SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir29. mars 2024

STÓR ÖRLÖG - Um Sálumessu

Í dag erum við í messustuði. Í nóvember 2018 var fluttur dramatískur pistil um Sálumessu Gerðar Kristnýjar í Víðsjá. Hér má bæði hlusta (smelltu á myndina til að fara á vef rúv) og lesa. Í pistilinum hljóma brot úr Sálumessu Mozarts.

Sálumessa er gamalkunnugt fyrirbæri úr kaþólsku allt frá 14. öld og reis líklega hæst í Evrópu á þeirri átjándu og nítjándu. Hún var sungin til að heiðra minningu ástvinar og stytta dvöl hans í hreinsunareldinum. Sálumessa tengist eðlilega fyrst og fremst tónlist, trúarbrögðum og kirkjulist en hún er ekki síður vettvangur bókmennta. Íslenskir höfundar eins og Gunnar Gunnarsson og Ari Trausti Guðmundsson hafa notað titilinn Sálumessa á skáldverk, Þorsteinn Antonsson, Eva Hauksdóttir og margir fleiri hafa ort ljóð með þessu þema og heiti. Að ógleymdum Esra Péturssyni, lækni, sem ritaði æviminningar sínar undir lok síðustu aldar og greindi þá frá kynlífssambandi sem hann átti við sjúkling og olli bók hans, Sálumessa syndara (1997), miklu hneyksli í samfélaginu öllu.

Skólpið flýtur

Skáldið Gerður Kristný fyllir nú flokk þeirra er semja sálumessur í dramatískum ljóðabálki þar sem form og efni frjósa saman, með sterku myndmáli og formrænum brag. Tvær síðustu ljóðabækur hennar, Drápa (2010) og Blóðhófnir (sem tilnefnd var til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2014) fjalla um ofbeldi gegn konum. Gerður Kristný er á sömu slóðum í þessari bók og ekkert er gefið eftir. 

Einkenni á skáldskap Gerðar Kristnýjar er hnífskarpt ljóðmál og skýr tákn. Stór örlög eru undir sem lýst er í áhrifaríkum myndum með fáum orðum. Í fyrri verkum hennar eru víða tengingar við bæði fornan og nýjan skáldskap og sögulegan veruleika líkt og nú. Efni ljóðabálksins Sálumessu er sannsögulegt og opinskátt, ónafngreind kona svipti sig lífi 2003 eftir að hafa glímt við afleiðingar kynferðislegrar misnotkunar af hendi bróður síns. Gerður Kristný fjallaði um þetta mál í fjölmiðlum á sínum tíma, bróðirinn kærði hana fyrir það og siðanefnd Blaðamannafélagsins kvað upp þungan dóm yfir henni. Síðan þá hefur margvíslegt skólpið flotið til sjávar í þessum málaflokki og sér ekki fyrir endann á.

Rökkurþung augnlok

Í Sálumessu ríkir vetur, nótt og myrkur, þar er hvergi skjól, augnlok eru rökkurþung og fólkið dapurt. Ljóðmælandi er kvenkyns vera sem tekur sér hlutverk réttlætisgyðju og refsinornar sem liggur í dys sinni með hey undir höfði og beinin máð af þukli (43). Hún getur ekki orða bundist, getur ekki unað örlögum kynsystur sinnar:

Nafn þitt
næðir um
huga minn
liðast
niður í munn
tefst á tungu
bráðnar á broddi
sleppur
aldrei út
(45)

Mergjaðar myndir, háttbundið form

Sagan hefst um jólaleytið, bróðir leitar á litla systur í lestrarkennslu en þöggun umlykur glæpinn og bernskan verður „botnfrosin tjörn“ (19). Í öðrum hluta er samkenndin til umfjöllunar; taumur sem tengir saman konur, huslaðar í holti (28). Í þriðja hluta segir frá eftirmálum og þar er ekkert dregið undan: „Nafn bróður þíns / undir dánartilkynningunni“ (48). Þögn og lygum er þyrlað yfir sögu konunnar, hún er gerð tortryggileg og frásögn hennar dregin í efa. Hér er mergjuð ljóslifandi mynd úr myrkurkirkju með bekkjum úr ekka þar sem hundrað hausa syngja sálumessu. Í fjórða þætti er hefndum náð fram, skip bróðurins er brotið „inn í sömu / stjarnlausu nóttina / og dró þig / inn í dauðann“ (69). Í síðasta hlutanum eigrar óljós minning um stúlku (75) en búið er að losa takið á ískaldri þögguninni sem hefur viðgengist árum saman. Enn mara þó klakar í ánni.

Bygging bálksins er eins og tónverk sem hefst á drungalegum strengjum en síðan bætast við æst básúna og bálreið bassatromma sem draga ekki af sér fyrr en laginu lýkur loks hljóðlega, þegar særð jörð ber sitt barr að nýju (82).

Senurnar eru myndrænar og ljóðmál háttbundið og rímað eins og Gerði er lagið. Hálfrím og alrím, stuðlar og höfuðstafir skapa takt og tengingar:

Heiðlóa á haugi
vekur upp draug
Mild er moldin
feldur sem heldur
á okkur hita...
(27)

Ljóðabálknum er skipt upp með tilvitnunum um tungumál sem eru óskyld og ólík okkar, eins og finnska og urdu. Orð geta verið bæði þörf og einskis nýt:

„Í wagiman- málinu er til orð yfir að leita í vatni
með fótunum
Það vantar orð yfir tímann sem það tekur harm
að hjaðna“
(3

Listrænt bragð og vel til fundið, ljóst er að á íslensku má ekki alltaf finna svar.

„Hyllið dótturina!“

Að viðurkenna kynferðislega misnotkun og átta sig á afleiðingum hennar var stórt skref fyrir mannkyn. Með #metoo varð kynferðisofbeldi á allra vitorði og rammgerðum hlemmi velt ofan af iðandi maðkaveitu. Viðbjóðurinn vellur fram, það er mokað út og kvölinni sópað burt. Sársaukinn og léttirinn verða efniviður í listsköpun, skáld veitir ljótleika heimsins viðnám, leggur til atlögu við ranglætið og tekur skýra afstöðu eins og sjá má í Sálumessu, í ljóðabók hans Bubba Morthens, í skáldsögum Vigdísar Gríms, í sögu Thelmu Ásdísardóttur en faðir hennar var borinn þungum sökum en sýknaður í Hæstarétti.

Sál hinnar óþekktu konu er sloppin úr hreinsunareldinum en við segjum hingað og ekki lengra og tökum hraustlega undir í messunni: „Hyllið dótturina / þið dómarar / á jörðu!" (52).

 

 

Tengt efni