• Helga Jónsdóttir

Útgáfutíðindi – Reykjavík barnanna


Væntanleg er bókin Reykjavík barnanna: Tímaflakk um höfuðborgina okkar eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur. Þær hafa áður sent frá sér Íslandsbók barnanna, sem einnig hefur komið út í enskri þýðingu, þar sem Margrét skrifar aðgengilegan og fróðlegan texta fyrir alla fjölskylduna og Linda myndskreytir listavel. Í viðtali um þá bók segir Margrét hugmyndina hafa verið „að reyna að færa, á 50 opnum, barninu gjöfina Ísland, á skemmtilegan hátt og fallegan án þess að þetta sé kennslubók.“


Viðtökur Íslandsbókar barnanna voru gríðargóðar en fyrir verkið hlutu Margrét og Linda bæði Barnabókaverðlaun Reykjavíkur og Fjöruverðlaunin. Í rökstuðningi dómnefndar Fjöruverðlaunanna segir um bókina:


Íslandsbók barnanna eftir Margréti Tryggvadóttur og Lindu Ólafsdóttur er falleg, vel skrifuð og fræðandi bók um Ísland þar sem fjallað er um birtuna, myrkrið, dýralíf, gróðurfar, mannlíf, íslenska tungu og ýmislegt fleira sem tengist lífi okkar og tilveru á þessari litlu eyju. Höfundar koma vel til skila mikilvægi þess að hugsa vel um landið og að Ísland sé land okkar allra. Uppsetning bókarinnar er afar aðgengileg og hægt að grípa niður í bókina hvar sem er, aftur og aftur, og finna eitthvað sem fangar athyglina. Ríkulegar myndskreytingar mynda heildstætt verk þar sem hver blaðsíðan af annarri er sannkallað listaverk.

Líkt og titillinn gefur til kynna beina Margrét og Linda sjónum að höfuðborginni í Reykjavík barnanna en í fréttatilkynningu um útgáfuna segir um bókina:


Í Reykjavík barnanna er stiklað á stóru um sögu höfuðborgarinnar okkar, frá því áður en fyrstu íbúarnir tóku sér þar bólfestu og þar til hún varð sú fjölbreytta og líflega borg sem við þekkjum. Í máli og myndum er sagt frá mannlífi og menningu, blokkum og bröggum, gatnakerfi og götulýsingu, skautasvellum og skolpræsum, útsýni og útivist, og öllu mögulegu öðru sem finna má í Reykjavík.

Ljóst er að barnafjölskyldur landsins geta farið að hlakka til en útgáfudagur bókarinnar er 17. ágúst.