• Helga Jónsdóttir

Öðruvísi dreki og hinsegin unglingadrama


Rut Guðnadóttir sló rækilega í gegn með sinni fyrstu bók, Vampírur, vesen og annað tilfallandi, en hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2020. Nú hefur Rut sent frá sér sjálfstætt framhald af þeirri bók sem ber titilinn Drekar, drama og annað í þeim dúr. Unglingsstúlkurnar Milla, Rakel og Lilja eru aftur mættar til leiks með sitt flókna tilfinningalíf og unglingadrama og aftur læðist hið yfirnáttúrulega inn í annars hversdagslegt líf þeirra.Í fyrri bókinni glímdu vinkonurnar við ógnvekjandi vampíru en að þessu sinni standa þær frammi fyrir dreka. Drekinn í sögunni er nokkuð óvenjulegur og á skjön við ævintýralega ímynd drekans sem mikilfenglegs og ógnvekjandi skrímslis. Þessi dreki er umkomulaus, lítill í sér og leiður en fyrir einskæra tilviljun finna stúlkurnar hann á starfsmannagangi Smáralindar af öllum stöðum. Raunar á sorgmæddi, vesæli drekinn sér fyrirmyndir í bókmenntasögunni en mér varð til að mynda hugsað til drekans með rauðu augun í samnefndri bók Astridar Lindgren. Sá dreki dúkkaði óvænt upp í sænskri svínastíu og var, líkt og drekinn sem vinkonurnar finna, augljóslega á röngum stað.Furðuspennusaga og vísindaskáldskapur


Vinkonurnar gera sér fljótt grein fyrir að sá sem kom drekanum fyrir í Smáralind hefur eitthvað verulega illt í hyggju því vængirnir hafa verið skornir af drekanum. Þær einsetja sér að koma hinu særða dýri til bjargar en það er ekki hlaupið að því fyrir unglingsstúlkur í foreldrahúsum að fela yfirnáttúrulegar verur. Þær bregða þá á það ráð að fara með drekann til stærðfræðikennara síns, Kjartans, en þær eiga inni hjá honum greiða eftir að hann horfði aðgerðarlaus upp á vampíru sýna þeim banatilræði í fyrri bókinni. Kjartan, sem er fullur iðrunar, fellst á að hýsa drekann í kjallaranum hjá sér og með þeim tekst mikil vinátta. Kjartan gefur drekanum hið óvirðulega nafn, Gúrkur, þar sem drekinn lítur ekki við kjöti en elskar gúrkusamlokur. Í raun spegla Kjartan og drekinn hvor annan því báðir eru þeir brotnar persónur, óöruggir með sig og kjánalegir í senn. Ljúf sambúð þessa undarlega tvíeykis varir þó ekki lengi því áður en langt um líður ryðjast útsendarar leynilegra samtaka inn á heimili Kjartans og nema Gúrk á brott. Síðar komast vinkonurnar að því að leynisamtökin nefnast Íslensk samtök verndunar og nafnskráningar dýra, sem skammstafa má VOND eða ÍS-VOND, og eru undir stjórn Marsibilar Frúnk. Starfssemi samtakanna er lesandanum nokkuð hulin og hin áhugaverða persóna Marsibil, sem er erkitýpa hins brjálaða vísindamans sem svífst einskis í þágu vísindanna, kemur ekki mikið við sögu. Hins vegar komast stúlkurnar á snoðir um undarlegar kynblöndunartilraunir sem Marsibil stendur fyrir en hennar nýjasta hugmynd er „að spæsa saman kaktus-genum við hunda til að búa til einhvers konar „brodd-úlfa“ í hernaðarskyni“ (215).Unglingadramað


Bókin er því öðrum þræði sambland af furðusögu, spennusögu og vísindaskáldskap en þó er sá þráður ekki beinlínis í forgrunni. Hversdagslíf vinkvennanna og hið hefðbundna unglingadrama er mun fyrirferðarmeira í bókinni og í raun líður oft langt á milli þess sem stúlkurnar svo mikið sem leiða hugann að drekanum og hinum illu samtökum sem hætta stafar af. Það eru enda flóknar tilfinningar sem bærast innra með þeim auk þess sem að samband þeirra virðist á köflum hanga á bláþræði.


