• Helga Jónsdóttir

Útgáfuhóf og ljóðasmiðjur hjá Svikaskáldum


Skáldkonurnar Þórdís Helgadóttir, Þóra Hjörleifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Melkorka Ólafsdóttir og Fríða Ísberg mynda saman kollektífið Svikaskáld en óhætt er að segja að margt sé á döfinni hjá þessum atorkusama hópi um þessar mundir. Þær hafa skrifað saman þrjár ljóðabækur en nú er komið að útgáfu fyrstu skáldsögu hópsins sem þær skrifa einnig í sameiningu. Sagan heitir Olía og kemur út hjá Forlaginu eftir rúma viku en af því tilefni verður útgáfuhóf á efri hæð Iðnó fimmtudaginn 5. október kl. 17.


Skáldsagan er góðu heilli ekki það eina sem þyrstir lesendur mega vænta frá skáldahópnum því fyrr í mánuðinum sendi Þórdís Helgadóttir frá sér ljóðabókina, Tanntaka, og einnig er von á skáldsögunni, Merking, eftir Fríðu Ísberg síðar í haust.Gróska Svikaskálda takmarkast ekki við ritun skáldskapar og útgáfu því hópurinn stendur jafnframt fyrir ljóðasmiðjum fyrir ungmenni. Smiðjurnar eru ókeypis og verða haldnar nú í október í annað sinn. Að þessu sinni verða tvö námskeið í boði, annað fyrir ungmenni á aldrinum 16-18 ára og hitt fyrir 19-21 árs. Á síðu viðburðarins segir:

Í ljóðasmiðjum Svikaskálda leggjum við áherslu á að hlúa að skáldunum sem þar stíga stundum sín fyrstu skref á ritvellinum og tendra skáldaneistann. Allir geta skrifað ljóð!

Námskeiðin verða haldin í Gröndalshúsi og kennt verður tvo daga þrjá tíma í senn. Námskeiðið fyrir 16-18 ára verður sunnudagana 10. og 17. október milli 14 og 17 en tímarnir fyrir 19-21 árs verða á laugardögum, 9. og 16. október einnig milli 14 og 17. Aðeins eru örfá pláss laus í hvort námskeiðið svo það er ekki seinna vænna fyrir ljóðelskandi ungmenni að skrá sig. Í lok námskeiðs er efnt til upplestrarfagnaðar og einnig eru gefnir út ljóðabæklingar sem þátttakendur fá til eignar.


Skráningin fer fram á netfanginu svikaskald@gmail.com.