• Dagný Kristjánsdóttir

Þögnin í orðunum

Eftirfarandi grein Dagnýjar Kristjánsdóttur birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar 1997. Hún er um skáldsögur Jakobínu Sigurðardóttur.


Þögnin í orðunum

Um skáldsögur Jakobínu SigurðardótturÍ síðustu bókinni sem Jakobína Sigurðardóttir skrifaði, Í barndómi (1994) [1], segir frá því hvernig hún vaknar í rúmi sínu einn morgun í baðstofunni í Hælavíkurbænum og er ein. Hún er 12 ára eða þar um bil. Hún hefur verið veik, það hefur verið vetur en nú er að vora og hún fer fram úr rúminu til að sjá sólina út um gluggann:Trúi varla því sem ég sé úti. Að snjór sé yfir öllu er ekkert nýtt, en sjórinn er horfinn! Öll víkin út í hafsauga er horfin undir þykka, nær bláhvíta snjóbreiðu! Sólin skín, en það er engu líkara en skin hennar sé hvítt og kalt. Ég kreisti aftur augun, lít út aftur, en þetta er ekki missýning. Og smám saman skil ég, að það er hafísinn sem hefur lagt sjóinn undir sig. Hafís hef ég aldrei áður séð. Heyrt talað um þá ógn sem heitir hafís, lesið um það fyrirbæri og allt það skelfilega, sem honum getur fylgt. En ekkert af því kemst í námunda við að sjá hann fylla víkina heima allt til hafs og slá fölva á sjálft sólskinið. Ekkert, nema fyrir barnshönd að komast í snertingu við nákulda dauðans —. (87-88)

Það er heimsendahljómur í myndinni af því sem „slær fölva á sjálft sólskinið“ og þessi snjóhvíti heimur kallast á við sálrænt áfall sem barnið hefur orðið íyrir þegar hún snertir lík elskaðs, gamals frænda á bænum og finnur hinn „hræðilega kulda.“(50)


Snjórinn og „allt það skelfilega, sem honum getur fylgt“ er áleitið og endurtekið minni í síðari verkum Jakobínu Sigurðardóttur. Veturinn og snjórinn á Hornströndum er ofarlega í huga gömlu konunnar í smásögunni „Ekki frá neinu að segja“ í smásagnasafninu Púnktur á skökkum stað (1964) [2]. í Lifandi vatninu (1974) [3] hugsar Pétur um snjóflóðið sem tók með sér bóndabæ og færði á haf út. Enginn byggir bæ þar sem þessi stóð vegna þess að þar er reimt, segir fólk. (96) Og snjórinn er leiðarminni bókarinnar Í sama klefa (1981). [4]


Frásagnaraðferð skáldsögunnar Í sama klefa er engan veginn einföld. Í sama klefa er fyrstu persónu frásögn þar sem sögukonan er rithöfundur sem ætlar að skrifa Góða Bók og Marktækt Hugverk, en úr því verður ekki. Þess í stað skrifar hún um sjóferð sem hún fór í „fyrir meira en þrjátíu árum“ (16). Hún deildi klefa með Salóme Kjartansdóttur og hlustar á sögu hennar heila nótt. Það er sem sagt hver sagan inni í annarri og allar spegla þær hver aðra á margvíslegan hátt. Í greininni „… þetta er skáldsaga“ [5] fjallar Ástráður Eysteinsson um hina flóknu gerð bókarinnar Í sama klefa, sjálfsvísanir hennar og vangaveltur um tungumál, skáldskap og eigin tilurð. Hann minnist líka á snjóinn og segir að hann sé „tákn fyrir tilveru Salóme“. [6] Snjórinn er tákn fyrir enn fleira í þessum texta.


Salóme kemur vestur sem kaupakona árið 1930 í byrjun kreppunnar og á gott sumar á Hamri. Hún dregst á að vera veturinn líka og segir við sögukonuna:


Jújú, ég ætlaði suður með vorinu, en þá var ég orðin ófrísk og trúlofuð manninum mínum. Þú veizt sjálfsagt hvernig veturnir eru hérna. En ég vissi ekki að þeir eru svona … Það er svo náttúrlegt að það sé snjór í fjöllum. En allur þessi snjór kringum bæinn og allsstaðar, hvert sem maður lítur, nema þar sem sér í sjó, allsstaðar snjór, endalaus snjór … Það var snjór yfir öllu, eilífur, endalaus snjór —. (33-34)

Snjórinn lokar Sölu inni á Hamri, karlmennirnir fara ferða sinna á skíðum en hún hefur aldrei stigið á skíði. Snjórinn einangrar hana, lokar hana inni í klefa með bóndasonunum tveimur, Jóel og Berta og foreldrum þeirra. Hún giftist Jóel. Ef til vill má segja að hún „gangi í hamarinn“ því að smám saman aðlagast hún Jóel og tengdafólkinu, tekur upp orðræðu þess og lífsviðhorf.


