SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Laufey Valdimarsdóttir

Laufey Valdimarsdóttir fæddist 1. mars árið 1890. Hún var dóttir kvenréttindakonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Valdimars Ásmundssonar ritstjóra Fjallkonunnar. Laufey var fyrst kvenna til að gangast undir inntökupróf í Menntaskólann og lauk hún stúdentsprófi árið 1910 með fyrstu einkunn. Síðan fór hún til náms við Kaupmannahafnarháskóla og tók próf í heimspeki og lagði síðan stund á málanám í sex ár og lærði ensku, frönsku og latínu.

Laufey sneri aftur heim til Íslands árið 1917 og vann skrifstofustörf, fyrst í Landsversluninni og síðan Olíuverslun Íslands og vann hún fyrir sér á þann hátt til dauðadags. Hún kom á stofn Félagi afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum og var þar formaður um nokkurra ára skeið. Þessu samfara tók Laufey virkan þátt í kvenréttindabaráttunni við hlið móður sinnar. Árið 1927 tók hún síðan við formennsku af móður sinni í Kvenréttindafélagi Íslands og gegndi hún formennskunni til dauðadags.

Árið 1928 stofnaði Laufey Kvenstúdentafélag Íslands og sama ár var hún hvatamaður að stofnun Mæðrastyrksnefndar og gegndi hún þar formennsku allt fram að dánardægri. Árið 1935 tók hún þátt í stofnun Mæðrafélagsins sem vann að hvers konar réttarbótum fyrir mæður og börn og gegndi þar formennsku til ársins 1942. Laufey tók einnig mikinn þátt í stjórnmálum; fyrst með Alþýðuflokknum og átti hún um tíma sæti í framfærslunefnd Reykjavíkurbæjar sem fulltrúi hans. Þá var hún ein af stofnendum Sósíalistaflokksins og sat um skeið í miðstjórn hans.

Laufey skrifaði þó nokkrar greinar og einkum um félagsmál en einnig stóð hugur hennar til bókmennta og fagurfræða. Hún gaf t.d. út smáritið Svanasöngur á götu árið 1930 og einnig geyma hljómdiskarnir Tíu sönglög, Útvarpsperlur og Fagra veröld ljóð eftir Laufeyju við lög Sigfúsar Halldórssonar.

Laufey lést úr hjartasjúkdómi á gistihúsi í París 9. desember árið 1945 á leið sinni frá alþjóðaþingi kvenna í Genf en þaðan stefndi hún til Sviss þar sem gera átti á henni uppskurð. Laufey var ógift og barnlaus.

Eftir Laufeyju liggja ýmis rit, bæði í bundnu og óbundnu máli. Árið 1949 kom út bókin Úr blöðum Laufeyjar Valdimarsdóttur þar sem má lesa valin ljóð, þýðingar og greinar eftir Laufeyju. Bókin var gefin út af Menningar- og minningarsjóði kvenna og bjó Ólöf Nordal hana til prentunar og gerði Nína Tryggvadóttir teikningarnar.

Heimildir:

Upplýsingarnar um Laufeyju eru einkum sóttar í inngang Ólafar Nordal að ofangreindri bók: Úr blöðum Laufeyjar Valdimarsdóttur. 

 

Myndin er sótt á vefsíðu Kvennasögusafns Íslands.

 


Ritaskrá

  • 1949 Úr blöðum Laufeyjar Valdimarsdóttur
  • 1930 Svanasöngur á götu