SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Finnsdóttir

Steinunn Finnsdóttir í Höfn í Melasveit (ca 1640-ca 1710) er ein þeirra sem valda þáttaskilum í bókmenntum íslenskra kvenna, aðallega vegna þess að skáldskapur sem eftir hana liggur hefur ekki glatast heldur er mikill að vöxtum. Hyndlurímur hennar eru alls á fimmta hundrað vísur.Til eru eftir hana tvennar rímur, elstu rímur sem kunnar eru eftir konu, kappakvæði, allmargir vikivakar og fáeinar lausavísur.

Steinunnar er víða getið í þeirra tíma skáldatali og orð fór af kveðskap hennar meðan hún lifði. Á æskuárum sínum dvaldi hún fimm ár í Skálholti, líklega sem vinnustúlka, og fékk góð meðmæli frá Brynjólfi biskupi. Eiginmaður Steinunnar var Þorbjörn Eiríksson og áttu þau dótturina Guðrúnu. Síðast spurðist til Steinunnar þar sem hún er hjá dóttur sinni þegar manntal var tekið 1703. Guðrún var móðir Snorra á Húsafelli (1710-1803). 

Steinunn er sögð kát og skáldmælt og kemur gamansemi hennar skýrt fram í kveðskap hennar. Þekkt er samlíking hennar um karlinn sem vildi byggja sér skip og leggja undir sig heiminn en átti svo aðeins efnivið í negluna eina. Steinunn hafði gott vald á dýrum bragarháttum, var vel að sér í fornum fróðleik en hitt er ljóst að kveðskapur hennar er sama marki brenndur og annar skáldskapur samtíma hennar. Ægivald formsins veldur því að víða koma fyrir smíðagallar og orðgnóttin kæfir efnið.

Ekki var algengt að yrkja um íslenskar hetjur og út frá ævintýrum en það gerði Steinunn. Hún ávarpar bæði stúlkur og börn í mansöng í rímum sínum sem var óvanalegt á 17. öld. Kvæði Steinunnar eru ekki nýstárleg eða frábær en hún er verðugur fulltrúi sinnar aldar, kann skil á skáldskap og velur sér kvenleg yrkisefni.

Í formála að útgáfu rímna Steinunnar 1950 taldi Bjarni Vilhjálmsson að þær væru „sviplítill og tilþrifalaus skáldskapur, stórlýtalítill eða smáhnyttilegur, þegar bezt lætur, en á köflum lítt smekklegur leirburður.“ Sumir seinni fræðimenn hafa metið Steinunni meira og telur Bergljót Kristjánsdóttir (1996) að verk hennar marki þáttaskil í íslenskum rímnakveðskap - sérstaklega séu mansöngvar hennar frumlegir og jafnvel gæti þar samfélagsgagnrýni.

Heimildir:

Bergljót Kristjánsdóttir (1996). „Gunnlöð ekki gaf mér neitt / af geimsludrykknum forðum ...“ í Guðamjöður og Arnarleir, bls. 165-219.

Steinunn Finnsdóttir (Bjarni Vilhjálmsson bjó til prentunar) (1950). Rit Rímnafélagsins III: Hyndlu rímur og Snækóngs rímur. 

Guðrún P Helgadóttir (1995). Skáldkonur fyrri alda.


Ritaskrá

  • Hyndlu rímur
  • Snækóngs rímur
  • Vikivakakvæði, lausavísur og kvæði um íslenska fornkappa

Tengt efni