SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 4. desember 2023

HEIMURINN VAR FÁRÁNLEGT LEIKHÚS. Kramp eftir María José Ferrada

María José Ferrada. Kramp. Íslensk þýðing Jón Hallur Stefánsson. Angústúra 2023. 116 bls.

 

Frá árinu 2017 hefur bókaútgáfan Angústúra gefið út áhugaverðar erlendar samtímabókmenntir í vönduðum íslenskum þýðingum. Fjórar þýðingar koma út á ári í bókaflokknum og ein sú nýjasta er Kramp eftir Maríu José Ferrada sem er fædd árið 1977 í Chile.

Kramp segir frá sambandi feðgina, telpunnar M, sem í upphafi sögu er sjö ára og föður hennar D, sem er farandsölumaður í Chile á tímum ógnarstjórnar Pinochets. Sjónarhorn sögunnar er bundið við telpuna sem ljær frásögninni barnslegan tón. Hún er m.ö.o. ‚naífur‘ sögumaður sem lýsir atburðum sem hún skilur ekki sjálf fyllilega en þroskaður lesandi meðtekur fljótlega að umhverfið sem þau feðginin hrærast í er að mörgu leyti varhugavert og jafnvel hættulegt. Telpan sjálf er þó eldklár og í býr yfir meiri ábyrgðarkennd en faðirinn, eins og kemur æ betur í ljós eftir því sem á söguna líður.

Titill bókarinnar vísar til fyrirtækisins Kramp sem framleiðir járnvörur sem faðirinn selur til verslana í nálægum  bæjum og borgum. M ákveður að gerast aðstoðarmaður hans og með hans aðstoð skrópar hún reglulega í skólanum til að fara með honum í söluferðir. D kemst fljótlega að raun um að það eykur líkurnar á viðskiptum að hafa barnið sér við hlið enda kemur í ljós að telpan kann ýmis góð ráð:

 

Örþrifaráðið var að beita klökkvaaugnaráðinu. Það var kynngimagnaðast af þeim öllum. Ef verslunarstjórinn leit í augu mín var hann ekki að horfast í augu við mig heldur öll hugsanleg tilbrigði af harmi: hungrið í heiminum, höggmyndir úr ís sem bráðnuðu og urðu að vatni, tíkina Laíku sem fór hring eftir hring á sporbaug um jörðu í óendanlegri nóttinni. Allt þetta bjó í þessum dökku og smáu sjáöldrum. (35)

 

Þegar M hefur liðsinnt föður sínum í eitt ár vill hún fá eitthvað fyrir sinn snúð og reynist snjöll í samningatækni og það sama er uppi á teningnum þegar annar sölumaður vill fá að njóta hæfileika hennar líka, sem faðir hennar samþykkir: „Rétt fyrir átta ára afmælisdaginn minn var mér orðið ljóst að D var ekki upp á marga fiska sem pabbi en sem atvinnuveitandi var hann frábær“ (38). Þau feðginin skilja heiminn út frá söluvarningnum; „sérhver manneskja leitast við að útskýra gangverk hlutanna með því sem hendi er næst. Þegar ég var sex ára rétti ég út höndina og fann Kramp-vörulistann“ (26). Þetta setur létt fáránlegan brag á heimsmynd þeirra og það sama má segja um frásagnir af samfélagi farandsölumanna sem þau kynnast á ferðunum og lygasögur þeirra krydda frásögnina.

Þó ekki sé farið sterkum orðum um þau félagslegu vandamál sem M býr við opinberast smám saman mikil örlagasaga sem varðar móður M. Hún á við geðræn vandamál að stríða sem tengist morðinu á æskuunnusta hennar. Móðirin er ófær um að sinna dóttur sinni, er ekki til staðar og veit ekkert um „hliðarmenntun“ dóttur sinnar í söluferðunum: „Allt sem á eftir fylgdi var mögulegt vegna fjarveru mömmu minnar. Ekki af því að hún væri mikið að heiman heldur af því að hluti af henni hafði yfirgefið líkamann og tregðaðist við að snúa aftur […] Ósködduð móðir hefði tekið eftir því. Þýðir það að hún hafi verið óábyrg móðir? Ég held ekki, ég held frekar að lífið hafi komið fram við hana á svolítið óábyrgan hátt“ (25). Á öðrum stað segir að móðirin „virtist alltaf vera stödd á annarri reikistjörnu“ (49).

Auk móðurinnar er ein áhugaverðasta persóna sögunnar sýningarstjóri í kvikmyndahúsi bæjarins, E, sem hefur áhuga á svarthvítri ljósmyndun og er á draugaveiðum með ljósmyndavél sinni. Í ljós kemur að „draugarnir“ sem E er að leita að er fólk sem hefur verið drepið (líklega af liðsmönnum Pinochets):

 

Nei, draugaljósmyndun var ekki eins og að ljósmynda fólk. Það tók óratíma að finna draugana. Það þurfti að spyrja spurninga, hringja úr símaklefum og tala við fólk sem var hrætt við að segja það sem það vissi. „Þegar draugur skrælnar, verður hann að beini. Og ef hann skrælnar enn meira, verður hann að dufti. Við verðum að finna þá áður en þeir komast á það stig,“ útskýrði E fyrir mér. (48)

 

Æskuunnusti móðurinnar einn af draugunum sem E leitar og þegar hann finnur hann í gröf með fleiri fórnarlömbum fer af stað uppgjör sem leiðir til morðs og afhjúpunar á samstarfi M og D en og einnig til ‚endurkomu‘ móðurinnar: „sá hluti af henni, sem hafði verið fjarverandi öll þessi ár, aftur í einni svipan“ (81). Mæðgurnar yfirgefa föðurinn og skilja eftir tvenn skilaboð til hans: „Ábyrgðarlausi drullusokkur“ stendur á miðanum frá móðurinni, „Ég elska þig“, skrifar M (83).

Margt fleira áhugavert mætti ræða í þessari stuttu en flóknu sögu. Tengsl við kvikmyndir mynda áhugaverðan tilvísunarramma, sértaklega Paper moon (Peter Bogdanovich) og The Kid (Chaplin) sem báðar fjalla um samband barns og fullorðins og mikilvægi þess að tilheyra öðrum; ást M á föður sínum verður að skilja í því ljósi. Bókinni  vindur fram um nokkur ár í viðbók og smám saman áttar M sig á ýmsu sem var henni ofviða að skilja sem barn. Sagan hefst á frásögn af fyrstu tungllendingunni og hún endar á tilvísun til sama atburðar:

 

Þarna uppi var hnígandi tunglið, það sama og Neil Armstrong hafði stigið fæti sínum á fyrir mörgum árum. En margt annað hafði breyst endanlega. Pabbi skildi við mig á lestarstöðinni, þar sem ég hafði stigið úr lestinni um morguninn. Og við kvöddumst, vitandi að við mundum ekki hittast aftur. (103)

 

Kramp er áhrifarík þroskasaga ungrar stúlku sem virðist einföld á yfirborðinu en kafar á dýpi mannlegra tilfinninga og átakamikillar sögu Chile. Þýðingin Jóns Halls Stefánssonar hæfir söguefninu fullkomlega, er á einföldu og vönduðu máli og eftirmáli sem hann skrifar að bókinni er mjög fróðlegur.

 

Ritdómurinn birtist fyrst í Heimildinni 3. nóvember 2023

 

 

 

Tengt efni