Karítas Hrundar Pálsdóttir

Karítas Hrundar Pálsdóttir er fædd árið 1994. Hún er með BA-próf í íslensku með japönsku sem aukagrein frá Háskóla Íslands og MA-próf í ritlist frá sama skóla. Hún hefur búið í lengri og skemmri tíma í Danmörku, Bandaríkjunum, Japan og á Spáni. Karítas hefur jafnframt komið að kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands og íslensku sem erlends máls við Waseda háskóla í Tókýó.

 

Örsagnasafnið Árstíðir – sögur á einföldu máli er fyrsta bók Karítasar. Hún kom út hjá Unu útgáfuhúsi í janúar 2020. Verkið samanstendur af 101 örsögu og fjalla sögurnar um siði og venjur á Íslandi. Safnið er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þar sem sögurnar eru allar skrifaðar sérstaklega fyrir lesendur með íslensku sem annað mál (á getustigi A2 til B1 samkvæmt Evrópurammanum). Smásagnasafnið Það er alltaf eitthvað, sem Una útgáfuhús gaf út árið 2019, inniheldur einnig þrjár sögur eftir Karítas. Auk þess hafa sögur eftir hana birst í tímaritum á borð við Tímarit máls og menningar.

Karítas Hrundar Pálsdóttir

    • 2020 Árstíðir – sögur á einföldu máli
    • 2019 Það er alltaf eitthvað (ásamt ellefu öðrum höfundum)