Það er tvennt sem skiptir sköpum í lífi Sölu en það eru ástin og hefndin eða refsingin. Menn tala ekki um tilfinningar í þessu samfélagi og Sala notar ekki hugtakið „ást“. Hún notar hugtakið „góður“ um þá sem sýna henni umhyggju og „blíður“ um eina mannveru eða son sinn, Kjartan.


Berti er „góður“ við hana og þau eiga í ástarsambandi í tvö ár. Þetta er ást í meinum, Sala kallar hana „þetta“ og segir: „… það er eins og manni sé ekki sjálfrátt, þegar þetta kemur yfir mann.“ (53) Þau elskast á stolnum stundum en Sala er þá ófrísk að öðru barni sínu, Kjartani. Hann fæðist svo mjög þroskaheftur og Sala túlkar það sem hefnd eða refsingu fyrir synd sína. Um leið elskar hún engan og ekkert jafn heitt og þennan dreng. Og hann er sá eini sem elskar hana skilyrðislaust, það eina sem hún á alein og enginn mun taka frá henni því að enginn annar vill elska svona barn. Kjartan verður eins og „annað sjálf“ Sölu, birtingarmynd bæklaðs tilfinningalífs hennar, sjálfsfyrirlitningar og fullkomins valdaleysis.


Tilfinningar hennar til Berta eru hins vegar mjög flóknar og fullar af tvískinnungi. Henni finnst hann barnalegur og mun yngri en hún þó að muni aðeins tveimur árum á þeim. Hann skilur ekki stöðu hennar eða þau bönd sem binda hana við bróður hans og börnin. Hann vill að hún yfirgefi fjölskyldu sína og fylgi sér. Þess vegna skoðar Sala bæklun Kjartans sem björgun: „Og hvað hefði orðið um mig, ef hann hefði ekki fæðzt svona á sig kominn, blessaður drengurinn. Það veit Guð einn. —“ (75) Vegna Kjartans getur Sala ekki fylgt Berta. Kjartan er sá kross sem hún verður að bera en hún harmar það ekki heldur þakkar fyrir hann og elskar hann. Ást hennar á drengnum litast af meinlætalosta. Það eina sem truflar samband þeirra tveggja eru kröfur Berta.


Sala hindrar Jóel í að fara til sjós með Berta og lætur slíkum látum að það kemur öllum á óvart, ekki minnst henni sjálfri. Þegar fréttin um að báturinn hafi farist berst að Hömrum leggst hún í rúmið, enda veik og ófrísk. Hún þrítekur það við sögukonu að það hafi aldrei hvarflað að sér að „nokkuð illt gæti komið fyrir hann“ — þetta hafi sér aldrei dottið í hug. Samt er hún búin að segja að hún hafi fengið hugboð og verið gripin óhugnaði sem gerir hana nógu hrædda til að stöðva Jóel. Hvers vegna stöðvar hún ekki Berta? Hún velur annan bróðurinn og hinn skynjar dauðaóskir hennar þegar hann kveður hana með þeim orðum að besta lausnin væri að hann kæmi ekki aftur. Upphaflega elskar hún Berta og tilvist Kjartans er refsing fyrir það en þegar hér er komið sögu er orðinn algjör umsnúningur á tilfinningum, ást hennar er bundin Kjartani og tilvist Berta verður eins og refsing eða hefnd fyrir það. Salóme Kjartansdóttir segir þetta ekki berum orðum en þetta má lesa úr sögu hennar.


Undir vorið fæðir Sala dóttur sem hana langar til að skíra í höfuðið á Herborgu tengdamóðurinni sem færist undan því. Hún hefur hins vegar ekkert á móti því síðar að yngri telpan heiti hennar nafni. Sala segir aldrei að barnið sem fæðist vorið eftir dauða Berta sé hans barn og yngri sögukonan spyr ekki.


