SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ágústína Jónsdóttir

Ágústína Jónsdóttir fæddist 4. maí 1949 í Reykjavík. Hún útskrifaðist sem snyrtifræðingur 1968 og leikskólakennari frá Fósturskóla Íslands 1976. Árið 1991 lauk hún B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands. Ágústína kenndi við Hjallaskóla í Kópavogi.

Fyrsta ljóðabók hennar, Að baki mánans, kom út 1994 og síðan hefur hún sent frá sér fjórar ljóðabækur. Hún á ennfremur valin ljóð, ásamt tveimur öðrum íslenskum skáldkonum, í bókinni Ljósar hendur sem út kom 1996. Ágústína hefur einnig fengist við myndlist og tekið þátt í útlitshönnun bóka sinna og á meðal annars heiðurinn af útliti bókarinnar Lífakur sem tilnefnd var til bókmenntaverðlauna DV 1997.

Í ljóðunum sækir Ágústína í fegurð náttúrunnar og listarinnar; hún vísar í goðsögur og trúarbrögð auk þess sem tónskáld og málarar sögunnar bregður víða fyrir í ljóðunum. Sigríður Albertsdóttir hefur bent á að ástin og allt hið fagra henni tengt sé miðlægt þema í bókum Ágústínu en þá ekki eingöngu ástin á milli karls og konu heldur jafnframt ástin á lífinu sjálfu og öllu sem það hefur upp á að bjóða. Í sömu mund sé skáldkonan þó órög við að takast á við erfiðari hliðar mannlísins eins og söknuð, glataða ást, forboðna og jafnvel svikula.

Ágústína nýtir gjarnan fallegt myndmál til að koma ákveðnum tilfinningum á framfæri og oft sækir hún líkingar í heim náttúrunnar. Þótt yrkisefni hennar séu svipuð á milli ljóðabóka má þó greina ákveðna þróun í efnistökunum því treginn sem gegndi stóri hlutverki í upphafi víkur smátt og smátt fyrir kæti og léttleika.

Ágústína er búsett í Reykjavík.

 

Heimild

Sigríður Albertsdóttir hefur skrifað um ljóðagerð Ágústínu en grein hennar má nálgast hér á Skáld.is.


Ritaskrá

  • 2014 Sólstöðuland
  • 2000 Vorflauta
  • 1997 Lífakur
  • 1996 Ljósar hendur: þrjár íslenskar skáldkonur svífa sólgeislavængjum
  • 1995 Snjóbirta
  • 1995 Sónata
  • 1994 Að baki mánans

Verðlaun og viðurkenningar

  • Ferðastyrkur úr Launasjóði rithöfunda 1996
  • Starfslaun listamanna úr Launasjóði rithöfunda 1997
  • Starfslaun listamanna úr Launasjóði rithöfunda 1998
  • Tilnefnd til menningarverðlauna DV í bókmenntun 1998
  • Styrkur úr Bókasafnssjóði höfunda 1999
  • Starfslaun listamanna úr Launasjóði rithöfunda 2004,
  • Starfslaun listamanna úr Launasjóði rithöfunda 2005

Heimasíða

www.agustina.is

Tengt efni