SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Gróa Finnsdóttir

Gróa Finnsdóttir er fædd 12. ágúst 1951 að Gufuá í Borgarhreppi. Þar ólst hún upp til 13 ára aldurs en þá fluttist hún í Borgarnes þar sem hún bjó næstu fimm árin. Úr Borgarnesi lá leiðin til Reykjavíkur þar sem Gróa vann við ýmis störf, m.a. á skrifstofu Stálsmiðjunnar, í Verslunarbankanum og enn seinna í Búnaðarbankanum. Einnig starfaði hún á Bókasafni Hafnarfjarðar í sex ár. Eftir viðkomu í Svíþjóð fluttist Gróa aftur til Íslands og lauk BA-gráðu bæði í bókasafns- og upplýsingafræði og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Í 33 ár vann hún sem yfirmaður rannsóknabókasafns Þjóðminjasafnsins en hún lét þar af störfum 2021 vegna aldurs.  

Gróa hefur sinnt ýmiskonar verkefnum meðal annars fyrir Rithöfundasamband Íslands, Kulturhuset í Stokkhólmi og Mannréttindaskrifstofu Íslands. Þá hefur hún unnið nokkur skráningarverkefni til dæmis fyrir Bókasafn kaþólska safnaðarins í Hafnarfirði og Árbæjarsafn auk þess sem hún hefur skráð einkabókasöfn. Gróa hefur setið í stjórn ARLIS/Norden (Art Libraries Society á Norðurlöndum sem er hluti af IFLA) í um 10 ár og unnið þar ýmis störf, meðal annars við vefsíðugerð, útgáfu og skrif í fagtímarit félagsins.

Gróa hefur lengi fengist við að semja ljóð og sögur. Sum ljóðanna hafa birst í blöðum til að mynda í Tímariti Máls og menningar og Bókasafninu. Þá á hún tvær smásögur í bókinni Jólasögur sem kom út árið 2015. Gróa hefur einnig skrifað fjölda greina, einkum um bókasafnsmál.

Fyrsta skáldsaga Gróu, Hylurinn, kom út árið 2021. Sagan er bæði dramatísk og spennandi enda hverfist framvinda bókarinnar um glæpi þótt ekki sé um hreinræktaða glæpasögu að ræða.

Gróa er gift og á þrjú börn.


Ritaskrá

2021 Hylurinn

2015 Jólasögur, ásamt öðrum.  

Tengt efni