Sögukonan spyr ekki um það sem Salome vill ekki segja. Hún vill raunar ekki hlusta á hina fáránlegu sögu hennar yfirleitt. Hún vill ekki taka þátt í henni, sýna hlýju eða samúð eða láta draga sig inn í frásögnina. Hún vill fá að vera í friði í klefanum, lesa eða sofa, og hún reynir hvað eftir annað að snúa Sölu af sér til að byrja með. Sögukonan er full af mótþróa. Hún segir:


… mér er ekkert vel við snjó. En þetta tal Sölu um snjóinn vakti mér andúð, ósjálfrátt gekk ég í varnarstöðu fyrir þessa sveit, sem ég hafði aldrei séð, þennan landshluta, þetta sólarleysi, þennan snjó yfir öllu fram í sjó allan veturinn. Hversvegna veit ég ekki. Ekki vildi ég búa hér. (36)

Hún vildi ekki sjálf búa í snjónum sem henni finnst að Sala ætti að sætta sig við. Yngri sögukonan vill ekki vera í sama klefa og Sala og vill ekki sjá neitt sameiginlegt með þeim tveimur. Eldri sögukonan vill ekki skrifa Góðu bókina sem ætlast er til að hún skrifi og hún vill ekki skrifa sögu Sölu. Samt gerir hún það. Hvað eftir annað rjúfa báðar sögukonurnar frásögn Sölu til að gera truflandi athugasemdir við hana, benda á að hún komi þeim ekki við, jafnvel reyna að stöðva söguna — en það hefur engin áhrif á Salome Kjartansdóttur. Hún segir samt frá. Fullkomlega ástríðulaust, án minnsta áhuga á áheyranda sínum, án nokkurrar tilraunar til að tæla hina konuna með frásögninni eða hafa áhrif á hana.


Hin konan hugsar um ævintýrið af Mjallhvíti; hvítan snjóinn, svarta íbenviðargluggakistuna og rautt blóð drottningarinnar. Byrjun ævintýrisins segir frá þrá kvenna eftir barni, fagurri dóttur, og eldri sögukonan heldur áfram:


En snjór, venjulegur snjór, byrgjandi glugga, lokandi dyrum, færandi í kaf bæinn og útihúsin, hindrandi með ófærð öll samskipti við fólk í alls ekki fjarlægri grennd landslagslega séð, sá snjór er ömurleg staðreynd, engum skiljanleg til fulls, nema af eigin reynslu. Vetrarsnjór barnæsku minnar var hluti af hversdagsleikanum, sem ekki er til neins að tala um, jafn náttúrlegur og sauðburður og sláturtíð, fæðing og dauði, strit, sultur og saðningargleðin, þegar nóg var til að borða. (89)

Snjórinn er hér tengdur innilokun kvennanna og sögukonan leiðir vetrarsnjóinn í frjálsum hugrenningatengslum að fæðingu og dauða, hungri og saðningu, líkamlegum frumþörfum, líkama kvennanna. Hún heldur áfram og segir:


En — ef akfærir vegir hverfa undir snjóinn, ef þú lokast inni í þessari hvítu fegurð dögum, vikum, mánuðum saman, — þá verður snjórinn aftur snjór. Þessi snjór sem Sala talaði um og við hefðum átt að vera sammála um. Var það vegna þess að ég hafði átt svo lengi heima á Suðurlandi, að ég vildi ekki — gat ekki — ekki þá að minnsta kosti, — samþykkt það sem hún sagði um snjóinn á Hamri? Eitthvað innra með mér reis öndvert gegn henni. En ég sagði ekkert. (89)

Yngri sögukonan segir ekkert, enda veit hún ekki hvað það er sem hún vill segja. Hún þekkir einangrunina sem fylgir snjónum og þær Sala „hefðu átt að vera sammála“ um hann. Hún þekkir líka þögnina. Það „eitthvað“ sem rís öndvert gegn Sölu er falið í þögninni. Allt sem snertir líkama konunnar er útilokað í opinberri orðræðu samfélagsins sem þær báðar eru mótaðar af. Þegar Sala ílendist á Hamri er það vegna veikinda Herborgar sem liggur stundum fyrir á daginn: „Það var aldrei talað um það. Það var víst eitt af þessu hjá konum, sem ekki er talað um, þú veizt. Hún var rétt orðin fimmtug.“ (24)


