• Dagný Kristjánsdóttir

Þögnin í orðunum

Eftirfarandi grein Dagnýjar Kristjánsdóttur birtist fyrst í Tímariti Máls og menningar 1997. Hún er um skáldsögur Jakobínu Sigurðardóttur.


Þögnin í orðunum

Um skáldsögur Jakobínu SigurðardótturÍ síðustu bókinni sem Jakobína Sigurðardóttir skrifaði, Í barndómi (1994) [1], segir frá því hvernig hún vaknar í rúmi sínu einn morgun í baðstofunni í Hælavíkurbænum og er ein. Hún er 12 ára eða þar um bil. Hún hefur verið veik, það hefur verið vetur en nú er að vora og hún fer fram úr rúminu til að sjá sólina út um gluggann:Trúi varla því sem ég sé úti. Að snjór sé yfir öllu er ekkert nýtt, en sjórinn er horfinn! Öll víkin út í hafsauga er horfin undir þykka, nær bláhvíta snjóbreiðu! Sólin skín, en það er engu líkara en skin hennar sé hvítt og kalt. Ég kreisti aftur augun, lít út aftur, en þetta er ekki missýning. Og smám saman skil ég, að það er hafísinn sem hefur lagt sjóinn undir sig. Hafís hef ég aldrei áður séð. Heyrt talað um þá ógn sem heitir hafís, lesið um það fyrirbæri og allt það skelfilega, sem honum getur fylgt. En ekkert af því kemst í námunda við að sjá hann fylla víkina heima allt til hafs og slá fölva á sjálft sólskinið. Ekkert, nema fyrir barnshönd að komast í snertingu við nákulda dauðans —. (87-88)

Það er heimsendahljómur í myndinni af því sem „slær fölva á sjálft sólskinið“ og þessi snjóhvíti heimur kallast á við sálrænt áfall sem barnið hefur orðið íyrir þegar hún snertir lík elskaðs, gamals frænda á bænum og finnur hinn „hræðilega kulda.“(50)


Snjórinn og „allt það skelfilega, sem honum getur fylgt“ er áleitið og endurtekið minni í síðari verkum Jakobínu Sigurðardóttur. Veturinn og snjórinn á Hornströndum er ofarlega í huga gömlu konunnar í smásögunni „Ekki frá neinu að segja“ í smásagnasafninu Púnktur á skökkum stað (1964) [2]. í Lifandi vatninu (1974) [3] hugsar Pétur um snjóflóðið sem tók með sér bóndabæ og færði á haf út. Enginn byggir bæ þar sem þessi stóð vegna þess að þar er reimt, segir fólk. (96) Og snjórinn er leiðarminni bókarinnar Í sama klefa (1981). [4]


Frásagnaraðferð skáldsögunnar Í sama klefa er engan veginn einföld. Í sama klefa er fyrstu persónu frásögn þar sem sögukonan er rithöfundur sem ætlar að skrifa Góða Bók og Marktækt Hugverk, en úr því verður ekki. Þess í stað skrifar hún um sjóferð sem hún fór í „fyrir meira en þrjátíu árum“ (16). Hún deildi klefa með Salóme Kjartansdóttur og hlustar á sögu hennar heila nótt. Það er sem sagt hver sagan inni í annarri og allar spegla þær hver aðra á margvíslegan hátt. Í greininni „… þetta er skáldsaga“ [5] fjallar Ástráður Eysteinsson um hina flóknu gerð bókarinnar Í sama klefa, sjálfsvísanir hennar og vangaveltur um tungumál, skáldskap og eigin tilurð. Hann minnist líka á snjóinn og segir að hann sé „tákn fyrir tilveru Salóme“. [6] Snjórinn er tákn fyrir enn fleira í þessum texta.


Salóme kemur vestur sem kaupakona árið 1930 í byrjun kreppunnar og á gott sumar á Hamri. Hún dregst á að vera veturinn líka og segir við sögukonuna:


Jújú, ég ætlaði suður með vorinu, en þá var ég orðin ófrísk og trúlofuð manninum mínum. Þú veizt sjálfsagt hvernig veturnir eru hérna. En ég vissi ekki að þeir eru svona … Það er svo náttúrlegt að það sé snjór í fjöllum. En allur þessi snjór kringum bæinn og allsstaðar, hvert sem maður lítur, nema þar sem sér í sjó, allsstaðar snjór, endalaus snjór … Það var snjór yfir öllu, eilífur, endalaus snjór —. (33-34)

Snjórinn lokar Sölu inni á Hamri, karlmennirnir fara ferða sinna á skíðum en hún hefur aldrei stigið á skíði. Snjórinn einangrar hana, lokar hana inni í klefa með bóndasonunum tveimur, Jóel og Berta og foreldrum þeirra. Hún giftist Jóel. Ef til vill má segja að hún „gangi í hamarinn“ því að smám saman aðlagast hún Jóel og tengdafólkinu, tekur upp orðræðu þess og lífsviðhorf.


Það er tvennt sem skiptir sköpum í lífi Sölu en það eru ástin og hefndin eða refsingin. Menn tala ekki um tilfinningar í þessu samfélagi og Sala notar ekki hugtakið „ást“. Hún notar hugtakið „góður“ um þá sem sýna henni umhyggju og „blíður“ um eina mannveru eða son sinn, Kjartan.


Berti er „góður“ við hana og þau eiga í ástarsambandi í tvö ár. Þetta er ást í meinum, Sala kallar hana „þetta“ og segir: „… það er eins og manni sé ekki sjálfrátt, þegar þetta kemur yfir mann.“ (53) Þau elskast á stolnum stundum en Sala er þá ófrísk að öðru barni sínu, Kjartani. Hann fæðist svo mjög þroskaheftur og Sala túlkar það sem hefnd eða refsingu fyrir synd sína. Um leið elskar hún engan og ekkert jafn heitt og þennan dreng. Og hann er sá eini sem elskar hana skilyrðislaust, það eina sem hún á alein og enginn mun taka frá henni því að enginn annar vill elska svona barn. Kjartan verður eins og „annað sjálf“ Sölu, birtingarmynd bæklaðs tilfinningalífs hennar, sjálfsfyrirlitningar og fullkomins valdaleysis.


Tilfinningar hennar til Berta eru hins vegar mjög flóknar og fullar af tvískinnungi. Henni finnst hann barnalegur og mun yngri en hún þó að muni aðeins tveimur árum á þeim. Hann skilur ekki stöðu hennar eða þau bönd sem binda hana við bróður hans og börnin. Hann vill að hún yfirgefi fjölskyldu sína og fylgi sér. Þess vegna skoðar Sala bæklun Kjartans sem björgun: „Og hvað hefði orðið um mig, ef hann hefði ekki fæðzt svona á sig kominn, blessaður drengurinn. Það veit Guð einn. —“ (75) Vegna Kjartans getur Sala ekki fylgt Berta. Kjartan er sá kross sem hún verður að bera en hún harmar það ekki heldur þakkar fyrir hann og elskar hann. Ást hennar á drengnum litast af meinlætalosta. Það eina sem truflar samband þeirra tveggja eru kröfur Berta.