• Guðrún Steinþórsdóttir

Álfrún Gunnlaugsdóttir látin


Rithöfundurinn og fræðikonan Álfrún Gunnlaugsdóttir er látin, 83 ára að aldri. Hún nam bókmenntafræði og heimspeki við háskóla á Spáni og í Sviss. Árið 1970 lauk hún doktorsprófi með ritgerð á spænsku um Tristan og Ísold. Ritgerðin kallast Tristán en el Norte og kom út hjá Stofnun Árna Magnússonar árið 1978 og var fyrir fáeinum árum endurútgefin á Spáni. Álfrún var lektor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 1971-77 en hún var fyrsta konan sem ráðin var í fasta stöðu hjá heimspekideild háskólans. Hún var dósent í sömu grein 1977-87 og prófessor frá 1988 til 2006 þegar hún lét af störfum.Eins og margar aðrar íslenskar skáldkonur kom Álfrún frekar seint fram á ritvöllinn en hún var 44 ára þegar hún sendi frá sér sitt fyrsta skáldverk; Af manna völdum. Tilbrigði við stef árið 1982. Það er álitamál hvort bókin sé smásagnasafn eða skáldsaga en í það minnsta er umfjöllun um vald og valdleysi, ótta og ofbeldi eins og rauður þráður í gegnum verkið. Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði ritdóm um bókina á sínum tíma en þar segir hún meðal annars:Viðfangsefni Álfrúnar eru hverjum manni viðkomandi. En þótt svo sé má næsta undarlegt heita að þau séu nýjung í íslenskum skáldskap. Það felst kannski í því að Álfrún hefur sig upp úr því sem kalla mætti íslenskan raunveruleika og gefur þannig sögunum víðtækara gildi. Hingað til hafa aðalviðfangsefni íslenskra rithöfunda nútímans, verið svokallaður íslenskur raunveruleiki. Álfrún hefur djúpa samúð með börnum og fullorðnum sem eiga við erfiðleika að glíma. En hvers konar valdbeiting er henni á móti skapi. Þessi fyrsta bók hennar er uppbyggð á mörgum sterkum punktum, s.s. viðfangsefni, stíl og frásagnartækni, sem saman mynda eina sérstæðustu og athyglisverðustu bók sem komið hefur út nú á seinni tímum.

Álfrún átti eftir að halda áfram að skrifa magnaðar, sérstakar og athyglisverðar bækur en samtals sendi hún frá sér átta skáldverk. Dvöl skáldkonunnar erlendis setti mark sitt á verk hennar en sögusvið bókanna skiptist gjarnan á milli Íslands og annarra landa Evrópu. Álfrún átti þátt í að endurnýja skáldsagnaformið hérlendis frá tímum módernisma til okkar daga en einkennandi fyrir verkin hennar eru margvíslegar tilraunir með form, frásagnarhátt og stíl. Tilraunirnar koma til dæmis fram í því að sögurnar fylgja ekki línulegum tíma. Eins og Soffía Auður bendir á í ritdómi um Hringsól (1987) reyndi Álfrún með frásagnaraðferð sinni að líkja á sannfærandi og persónulegan hátt eftir lífinu.


Skáldskapur Álfrúnar er úthugsaður, hvert orð er vandlega valið, og textinn er einatt ljóðrænn. Verk hennar krefjast virkrar þátttöku lesenda og er næsta víst að einn lestur dugir skammt; sögurnar eru svo margræðar og persónur flóknar og áhugaverðar að líklegt er að lesandi uppgötvi eitthvað nýtt í hverri lestrarheimsókn. Það var enda skoðun Álfrúnar að lesandinn ætti að skapa skáldverk með höfundi en í viðtali árið 2008 lét hún þessi orð falla: „Ég rígheld í það gamla viðhorf að lesandinn eigi að skapa skáldverkið að hluta. Og hafa visst frelsi til þess.“


Síðasta bókin sem Álfrún sendi frá sér var Fórnarleikar sem kom út árið 2016. Um hana skrifaði Steinunn Inga Óttarsdóttir ritdóm þar sem segir: „Fórnarleikar er bók þrungin djúpri visku, yfir henni svífur einhvers konar æðruleysi gagnvart örlögunum og boðskapur sögunnar á erindi við okkur öll sem lesendur og manneskjur.“ Þessi orð má yfirfæra á allan skáldskap Álfrúnar sem sífellt reyndi að vekja lesendur til umhugsunar með verkum sínum og gera þá meðvitaðri um mennskuna, lífið og tilveruna.


Álfrún hlaut fjölda tilnefninga og verðlauna fyrir skáldskap sinn. Hún fékk til að mynda bókmenntaverðlaun DV 1985 fyrir skáldsöguna Þel (1984). Þá voru skáldsögurnar Hringsól, Hvatt að rúnum (1993) og Yfir Ebrofljótið (2001) allar tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs en sú síðastnefnda var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2001 sem og skáldsagan Rán árið 2008.


Margt hefur verið skrifað um verk og feril Álfrúnar. Til dæmis má nefna að árið 2010 kom út greinasafnið Rúnir í ritstjórn Guðna Elíssonar en þar birta tíu bókmenntafræðingar rannsóknir sínar á skáldskap og fræðistörfum Álfrúnar. 2002 birti Soffía Auður yfirlitsgreinina „Mannkynssagan í formi samtímaskáldsagna“, í Tímariti Máls og menningar, um skáldskap Álfrúnar frá upphafi til Yfir Ebrofljótið og árið 2006 skrifaði Úlfhildur Dagsdóttir yfirlit um verk skáldkonunnar fyrir Bókmenntavefinn. Þá er einnig vert að minnast tveggja góðra og langra viðtala við Álfrúnu. Annars vegar viðtals Matthíasar Viðars Sæmundssonar sem birtist í bókinni Stríð og söngur (1985) og hins vegar viðtals Dagnýjar Kristjánsdóttur; Álfrún – hvött að rúnum; sem finna má í fyrsta hefti Tímarits Máls og menningar frá árinu 1994.


Álfrún hreppti Menningarverðlaun DV fyrir skáldsöguna Rán sem kom út árið 2008. Í viðtali af því tilefni ræddi hún um sköpun og þörfina fyrir að skrifa:Ég hef hrærst í heimi bókmennta lengi. Ég byrjaði að skrifa og svo ánetjaðist ég [] Mér finnst ég ekki lifa nema ég sé að skrifa. Skriftir eru eins og félagi manns. Þegar ég legg af stað, veit ég ekki hvert ég er að fara. Síðan verður verkið til og það myndast þessi félagsskapur og uppgötvun. Mér finnst það það skemmtilegasta við skriftir að uppgötva um sjálfa mig, heiminn – allt mögulegt. [] Það er fátt skemmtilegra en að skapa.

Orð Álfrúnar má allt eins hafa um upplifun lesenda verka hennar því einkar skemmtilegt er að sökkva sér ofan í sagnaheimana sem hún skapaði, ferðast þar um, kynnast nýjum persónum og í sömu mund uppgötva eitthvað um sjálfan sig og heiminn.


Álfrún var gerð að heiðursdoktor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 1. desember 2010 og hún var heiðruð með Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag til íslenskra bókmennta og kennslu bókmennta á háskólastigi 1. janúar 2018. Álfrún er einn af okkar mögnuðustu og mikilvægustu samtímarithöfundum og verður hennar sárt saknað. Skáld.is vottar aðstandendum Álfrúnar innilega samúð.