SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Svana Dún

Svana Dún var skáldanafn Sigríðar Svanhildar Þorsteinsdóttur Líndal sem var fædd 8. ágúst 1910 á Þingeyrum í Þingeyjarsveit. Líklega tók hún upp skáldanafnið til að forðast að rugling við Svanhildi Þorsteinsdóttur (Erlingssonar), samtíðarkonu sína sem einnig fékkst við skáldskap.

Svana Dún flutti ung til Reykjavíkur og stundaði nám við Verslunarskóla í tvö ár. Hún vann aðallega fyrir sér sem saumakona og fékkst við ritstörf í hjáverkum. Hún giftist norskum sjómanni og flutti með honum til útlanda og bjó síðustu æviár sín í Kanada þar sem hún setti á fót bókaverslun. 

Tvær bækur komu út eftir Svönu Dún, skáldsagan Töfrastafurinn og smásagnasafnið Tónar lífsins. Smásögur Svönu Dún er ólíkar öðrum smásögum frá sama tíma; tónn þeirra er nýtískulegri og greina má frelsi frá formi og raunsæislegum frásagnarhætti. 

Svana Dún var barnlaus og dó af slysförum í Kanada árið 1966.

 

Heimildir

Soffía Auður Birgisdóttir. „Skyldan og sköpunarþráin.“ Eftirmáli við Sögur íslenskra kvenna 1879-1960. Reykjavík, Mál og menning 1987


Ritaskrá

  • 1955 Tónar lífsins
  • 1954 Töfrastafurinn