• Soffía Auður Birgisdóttir

Íslenskir kvenrithöfundar sigursælir

Evrópusambandið fjármagnar verkefni sem kallast Skapandi Evrópa sem ætlað er að heiðra "nýjustu og bestu upprennandi rithöfunda í Evrópu", vekja á þeim athygli og stuðla að þýðingum samtímabókmennta og dreifingu þeirra landa á milli. 41 ríki eru þátttakendur í þessu verkefni og er hópnum skipt í þrennt, þannig að þriðja hvert ár hljóta höfundar frá þeim löndum sem tilheyra hverjum hópi verðlaun.


Löndin tilnefna hvert fyrir sig nokkrar bækur (þriðja hvert ár) og í ár voru það skáldsögurnar Delluferðin eftir Sigrúnu Pálsdóttur, Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur, Strendingar eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur, Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson, en sú fyrstnefnda hlaut verðlaunin í ár.
Ísland hefur fjórum sinnum verið í pottinum og eru verðlaunahafarnir eftirfarandi: Ófeigur Sigurðsson (2011), Oddný Eir Ævarsdóttir (2014), Halldóra K. Thoroddsen (2017) og Sigrún Pálsdóttir (2021). Verðlaunaféð nemur 5000 evrum, auk þess sem opið er fyrir þýðingar-styrki til handa verðlaunaverkunum.


Hér má lesa nánar um Bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins.