavík 1989, bls. 294-5. „Smákvæði“ kallar Jónas í lítillæti sínu eitt lengsta kvæði sitt, „Gunnarshólma“, í formála að frumbirtingu þess í Fjölni 1838, bls. 32. Sjá einnig Rit eftir Jónas Hallgrímssson I, ritstj. Matthías Þórðarson, Reykjavík 1929, bls 50. Í síðari heildarútgáfunni frá 1989, Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, er formálanum sleppt.


[7] Sbr. bréf hennar til Þorsteins Erlingssonar, dagsett í Reykjavík 10. maí 1888, þar sem hún segir frá heimsókn sinni til Steingríms og lýsir fjálglega. Fyrri ljóðabók Ólafar, Nokkur smákvæði, kom út í Reykjavík síðar sama ár. Um svipað leyti fluttist hún norður að Hlöðum með Halldóri manni sínum.


[8] Steindór Steindórsson í einkaviðtali 20. júní 1995.


[9] „Kveðju-sending til Klettafjalla-konungsins: Stephans G. Stephanssonar, frá Ólöfu á Hlöðum,“ sérprent, Akureyri 1917.


[10] Bókin er sennilega Andvökur I, sem kom út 1909.


[11] Sbr. ljóðahandrit Ólafar, eiginhandarrit, á handritadeild Landsbókasafns, Lbs 19 NF.


[12] Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum, Ritsafn, Reykjavík 1945, bls. 61. Smábreytingar eru

hér gerðar í tilvitnunum til samræmis við eiginhandarrit.