Valborg Bentsdóttir

Valborg Bentsdóttir er fædd 24. desember 1911 a Bíldudal og lést árið 1991 á heimili sínu í Reykjavík. Hún lauk kennaraprófi 1934, stundaði málanám hjá Námsflokkum Reykjavíkur, Málaskólanum Mimi, Alliance francaise og víðar og veturinn 1971-1972 stundaði hún nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Hún vann margvísleg störf, svo sem skrifstofu-, verslunar- og kennslustörf, en lengst af vann hún hjá Veðurstofu Islands við veðurathuganir, kortagerð, ritstjórn og sem skrifstofustjóri. Einnig gerði hún marga þætti fyrir útvarp.

Valborg annaðist fastan þátt í Ríkisútvarpinu, Hin gömlu kynni, á árunum 1974-79. Hún var varabæjarfulltrúi í Reykjavík 1958-62 og átti sæti í ýmsum opinberum nefndum. Hún var varaformaður Starfsmannafélags ríkisstofnana 1950-57 og tók þátt í störfum BSRB. Valborg var í miðnefnd Samtaka hernámsandstæðinga 1960-62. Hún var í stjórn Kvenréttingafélags Íslands og í framkvæmdanefnd kvennafrídagsins 24. október 1975.

Valborg giftist Eiríki Baldvinssyni frá Grenjum á Mýrum 1936. Þau skildu árið 1957.

Valborg var ein þeirra þriggja kvenna sem ritstýrðu og gáfu út tímaritið Emblu. Hún starfaði mikið að jafnættismálum og skrifað um þau greinar í blöð og flutt erindi í útvarp. Valborg byrjaði ung að skrifa. Fyrsta sagan sem birtist eftir hana á prenti var ,,Á gámlárskvöld", í skólablaði Kennaraskólans 1933. Þá sögu endurbætti hún seinna og sendi i verðlaunasamkeppni Þjóðviljans 1940, og hlaut sagan verðlaunin. Á fimmta áratugnum birtust svo smásögur eftir hana í Vikunni, Melkorku og Emblu, og síðan birtust öðru hverju sögur eftir hana í tímaritum.

Eftir Valborgu hefur aðeins komið út ein bók, Til þín, 1962. Þar eru 7 smásögur og 36 ljóð, bæði í hefðbundnu og frjálsu formi. Ljóðin eru öll ástarljóð til karlmanna og er bókin að því leyti einstök i sinni röð. Smásögurnar í bókinni skrifaði Valborg allar á sjötta áratugnum, utan eina sem skrifuð var 1942 og birtist i Emblu 1949. Þær eru allar haglega gerðar og bera ótvirætt listrænt yfirbragð. Valborg skrifar um ástina; gleðina og vonbrigðin sem henni fylgja. Mynd hennar af hjónabandinu er dökk; svik, niðurlæging og kuldi tengist því í nokkrum sagnanna.

Í minningargrein sinni um Valborgu segir Sigríður Hallgrímsdóttir eftirfarandi:
"Ritsmíðarnar urðu aldrei miklar að vöxtum, enda er það gömul og ný saga að konur með hæfileika og löngun til ritsmíða þurfa sífellt að láta þess konar sýsl sitja á hakanum. Lífsbaráttan, barnauppeldi og daglegt amstur gengur fyrir. Valborgu gramdist að hlutur skrifandi kvenna var og er oft fyrir borð borinn, eins og dæmin sanna, en hún lét ekki sitja við orðin tóm. Árið 1945 kom út fyrsta hefti "Emblu", ársrits er flutti eingöngu ritverk kvenna. Valborg var ásamt tveimur konum ritstjóri þessa rits, auk þess sem hún skrifaði í það. Stórhugurinn og skörungsskapurinn leyna sér ekki þegar ritinu er flett. Víðsýnir og fordómalausir ritstjórar söfnuðu saman á einn stað efni sem hver ritstjóri mætti enn þann dag í dag vera hreykinn af. Víst má telja að margt af því efni sem birtist í Emblu hefði annars glatast eða aldrei komið út á prenti. Valborg var þarna í fararbroddi og sýndi fordæmi til eftirbreytni. Ritið kom út a.m.k. þrisvar, en útgáfu var hætt vegna fjárhagsörðugleika "


Sögusköpun
,,Tveggja saga" birtist fyrst i Pennaslóðum, safni smásagna eftir konur sem Halldóra B. Björnsson ritstýrði og kom út 1959. Í sögunni fjallar Valborg um það hvernig saga verður til. Við fáum lýsingu á sama atburði frá tveimur sjónarhornum, ungur piltur og kona segja frá fundi sínum sumarkvöld eitt í Reykjvík. Ungi pilturinn skáldar upp rómantíska sögu af ástafundi við ókunna, dularfulla konu sem hann hittir af tilviljun i kirkjugarði. Konan segir svo frá sama atburði á ólikt raunsærri hátt, svo ljóst verður hvernig hinn hversdagslegasti atburður getur orðið að skáldskap með dálitlu hugarflugi og tilfærslum. Meðfram þessum söguþræði tekst höfundi að draga fram trúverðugar mannlýsingar á þessum tveimur persónum. Serstaklega góð er lýsingin á konunni sem, þrátt fyrir allt, hefði kannski viljað að úr hinum hversdagslega fundi yrði rómantískt ævintýri, eins og í sögu piltsins. Ef hún bara hefði haft rænu á að ,,bíta í eplið" eins og Eva!

Valborg Bentsdóttir

  • 1962 Til þín