SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 3. janúar 2018

Einfaldlega spennandi

Gatið er nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur en hún barst með jólabókaflóðinu í flestar verslanir í lok síðasta árs. Yrsa hefur verið kölluð drottning glæpasagnanna og ekki að ósekju því hún er einn söluhæsti höfundur Íslands. Yrsa hefur fengist við glæpasagnaformið allt frá árinu 2005 þegar Þriðja táknið kom út. Það reyndist farsæl frumraun og stendur nú til á vordögum að framleiða sjónvarpsþáttaröð byggða á þessari fyrstu glæpasögu Yrsu.

Frá árinu 2005 hefur Yrsa sent frá sér eina glæpasögu á ári og síðastliðin ár hefur hún vermt efstu sæti metsölulistanna. Metsölulistar og vinsældir eru þó ekki sjálfkrafa einhver gæðastimpill á bækur. Því fer fjarri og leikur grunur á að sumt sem þangað hefur ratað eigi það fyrst og fremst árangursríkri auglýsingaherferð að þakka.

Um aldamótin áttu nær eingöngu karlkynshöfundar glæpasagnasviðið. Menn eins og Arnaldur Indriðason, Viktor Arnar Ingólfsson og Árni Þórarinsson voru þar einna fyrirferðamestir. Á þessu verður breyting þegar Yrsa fer að láta að sér kveða og æ fleiri kvenskynsrithöfundar hafa síðan arkað út á þennan blóðuga völl, á borð við Lilju Sigurðardóttur, Guðrúnu Guðlaugsdóttur og Sólveigu Pálsdóttur. Þessu samfara hefur þreytulegi og þunglyndi, miðaldra lögreglumaðurinn þurft að víkja fyrir fjölbreyttari flóru söguhetja. Í því efni er Lilja einna frumlegust þar sem aðalsöguhetja nýjustu bóka hennar er samkynhneigt glæpakvendi.

Aðalsöguhetjur Gatsins eru Huldar lögreglumaður og Freyja barnaverndarstarfsmaður en þetta er fjórða bókin þar sem þau koma við sögu. Hinar sögurnar eru Aflausn, Sogið og DNA en DNA var bæði valin besta íslenska glæpasagan árið 2014 og besta glæpasagan í Danmörku árið 2016. Málum er þá jafnan þannig háttað að börn koma við sögu í lögreglumáli sem leiðir þessar tvær aðalpersónur, Huldar og Freyju, saman. Svo er einnig í pottinn búið í Gatinu. Maður finnst hengdur í Gálgahrauni og skömmu síðar er tilkynnt um fjögurra ára gamlan dreng sem dvelur aleinn í ókunnugri íbúð. Foreldrar drengins eru horfnir og vinir hins hengda eiga sér leyndarmál sem þolir ekki dagsljósið.

Persónusköpun Yrsu er æði misjöfn og ber talsvert á staðalmyndum. Til dæmis er starfsfólkið á lögreglustöðinni málað talsvert svart-hvítum litum; þar er tilfinningaskerta hörkutólkið, hálfvitinn, bókaormurinn, homminn og loks kvennabósinn Huldar. Fórnarlambið og vinir hans eru sömuleiðis heldur einfaldar manngerðir. Þeir eru búnir að vera vinir frá því í barnaskóla en á þeim árum voru þeir óspennandi nördar sem engin stúlka leit við. Þeir komast þó allir í álnir; einn verður forríkur fjárfestir, annar tannlæknir, þriðji vinnur hjá Seðlabankanum, sá fjórði hjá utanríkisráðuneytinu og fimmti hjá fjármálafyrirtæki. Jakkaklæddir menn á uppleið sem hætta þó starfsheiðri og fjölskyldu fyrir fyrrnefnt leyndarmál sem mun kollvarpa öllu ef upp kemst. Freyja er líklega flóknasta persónan í sögunni; hún tengist bæði heimi laga og glæpa. Sömuleiðis er tilfinningalíf hennar flóknara en annarra sem koma við sögu eins og sést í því hversu tvístígandi hún er í samskiptum sínum við Huldar.

Eitt helsta aðalsmerki Yrsu er spennandi frásögn. Þar tekst henni jafnan vel upp og er Gatið engin undantekning þar á, nema síður sé. Yrsu hefur þó stundum verið legið á hálsi fyrir að skrifa langdregna texta og á það sumpart við hér. Sumir kaflar hefðu mátt vera aðeins styttri í annan endann, einkum framan af sögunni því hún var heldur lengi af stað, en það kom þó ekki mjög að sök. Það var erfitt að leggja frá sér bókina; textinn rennur vel, plottið er gott og útpælt og endirinn kemur skemmtilega á óvart. Þá er ekki laust við að meira sé af húmor í þessari bók en oft áður og er það vel. Það eykur á skemmtunina við lesturinn. Yrsa hefur látið samskiptamiðla koma nokkuð við sögu í síðustu bókum sínum. Þar er hún með puttann á púlsinum og er vel heima. Hér ferst henni það sömuleiðis vel úr hendi og leysir á mjög trúverðugan hátt.

Gatið eftir Yrsu er bók sem óhætt er að mæla með. Hún heldur lesandanum föstum við lesturinn, býður upp á býsna góða fléttu og er hin besta skemmtun. Yrsa er óumdeild drottning glæpasagnanna, með nokkrar prinsessur á hælunum.

Frekari upplýsingar um Yrsu Sigurðardóttur má nálgast í Skáldatalinu.