- Guðrún Steinþórsdóttir
Ég dreg mörkin
Ljóð vikunnar er „Ég dreg mörkin“ eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Ljóðið birtist í þriðju ljóðabók skáldkonunnar; Stormviðvörun sem kom út árið 2015.
Kristín Svava er sagnfræðingur en hún hefur bæði sent frá sér ljóðabækur og fræðirit. Í fyrra fékk hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir ljóðabókina Hetjusögur og var einnig verðlaunuð í flokki fræðibóka og almenns eðlis ásamt Erlu Huldu Halldórsdóttur, Ragnheiði Kristjánsdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur fyrir Konur sem kjósa.

Ég dreg mörkin
Ég dreg mörkin við ofbeldi
ég dreg mörkin
við eignaspjöll
ég dreg mörkin
við fimm þúsund krónur
ég dreg mörkin
við milljón
ég dreg mörkin
við billjón
ég dreg mörkin
við foreldralaus partí
ég dreg mörkin
við Pólland
ég dreg mörkin
við sjósund
ég dreg mörkin
við þriðja betlarann
ég dreg mörkin
við slæður
ég dreg mörkin
við geitur
ég dreg mörkin
við bletti í lakinu
ég dreg mörkin
við drenginn með tárið
ég dreg mörkin
við 2004
ég dreg mörkin
við stólpípur
ég dreg mörkin
við sílikon
ég dreg mörkin
við súran hval
ég dreg mörkin
við dagdrykkju
við reykingar á meðgöngu
við það sem ógnað getur lýðheilsu
ég dreg mörkin
við Kana sem er hérna yfir helgi til að steggja vin sinn
ég dreg mörkin
þar sem mörkin hljóta að liggja
ég dreg mörkin
í hringi og slaufur
ég dreg mörkin
hér eru mörkin
ég dreg mörkin