SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir22. febrúar 2022

SKÁLDSYSTUR

Nýverið voru tíndar til skáldmæðgur í Skáldatalinu okkar og kom fjöldi þeirra skemmtilega á óvart. Nú verða skoðaðar skáldsystur sem er ekki síður áhugavert viðfangsefni en þær reynast einnig þónokkrar. Það er síðan efni í aðra rannsókn að bera saman möguleg líkindi systra og mæðgna í efnistökum og stíl.
 
Hér verða nefndar nokkrar skáldsystur en þær eru sjálfsagt fleiri:
 
 
 
Auður Þórhallsdóttir (f. 1974) hefur sent frá sér fjórar barnabækur. Síðast kom út Miðbæjarrottan: borgarsaga árið 2020 en hún fékk útgáfustyrk frá Auði barna- og ungmennabókasjóði. Systir hennar er Birta Þórhallsdóttir (f. 1989) en hún aðstoðar köttinn Skriðu við samnefnda bókaútgáfu á Hvammstanga og hefur sent frá sér 
eitt verk, örsagnasafnið Einsamræður árið 2019.
 
 
 
Ásdís Thoroddsen (f. 1959) hefur skrifað fjölda kvikmyndahandrita og leikrita ásamt því að leikstýra þeim. Þá hefur hún sent frá sér eina skáldsögu, Utan þjónustusvæðis, króniku árið 2016. Systir hennar var Halldóra Thoroddsen (1950-2020) en eftir hana liggja ljóðabækur, örsögu- og smásagnasöfn og skáldsögur. Ljóðabók Halldóru Tvöfalt gler (2016) hlaut bæði Fjöruverðlaunin og bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins.

 

 

 

Ásta Björk Sveinbjörnsdóttir (f. 1952) hefur skrifað bæði ljóð og smásögur og sent frá sér tvær ljóðabækur. Sú fyrri heitir Sonur (2013 ) en þar fjallar hún um missi sonar síns og sú seinni Ísblá birta (2020). Systir Ástu er Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir en hún hefur fengist við ljóðagerð frá unga aldri. Hún sendi frá sér heimildaskáldsaga hennar Aldrei nema kona árið 2020 en þar fylgir hún þremur ættliðum kvenna í Skagafirði.
 
 
 
Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) hefur sent frá sér ljóð, sögur, skáldsögur og fjölda leikrita sem sett hafa verið upp hér á landi. Elísabet sendi síðast frá sér skáldsöguna Aprílsólarkulda (2020) sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin. Hálfsystir Elísabetar er Unnur Jökulsdóttir (f. 1955) en hún sendi fyrst frá sér Kríubækurnar sem urðu metsölubækur. Síðast sendi hún frá sér Undur Mývatns (2017) sem hlaut bæði verðlaun og viðurkenningar.
 

 

 

Fríða Á Sigurðardóttir (1940-2010) skrifaði bæði smásögur og skáldsögur auk þess að fást við þýðingar. Skáldsagan Meðan nóttin líður (1990), hlaut bæði Íslensku bókmenntaverðlaunin og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Systir hennar, Jakobína Sigurðardóttir (1918-1994), skrifaði ljóð, smásögur og skáldsögur. Hún var í tvígang tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir skáldsögurnar Dægurvísu (1965) og Lifandi vatnið - - - (1974).
 
 
 


Halldóra B. Björnsson (1907-1968) fékkst talsvert við ritstörf en síðasta verk hennar er Þyrill vakir sem kom út árið 1986 og síðasta þýðingin sem hún sendi frá sér er Bjólfskviða sem kom út árið 1983. Systir hennar var Sigíður Beinteinsdóttir (1912-2008) var systir Halldóru. Hún sendi frá sér tvær ljóðabækur, Komið af fjöllum árið 1984 og Um fjöll og dali árið 1990. Einnig kom út bókin Raddir dalsins árið 1993 sem hefur að geyma ljóð eftir öll systkinin frá Grafardal.

 
 

 

Helga Helgadóttir hefur sent frá sér fjögur skáldverk, bæði fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hennar kom út árið 2015 og nefnist Dóttir veðurguðsins. Árið 2020 kom út Hótel Anita Ekberg sem hún skrifaði ásamt systur sinni Steinunni G. Helgadóttur. Steinunn hefur sent frá bæði ljóð og laust mál. Fyrst sendi hún frá sér ljóðabókina Kafbátakórinn, árið 2011 og nú síðast fyrrnefnda skáldsögu í samstarfi við systur sína og Siggu Björgu Sigurðardóttur.
 
