Aðalheiður Sigurbjörnsdóttir

Aðalheiður Sigurbjörnsdóttir er fædd árið 1956. Hún ólst upp í Vogunum og vann mörg störf til bæði sjós og lands. Hún rak síðan fyrirtæki í Svíþjóð um skeið en undi sér illa og flutti aftur heim til Íslands. Aðalheiður gekk með skáldið í maganum frá barnsaldri en hún var komin vel yfir tvítugt þegar hún byrjaði að skrifa. Ljóð Aðalheiðar eru mjög persónuleg og geyma m.a. sára reynslu hennar og upplifun; hún þurfti að láta dóttur sína frá sér og bróðir hennar féll fyrir eigin hendi þegar hún var 26 ára gömul, þá orti hún eftirfarandi ljóð:

 

Minning tvö

 

Þú slóst mig

með spýtu

í lærið

stærri marblett hafði ég

aldrei séð

 

við vorum ung

 

upp úr þurru kastaðir þú

eldspýtustokk

í nefið á mér

 

við vorum ung

og enn vorum við ung

 

þegar fréttin kom

 

Risavaxinn fótur

af himnum ofan

klauf húsþak mitt

 

þeytti mér um koll

 

og traðkaði

 

Ljóðið birtist í ljóðabókinni Silfurstrá sem Skákprent gat út árið 1990. Bókin geymir 35 ljóð og segir Silja Aðalsteinsdóttir á bókarkápu að þau geymi tíu ára hugsun, alúð og puð. 14 ár líða þar til Aðalheiður sendir frá sér annað verk en það er smásagnasafnið Hugleikar sem hún gaf út sjálf. Í fréttatilkynningu á mbl.is kemur fram að sögurnar séu um reynsluheim kvenna, allt frá barnsaldri til fullorðinsára, og geymi bæði gleði og alvöru. Þá séu þær ekki síður siðferðilegs eðlis og fjalli t.d. síðasta frásögnin um átök konu við félagslega- og geðheilbrigðiskerfið.

 

Heimildir:

  • „Að elska er að gefa frelsi.“ (20. júní 1991). Pressan. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3534440
  • „Hugleikar er eftir Aðalheiði Sigurbjörnsdóttur.“ (23. desember 2004). Mbl.is. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/836243/

 

Aðalheiður Sigurbjörnsdóttir

    • 2004 Hugleikar
    • 1990 Silfurstrá