• Steinunn Inga Óttarsdóttir

Öfugsnúin kona skoðar heiminn


Það er svo margt bogið við mig


Ég hef ákveðið að segja ekkert

Þú yrðir ólmur að liðsinna mér

ef þú bara vissir

en það er

fjandinn hafi það

skárra

að vera áfram undin og snúin

en að hrökkva í sundur

þegar við reynum

saman

að rétta úr mér


Arndís Þórarinsdóttir, Innræti 2020„Flest ljóðanna í Innræti eru í fyrstu persónu og er ljóðmælandinn í þeim flestum kona að því er virðist á svipuðu reki og Arndís sjálf en þó líka mjög ólík henni. Hún er til að mynda dökkhærð, hún er fasteignasali og hún étur kött, svo dæmi séu tekin. Og þessi kona þarf að íhuga margt um tilveru sína sem henni finnst oft á tíðum öfugsnúin og gera kröfur sem sumar eru ósanngjarnar, jafnvel heimskulegar.


Arndís segir að á ákveðnum tíma við samsetningu bókarinnar hafi henni virst eins og hér væru „raddir margra kvenna á ferð, heill kór,“ sem hafi verið henni ákveðinn léttir vegna þess að ljóðabækur séu öðruvísi en annar skáldskapur. „Þegar maður segir ég í ljóði er það merkingarþyngra en þegar maður segir ég í skáldsögu og mér fannst þetta óþægilegt því þarna eru á ferðinni ýmis viðhorf og reynsla sem ekki eru mín persónulega.“


Hugmyndin um hin fjölradda kór var hins vegar fljótt slegin út af borðinu því hér er í raun aðeins ein rödd á ferðinni, rödd konu sem skoðar heiminn og dregur sínar ályktanir af hversdagslegum atvikum, fyrirbærum og viðhorfum...“ (Jórunn Sigurðardóttir, viðtal við Arndísi á rúv)