 
 

Tvíburasysturnar Herdís (1858-1939) og Ólína (1858-1935) Andrésdætur eru nefndar hér í sömu andrá því þær gáfu verk sín út saman. Systurnar urðu á efri árum þjóðkunnar fyrir kvæði sín, fróðleik og frásagnir. Árið 1924 gáfu þær út Ljóðmæli á eigin kostnað, og aðra útgáfu aukna 1930. Að þeim látnum safnaði dóttursonur Herdísar, séra Jón Thorarensen, óbirtum kvæðum þeirra saman. Voru þau prentuð í þriðju útgáfu ljóðmælanna sem kom út stóraukin árið 1976.

 
 

Iðunn Steinsdóttir (f. 1940) hefur sent frá sér fjölda barnabóka, allt frá árinu 1982, og hlotið fjölda verðlauna. Prakkararnir Snuðra og Tuðra eru m.a. úr smiðju hennar. Þá hefur hún fengist við þýðingar og skrifað sjónvarpshandrit, námsefni og söngtexta - og einnig leikrit í samstarfi við systur sína, Kristínu Steinsdóttur (f. 1946). Kristín hefur sent frá sér skáldverk fyrir bæði börn og fullorðna, kennsluefni og kvikmyndahandrit auk þess að leggja stund á þýðingar. Fyrsta verk hennar Franskbrauð með sultu (1987) hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin og hefur hún hlotið fjölda verðlauna síðan.

 

Júlía Einarsdóttir (f. 1987) hefur sent frá sér ljóð, smásögur og mislangar skáldsögur. Fyrsta verk hennar sem kom út var Skálmöld, leikgerð fyrir verk sett upp í Landnámssetrinu (2015) og nú síðast sendi hún frá sér skáldsöguna Guð leitar að Salóme (2021). Systir Júlíu er Kamilla Einarsdóttir (f. 1979) en hún hefur sent frá sér þrjú verk og þ.á.m. Kópavogskróníku (2018) sem rataði á fjalir Þjóðleikhússins árið 2020. Í fyrra kom út skáldsagan Tilfinningar eru fyrir aumingja sem var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
 
 
Málfríður Einarsdóttir (1899-1983) skrifaði ljóð, sögur og fékkst við þýðingar. Þá birtist ýmislegt eftir hana undir dulnefninu Fríða Einars. Fyrsta verk hennar, Samastaður í tilverunni, er eins konar endurminningabók (1977) sem kom út þegar Málfríður var 78 ára. Sagan var fyrir skemmstu kvöldsagan á rás 1Systir Málfríðar var Sigríður Einars frá Munaðarnesi ( 1893-1973). Hún orti einkum ljóð en fékkst einnig við smásagnaskrif og þýðingar. Hún sendi frá sér fjórar ljóðabækur; sú fyrsta kom út árið 1930, Kveður í runni, en næsta ekki fyrr en 26 árum síðar.
Talið er að slæmar móttökur fyrstu bókar Sigríðar hafi átt sinn þátt í því hversu langur tími leið þarna á milli, því hún fékk engin ritlaun þrátt fyrir að bókin seldist upp. Því þykir við hæfi að enda þessa samantekt á ljóði úr bók Sigríðar þar sem hún var með þeim fyrstu til að senda frá sér órímuð ljóð og er einkum minnst fyrir það. Það mætti þó gera henni hærra undir höfði.
 
Nótt

Loftið er eins og hlý og mjúk dúnsæng. Það er rökkvað. Andardráttur þinn þýtur eins og heitur vindur gegnum hárið mitt. Rósin í vasanum á borðinu er bleik, hún springur út í nótt. Djúpum ilmi andar yfir okkur bæði.
   Húsið stendur undir háu fjalli. Það er komið haust. Blöðin á trjánum í garðinum snerta rúðurnar. Jörðin sefur í myrkrinu og himinninn færist nær. Það dimmir. Inni i húsinu okkar er þögn. Eilífðin hlustar í myrkrinu. Sálir okkar verða að hvítum dúfum, sem fljúga út í geiminn, þar er hvorki ljós eða myrkur og við fljúgum á tveimur vængjum og vængjatökin eru eins og heitur andardráttur.
   Jörðin er helfrosin langan vetur. Snjórinn leggst yfir grösin og blómin, þau visna, svo kemur vor og nýtt líf fæðist. Hiti sólarinnar leysir fræ og frjóanga úr læðingi. Þeir springa út og verða gras.
   Augnablikin þjóta inn í eilífðina. Eilífðin rís upp af dimmri nótt.

(Kveður í runni, 1930)