Sala sekkur niður í djúpt þunglyndi eftir fæðingu fyrsta barnsins, ólétt að Kjartani nánast strax á eftir, en hún leitar ekki neinnar hjálpar heldur fer afsíðis til að gráta „sem annaðhvort var“ (44). Þegar hún er ólétt að þriðja barninu heldur hún engu niðri og svo byrja blæðingar sem standa vikum saman svo að hún verður að liggja fyrir en það er ekki kallað á lækni. „Og þetta lagaðist af sjálfu sér.“ (61) Ekki er talað um kynlíf, hvorki gott né vont, og ekki er fjölyrt um framhjáhöld, afbrigðilegar þrár eða misnotkun. Meðganga, blæðingar, ótímabærar þunganir, fósturlát og fæðingar; allt er þetta falið í þögninni. Sömuleiðis þunglyndi, taugaveiklun, geðveiki og innri óreiða. „Það var aldrei talað um það.“ (24)


Í ævisögunni Í barndómi segir Jakobína Sigurðardóttir frá minningu um atvik sem gerist í baðstofunni í Hælavíkurbænum þegar hún er lítil. Gamall og tannhvass niðursetningur, Jóna gamla, og faðir hennar standa í skotinu við kamínuna og rífast heiftarlega í hálfum hljóðum. Faðirinn heldur á hnífi sem hann hefur verið að brýna. Móðirin stendur hjá þeim og reynir að stilla til friðar. Brot úr setningum ná eyrum barnanna sem sitja á rúmunum, frosin af skelfingu. Allt í einu beygir gamla konan sig áfram og segir eitthvað við föðurinn sem náfölnar og hefur hnífinn á loft. Faðirinn ætlar að drepa. Hvers vegna? Hvað sagði gamla konan? Það fáum við aldrei að vita en í skáldsögunni Í sama klefa segir sögukonan:


Ég vissi um margt, sem gerist á afskekktum stöðum, atburði sem lokast inni í þögn og angist þeirra, sem lifðu þá og hverfa með þeim. Eða lifa þá í grun og minni annarra, eins og hálfkveðin vísa eða torráðin þula höfundalaus. (47-48)

Hálfkveðnar vísur kalla á framhald og torráðnar þulur kalla á túlkun. Það er ef til vill ekki það sem Salóme Kjartansdóttir segir, sem fangar sögukonuna og okkur í skáldsögunni Í sama klefa heldur það sem Salóme segir ekki. Þegar hin dauðadæmda drottning Scheherazade sagði þúsund og eina sögu á jafnmörgum nóttum til að bjarga lífi sínu, voru það ekki sögurnar sem björguðu henni, heldur þögnin. Hún kunni þá list að hætta að segja frá, þagna á réttum stöðum svo að forvitni soldánsins vaknaði og krefðist fleiri sagna. En Salóme Kjartansdóttir þagnar ekki af því að hún vilji það, þvert á móti, hún vill segja sögu sína, verður að segja hana. Hún er að rjúfa 16 ára þögn.


Þögnin felst ekki aðeins í því að ekkert sé sagt, þögnin getur líka falist í orðunum. Sérhvert orð fær merkingu sína af öðrum orðum sem það útilokar; hugtakið „far“ fær vísun og merkingu af því að vera öðruvísi en hugtakið „par“, þegar við segjum annað veljum við að segja ekki hitt. Merking sérhvers hugtaks felur í sér fjarveru annarra hugtaka og það fær merkingu sína frá þeim. Í sérhverju hugtaki felst þannig merkingarfrestun og margir merkingarmöguleikar, þöglir. Við fáum margræðnina í kaupbæti með orðunum, við getum aldrei tjáð nákvæmlega og eingöngu það sem við hefðum kosið og sá sem við tölum við mun aldrei skilja nákvæmlega hvað það var sem við sögðum. [7] Pælingar af þessu tagi um tungumálið ganga eins og rauður þráður gegnum allar bækur Jakobínu Sigurðardóttur.


Hjá alþýðufólkinu, verkafólkinu og bændunum, sem hún lýsir í smásögum eins og „Stellu“ í Púnktur á skökkum stað (1964), Dœgurvísu (1965) og Lifandi vatninu (1974) stendur fólk varnarlaust frammi fyrir tungumálinu. Þögnin hleðst upp og verður ærandi. Fólkið segir ekki það sem það langar til að segja og langar ekki til að segja það sem það segir. Orðin færa merkinguna aðeins fjær og það skilur ekki hvert annað. Og hvar á að hefja hina sameiginlegu baráttu ef tungumálunum hefur verið sundrað eins og Guð gerði til að lækka rostann í mönnum sem héldu að þeir gætu byggt Babelsturn sem næði til himins:


Og Drottinn mælti: Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra, og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra. Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál. [8]

