SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir18. febrúar 2022

SKÁLDMÆÐGUR

Ritlistin virðist vera sumum í blóð borin og erfast konu fram af konu. Þegar að er gáð eru býsna mörg dæmi þess að skáldkonur ali af sér skáldkonur, líkt og berlega má sjá af Skáldatalinu okkar.
 
Hér verða nefndar nokkrar mæðgur og væri gaman að fá vitneskju um fleiri, ef einhver lumar á slíkum upplýsingum:
 
 
Arndís Lóa Magnúsdóttir (f. 1994) hefur sent frá sér eina ljóðabók og eina þýðingu, Samþykki eftir Vanessu Springora, sem hún vann í samstarfi við Guðrúnu Vilmundardóttur og kom út í fyrra. Móðir Arndísar Lóu er Auður Ava Ólafsdóttir (f. 1958) sem hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og leikverk. Mæðgurnar sendu báðar frá sér verk síðast árið 2020; Arndís Lóa ljóðabókina Taugaboð á háspennulínu og Auður Ava skáldsöguna Dýralíf.
 
 

Elísabet Jökulsdóttir (f. 1958) er afkastamikill höfundur. Hún hefur sent frá sér fjölda verka, ljóð, skáldsögur og leikrit, og er þessa dagana verið að sýna verk hennar Blóðugu kanínuna í Tjarnarbíó. Móðir hennar Jóhanna Kristjónsdóttir (1940-2017) skrifaði skáldsögur, ljóð  og sjálfsævisögur og fékkst að auki við þýðingar. Hún sendi síðast frá sér Svarthvíta daga árið 2014.

 

 

 

Eyrún Ósk Jónsdóttir (f. 1981) hefur sent frá sér fjölda verka, ljóð, leikrit og skáldsögur. Árið 1997 kom út fyrsta verk Eyrúnar Óskar, ljóðabókin Gjöf sem sömuleiðis var fyrsta verk móður hennar Eyglóar Jónsdóttur (f. 1957). Þær eru samstíga mæðgurnar því báðar sendu þær frá sér verk á síðasta ári. Verk Eyrúnar Ósk nefnist Í svartnættinu miðju skín ljós og verk Eyglóar heitir Sóley og töfrasverðið.

 

 
Kristín Eiríksdóttir (f. 1981) hefur skrifað ljóð, smásögur, skáldsögur og leikrit. Hún sendi síðast frá sér ljóðabókina Kærastinn er rjóður árið 2019 en hún á móðurina Ingibjörgu Haraldsdóttur (1942-2016) sem var bæði skáldkona og mikilvirkur þýðandi. Hún gaf út sjö ljóðabækur, þar af tvær safnbækur, og þýddi talsvert af rússneskum bókmenntum á borð við Fjodor Dostojevskíj og Mikhaíl Bugakov. Þá er María Ramos (f. 1998) barnabarn Ingibjargar en hún hefur sent frá sér tvær ljóðabækur, Salt árið 2018 og Havana árið 2020.
 
 

 

Magnea Matthíasdóttir (f. 1953) hefur bæði sent frá sér bæði frumsamið efni og þýðingar. Hún sendi m.a. frá sér þríleikinn Hægara pælt en kýlt 1978, Göturæsiskandídatar 1979 og Sætir strákar 1981 sem vöktu mikla athygli. Móðir hennar Ingibjörg Jónsdóttir (1933-1986) var afkastamikill höfundur og þýðandi; hún þýddi t.d. fyrstu þrjátíu bækurnar í hinni sívinsælu ritröð um Ísfólkið eftir Margit Sandemo. 

 

Salka Guðmundsdóttir (f. 1981) hefur skrifað tvö leikrit, hið fyrra kom  út árið 2011 og nefnist Súldarsker og það síðara kom út árið 2013 og nefnist Hættuför í Huliðsdal. Móðir hennar Olga Guðrún Árnadóttir (f. 1953) hefur samið ljóð, leikrit og smásögur auk þess að frumsemja lög og texta ásamt því að flytja tónlist. Hún sendi m.a. frá sér bókina Búrið árið 1977 sem hefur verið kölluð fyrsta unglingabókin.

 
 
 

Sunna Dís Másdóttir (f. 1983) er ein af Svikaskáldum en þau gáfu út á  íðasta ári skáldsöguna Olíu. Móðir hennar er Draumey Aradóttir (f. 1960) en hún hefur skrifað bæði sögur og ljóð auk þess að leggja stund á þýðingar. Hún sendi síðast frá sér þýðingu á verki eftir Jonas Gardell. Þerraðu aldrei tár án hanska - 2 Sjúkdómurinn, sem kom út árið 2013.

 

 

Védís Leifsdóttir (1965-1993) sendi einungis frá sér lítið ljóðahefti, og er ártal ekki vitað, en ljóð hennar voru tekin saman á bók og seld til styrktar fólki með alnæmi. Bókin heitir Tímaspor og kom út árið sem Védís lést. Móðir hennar Guðrún Svava Svavarsdóttir (f. 1944) hefur einnig sent frá sér eina ljóðabók, Þegar þú ert ekki, sem kom út 1982. Hún hefur einnig fengist nokkuð við þýðingastarf.

 

 
 

Þóra Elfa Björnsson (f. 1939) hefur skrifað bæði sögur og ljóð auk þess að fást talsvert við þýðingar. Nefna má að hún er fyrsti kvensetjarinn á landinu. Þóra Elfa sendi síðast frá sér verkið Þvílík eru orðabilin árið 2020. Móðir hennar Halldóra B. Björnsson (1907-1968) fékkst talsvert við ritstörf en síðasta verk hennar er Þyrill vakir og kom út árið 1986 og síðasta þýðingin sem hún sendi frá sér er Bjólfskviða sem kom út árið 1983.

 

 
Þórunn Jarla Valdimarsdóttir (f. 1954) er afkastamikil skáldkona og sagnfræðingur. Hún hefur sent frá sér skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur og sagnfræðirit. Í fyrra kom út bókin Bærinn brennur: Síðasta aftakan á Íslandi á síðasta ári. Móðir Þórunnar Jörlu, Erla Þórdís Jónsdóttir (1929-1987), sendi frá sér tvö verk, annars vegar bókina Bernsku í byrjun aldar sem kom út árið 1951 og hins vegar ljóðabókina Maldað í móinn sem kom út árið 1985.