Persónusköpunin er einn styrkleiki beggja bókanna en í hverjum kafla er sjónarhornið ýmist hjá Millu, Rakel eða Lilju og því fær lesandinn að skyggnast inn í vitund og hugarheim þeirra allra og kynnist þeim vel. Stelpurnar eru afar ólíkar innbyrðis: Milla er ofur metnaðarfull og yfirburðargreind (nema kannski á tilfinningar annarra), Rakel er aftur á móti töffarinn í hópnum sem þó á sínar viðkvæmu hliðar og loks er Lilja meðvirkur ofhugsari sem sannar hins vegar ítrekað að þegar á reynir er hún ansi úrræðagóð og hugrökkust þeirra allra. Allar glíma þær við óöryggið sem einkennir mótunartímabil unglingsáranna en þær þróast og þroskast eftir því sem líður á verkið og hið sama má segja um sambönd þeirra.Hinseginleiki


Eitt lykilþema í bókunum tveimur er hinseginleiki en sem dæmi á Lilja tvær mæður og í fyrri bókinni kemur Rakel út úr skápnum sem lesbía. Í kjölfarið byrja hún og Lilja saman en frá upphafi er Lilja örlítið tvístígandi (líkt og með flest). Í síðari bókinni verður Lilja aftur á móti hrifin af strák og hættir með Rakel en sambandsslitin leiða af sér áhugaverðar hugleiðingar um kynhneigð. Í fyrstu sakar Rakel Lilju um að hafa gert sér upp að vera hinsegin en síðar í sögunni áttar hún sig á að sennilega hafi ásökunin verið einhvers konar varnarviðbragð:


Það var svo miklu auðveldara að mála Lilju bara upp sem eina af þessum gellum sem þóttust vera tvíkynhneigðar til að fá athygli og láta það gott heita. Rakel hugsar sig um. Voru þannig stelpur algengar? Eða voru það fyrrverandi kærustur þeirra með brostin hjörtu sem óskuðu þess bara? (243244) 

Lilja finnur sjálf til mikillar togstreitu varðandi kynhneigð sína en hugsanir hennar endurspegla jafnframt óréttlát viðhorf til tvíkynhneigðra sem fela í sér efa um raunverulega tilvist kynhneigðarinnar:


Lilju finnst henni gjörsamlega hafa mistekist. Ekki bara gagnvart Rakel heldur Eiríki líka. Hann var ábyggilega ennþá ógeðslega sár út í hana, eða fannst hún ógeðsleg fyrir að hafa verið með stelpu. Átti strákum samt ekki að finnast það geðveikt heitt? Oj, eins og það að Lilja sé hrifin af stelpum sé einhvers konar sölutrix til að gabba til sín stráka. Það er ömurlegt að vera tvíkynhneigð, allir halda að þú sért að feika það til að fá athygli eða sért bara ekki komin almennilega út úr skápnum. Ef hún væri með Rakel hlyti hún að vera lessa í felum, og ef hún væri með Eiríki væri hún bara gagnkynhneigð stelpa að þykjast vera eitthvað töff. Það er eins og Lilja fái ekki að eiga kynhneigð sína í friði, hún skilgreinist út frá þeim sem hún er með.

    Lilja hrekkur allt í einu í kút, þetta er í fyrsta sinn sem hún notar orðið tvíkynhneigð til að lýsa sér sjálfri, þó það sé bara í eigin hugsunum. Hingað til hefur henni liðið eins og hún sé bara búin að vera að ljúga að öllum – ljúga að Rakel að hún sé hrifin af stelpum, ljúga að Eiríki að hún sé ekki hrifin af honum. En hún er í raun bara búin að vera að ljúga að sjálfri sér með því að reyna að sannfæra sig um að báðar tilfinningarnar geti ekki rúmast í sömu sálinni (251).

Á þessum tímapunkti gerir Lilja þá mikilvægu uppgötvun að hegðun hennar og langanir eru ekki mistök heldur eðlilegur partur af kynhneigð hennar og tilfinningalífi.


Ljóst er að Rut er afar næm á veruleika ungmenna og hefur ríkan skilning á tilfinningalífi þeirra. Það er því ákveðin hlýja sem einkennir bókina en í senn er hún uppfull af húmor. Textinn rennur vel og Rut fléttar áreynslulaust saman furðusöguna og raunsætt unglingadramað. Furðusagan hefði þó jafnvel mátt fá meira vægi í bókinni en hún vitnar um afar frjótt ímyndunarafl höfundar. Mig þyrsti til að mynda í að vita meira um starfssemi VOND en kannski er ekki öll von úti. Hver veit nema þeim þorsta verði svalað í næstu bók Rutar? Ævintýrum vinkvennanna virðist í það minnsta hvergi nærri lokið.