Þó að Guð vilji ekki að mennirnir skilji hver annan, vill skáldið og listamaðurinn Jakobína Sigurðardóttir þýða eitt tungumál yfir á annað í og með verkum sínum, leita að skilningi og merkingu í torskildum málheimi, fullum af hálfkveðnum vísum. Eins og bandaríski bókmenntafræðingurinn Shoshana Felman bendir á felur slík þýðing í sér að sá sem þýðir tekur skrefið yfir í hið óþekkta, tungumál hinna, og gerir það að sínu og sig að því: „… það sem er í húfi á leið eins tungumáls til annars er síður þýðingin í sjálfri sér en þýðingin á sjálfum sér— yfir í framandleika tungumálsins.“ [9]


Sigmund Freud gengur svo langt að kalla þekkingarþrá mannsins „hvöt“ og líkir henni þar með við hvatir sem eiga upptök í líkamanum en fá form og viðfang í sálarlífinu. [10] Við þráum merkingu, svör, sögur af því að það er eitthvað sem ekki gengur upp, eitthvað sem vantar. Það vantar merkingu og Salóme leitar þessarar merkingar í sögu sinni. „Ég sagði ekkert“ segir sögukonan í skáldsögunni Í sama klefa og heldur áfram:


Sala — Salóme var ekki að tala við mig fremur en eitthvað annað eða einhvern annan. Ef til vill var hún að tala við snjóinn, þennan eilífa, endalausa snjó hvert sem litið er.  (89)

Sala er að tala við snjóinn og snjórinn er eins og hið óskrifaða, hvíta blað. Á hinu óskrifaða blaði rúmast allar sögur eins og öll hljóð felast í þögninni og allir litir í hvíta litnum, segir bandaríska fræðikonan Susan Gubar. [11] Hin munnlega frásagnarlist Salóme fær listrænt form skrifuð í snjóinn, þetta er frásagnarlist kvennanna fyrir ritlist, fyrir bókmenntasögur, fyrir bókmenntastofnun — þetta er tungumál sem finnur sér farveg þó það sé bannað af því að það getur sagt frá líkamanum, geðveikinni og kyninu frá herfilegra og hættulegra sjónarhorni en menningin telur sig hafa gott af. Aldrei getur Góð bók eða Marktækt Hugverk orðið til á þessu tungumáli og það veit sögukonan í Í sama klefa, bæði sú eldri og sú yngri. Þess vegna hafa þær valið að vera ekki „í sama klefa“ og Salóme Kjartansdóttir og þess vegna reyna þær að telja sér og okkur trú um að snjór sé bara snjór.


Löngu síðar rekst eldri sögukonan á þrjú kvæði í einhverju blaði eða tímariti á læknabiðstofu. Kvæðin eru eftir Salóme Kjartansdóttur „fyrrum húsfreyju á Hamri, en nú búsettri í Reykjavík ásamt fjölskyldu sinni“ (97) Sögukonan tekur það fram að þetta hafi ekki verið neitt sérstök kvæði, alþýðleg, rímuð, ekkert háfleyg eða með öðrum orðum ekki Marktæk Hugverk. Síðasta kvæðið les hún samt tvisvar og …


…síðan aftur nafn höfundarins og kynningu á honum. Því kvæðið var um snjóinn, fegurð hans í sólskini, glitrandi hjarnbreiður í tunglskini, litasamleik hans og svartra, hálfnakinna hamrafluga! … Það sem snart mig svona undarlega var þetta kvæði um snjóinn. Undirtónninn í því var svo einkennilega magnaður sárum trega og heimþrá. Furðulegt. Snjórinn  (98)

Það hafa orðið róttæk umskipti eða umsnúningur á hlutverkum, Sala er orðin að skáldi, snjóskáldi, á meðan eldri sögukonan getur alls ekki náð tökum á hinni Góðu Bók. Hún leggur þá bók frá sér og hefst handa við að „þýða“ og skrifa sögu Sölu og sína þannig að þögnin fái mál.


Það hefur ekki mikið verið skrifað um höfundarverk Jakobínu Sigurðardóttur og mest af því sem skrifað hefur verið leggur megináherslu á þjóðfélagslega róttækni hennar og harða gagnrýni á hið stéttskipta, kapítalíska þjóðfélag sem við lifum í. Hér hefur verið lögð áhersla á hinn ljóðræna og heimspekilega þátt í verkum hennar en þegar upp er staðið get ég ekki séð neina andstæðu þarna á milli. Byltingin hlýtur að byrja í málinu, hugsuninni og hugmyndunum. Verði sá vilji Jakobínu Sigurðardóttur — er hægt að halda áfram og byggja réttlátt þjóðfélag.


