SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir27. júní 2023

LÍTILL GLUGGI – Þá breyttist allt         

Margrét Blöndal og Guðríður Haraldsdóttir. Þá breyttist allt. Drápa. 2023, 195 bls.

Fyrir skemmstu kom út bókin Þá breyttist allt en þar ræða Margrét Blöndal og Guðríður Haraldsdóttir við ellefu manneskjur af erlendum uppruna. Margrét Blöndal hefur áður ritað sögur um ævi fólks en hún hefur sent frá sér ævisögur Ellýjar Vilhjálms og Hennýjar Hermanns. Þá hefur Guðríður tekið fjöldann allan af viðtölum og gert ævisögu Önnu K. Kristjánsdóttur skil. Berglind Ásgeirsdóttir, sérfræðingur í alþjóðamálum, fyrrum aðstoðarforstjóri OECD og sendiherra, skrifar formála að bókinni.

Í bókinni fæst innsýn í líf ellefu manneskja sem koma víðs vegar að. Agnieszka Narkiewicz er frá Póllandi, Ernesto Camilo Aldazábal frá Kúbu, Susan Rafik Hama frá Kúrdistan, Waraporn Chance frá Taílandi, Patience Adjahoe frá Gana, Oleksandra Kashcheiva frá Úkraínu, Ruyi Zhao og Minghai Hu frá Kína, Mo Moussa Kjartansson frá Sýrlandi, Liljana Milenkoska frá Makedóníu og Jasmina Vajzovic Crnac frá Bosníu.

Þetta er fjölbreyttur hópur, bæði af uppruna og menntun. Sömuleiðis eru ástæðurnar fyrir flutningnum til Íslands mismunandi en flest láta þau vel af sér þó dæmi séu um að sum hver hafi upplifað fordóma. Það kemur berlega fram, og þarf ekki að koma á óvart, að fólk með annan húðlit en flestir innlendir verða frekar fyrir barðinu á fávisku og dónaskap.

Í kynningu á bókinni er haft að orði að hún sé „lítill gluggi inn í samfélag sem á tíðum er hliðarsamfélag hér á Íslandi.“ Margir innflytjendanna nefna mikilvægi þess að læra íslensku til að aðlagast betur enda er tungumálið lykillinn að samfélaginu. Það er vissulega mikilvægt en það er ekki síður mikilvægt að innlendir Íslendingar aðlagist nýrri, frjórri og fjölmenningarlegri samfélagsgerð.

Berglind Ásgeirsdóttir segir í formála bókar að það sé almenn ánægja með vinnuframlag aðflutts fólks enda hafi það lagt mjög að mörkum til að skapa hér hagsæld. Það virðist þó ekki vera mikill áhugi á að kynnast þessu fólki utan vinnutíma og því hætti því til að einangrast eða dvelja nær eingöngu meðal landa sinna. Berglind bendir á að íslenskunámskeið séu gagnleg en fólk þjálfist ekki nema það haldi uppi samræðum og mörg vinni á vinnustöðum þar sem fáir innlendir starfa. Hún segir hér vanta hugarfarsvakningu um mikilvægi þessa íbúa og það þurfi á stuðningi og vináttu að halda.

Þetta tekst oft betur í smærri samfélögum á landsbyggðinni líkt og dásamleg saga Mó er til marks um en örlögin höguðu því þannig að hann eignaðist nýja fjölskyldu á Selfossi sem tók honum opnum örmum. Saga Mó er einlæg og áhrifarík og þær eru allrar athygli verðar frásagnir þessa fólk sem kaus að setjast hér að og auðga tilveru okkar.

Það er vert, hér í lokin, að benda á dönsku heimildamyndina Eyju vináttu og vonar í sarpinum á RÚV. Myndin kallast Fremmede i Karl Oves Paradis á frummálinu, er frá árinu 2021 og er höfundur verks og leikstýra Helle Toft Jensen. Í myndinni er fjallað um hvernig ungir piltar sem eru í leit að hæli á dönsku eyjunni Erri (Ærö) tengjast eyjaskeggjum órjúfanlegum böndum. Þá breyttist allt.