SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Arnfríður Sigurgeirsdóttir

Arnfríður Sigurgeirsdóttir er fædd 1. ágúst 1880 á Arnarvatni í Mývatnssveit.

Um tvítugsaldur var hún tvö ár á Akureyri, en vann annars fyrir sér sem vinnukona í Mývatnssveit, m.a. á Helluvaði. Árið 1911 giftist hún Þorláki Jónssyni og hófu þau búskap á Skútustöðum. Þau eignuðust fjögur börn. Arnfríður missti mann sinn árið 1930, en hélt áfram búskap með börnum sínum. Hún lést á Skútustöðum 8. mars 1954.

Arnfríður átti þess ekki kost að ganga í skóla. Hún var sjálfmenntuð og las mikið af bókmenntum, bæði á íslensku og norðurlandamálum. Hún tók mikinn þátt í félagsstörfum sveitar sinnar, einkum þeim sem lutu að kvenréttindamálum. Hún fór snemma að yrkja, en fór leynt með. Þó birti hún stöku sinnum ljóð og ritgerðir eftir sig í blöðum og tímaritum undir nafninu „Fríða“. Einnig birtust ljóð eftir hana í Það mælti mín móðir (1936) og Þingeyskum ljóðum (1940). Eina bók Arnfríðar, Séð að heiman, kom út árið 1952 að hvatningu vina hennar. Hefur hún að geyma minningar, sagnaþætti og ljóð.  

Textinn er tekinn orðréttur frá Helgu Kress:

Helga Kress. 2001. „Arnfríður Sigurgeirsdóttir 1880-1854“, bls. 198. Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur.  Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.

Myndin af Arnfríði er fengin af síðu Ritskinnu, sjá hér.


Ritaskrá

  • 1952 Séð að heiman