Jakobína Sigurðardóttir fœddist í Hœlavík á Hornströndum árið 1918. Stórbrotin náttúra Hornstranda og hörð lífsbaráttan hefur sett svip sinn á bæði lífsviðhorf og list Jakobínu. Jakobína var elst 13 systkina, eitt þeirra er rithöfundurinn Fríða Á. Sigurðardóttir. Formleg skólaganga Jakobínu varð ekki löng enda leyfði efnahagurinn það ekki.


Jakobína giftist Þorgrími Starra Björgvinssyni og þau hófu búskap á Garði í Mývatnssveit, þeim fœddust fjögur börn. Jakobína byrjaði ekki að skrifa fyrr en hún var komin yfir fertugt. Fyrstu bækur hennar voru barnabókin Sagan af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði kotungsdóttur (1959) og ljóðabókin Kvæði (1960).


Jakobína var mikill meistari smásagnaformsins eins og smásagnasöfnin Púnktur á skökkum stað (1964), Sjö vindur gráar (1970) og Vegurinn upp á fjallið (1990) bera vott um.


Verulega eftirtekt vakti Jakobtna með skáldsögunni Dægurvísa (1965). Dægurvísa gerist á einum sólarhring í húsi nokkru t Reykjavík. Við fylgjumst með saumakonunni og dóttur hennar í kjallaranum, vinnukonunni og frúnni á miðhæðinni. Í risinu býr ógift kennslukona og ungt par sem við fylgjumst líka með. Sjónarhorn sögunnar færist milli íbúanna og sagan verður þannig eins og hópsaga — aðalpersóna sögunnar er ef til vill húsið sjálft.


Næsta skáldsaga Jakobínu var Snaran (1968) sem gerist í risastórri verksmiðju einhvern tíma í framtíðinni. Sögumaður er gamall sópari í verksmiðjunni sem talar stöðugt við yngri verkamann sem við fáum aldrei að sjá eða heyra. Þriðja saga Jakobínu Lifandi vatnið (1974) lýsir þvt gildishruni sem varð í íslenska samfélaginu í striðinu og á eftirstríðsárunum, vaxandi firringu verkafólks og vanmætti þess gagnvart efnishyggju sem útilokar samstöðu og lamar baráttuþrek. Aðalpersónan Pétur Pétursson verkamaður lætur sig hverfa og leitar aftur til bernskuslóðanna í von um að finna aftur verðmæti bernskunnar. Hann uppgötvar að sú paradís verður ekki endurheimt, allt er breytt og hans hlutskipti er plastheimur sem hann getur ekki lifað í. Um skáldsöguna Í sama klefa (1981) vísast í greinina hér að framan.


Eftir andlát Jakobínu Sigurðardóttur árið 1994 kom út minningabókin Í barndómi.


Aftanmálsgreinar


1 Jakobína Sigurðardóttir: Í barndómi. Reykjavík 1994. Hér eftir er vísað í verk Jakobínu í sviga eftir hverri tilvitnun.


2 Jakobína Sigurðardóttir: Púnktur á skökkum stað, Heimskringla, Reykjavík, 1964.


3 Jakobína Sigurðardóttir: Lifandi vatnið, Skuggsjá, 1974.


4 Jakobína Sigurðardóttir: Í sama klefa, Mál og menning, 1981.


5 Ástráður Eysteinsson: „... þetta er skáldsaga“, Tímarit Máls og menningar, 1, 1983.


6 Sama rit, 93.


7 Terry Eagleton: Literary Theory, An Introduction, Basil Blackwell, 1983, 127-132.


8 Fyrst bók Móse, 11,6-8, Biblían, Hið íslenska biblíufélag, Reykjavík, 1961.


9 „… what is at stake in the passage from one language to another is less translation in itself than the translation of oneself — into the otherness of language.“ Shoshana Felman: Writing and Madness, (Literature/Philosophy/Psychoanalysis), Cornell University Press, Ithaca, New York, 1989, bls. 19.


10 Sigmund Freud: „Drei Abhandlungen zur Sexualtheorie“, Gesammelte Werke V, S. Fischer Verlag, London, 1942, bls. 95.


11 Susan Gubar: „„The Blank Page“ and Female Creativity“ í Elizabeth Abel (ed.): Writing and Sexual Difference, The Harvester Press, 1982, bls. 89.


Greinin er birt með leyfi Dagnýjar og þökkum við henni kærlega fyrir.