SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Rannveig Schmidt

Rannveig var fædd Þorvarðardóttir í Reykjavík 10. febrúar 1882. Hún var dóttir Sigríðar Jónsdóttur og Þorvarðar Þorvarðarsonar prentsmiðjustjóra. Ýmsir þjóðkunnir menn komu á æskuheimili hennar, þ.á.m. Þorsteinn Erlingsson, Einar Hjörleifsson og Jón Ólafsson sem hvatti hana mjög til náms í Verzlunarskólanum. Rannveig var fyrst kvenna til að læra vélritun og kenndi hún hana tvo vetur í Verzlunarskólanum. Hún vann ýmis störf önnur þar til hún fór til Kaupmannahafnar í málanám og píanonám hjá prófessor Haraldi Sigurðssyni. Í níu ár starfaði hún sem ritari hjá íslensku sendisveitinni í Kaupmannahöfn.

Rannveig fluttist með seinni eiginmanni sínum, Adam Vilhelm Schmidt sem var danskur að ætt, til Ameríku árið 1925. Þau bjuggu fyrst í Los Angeles og síðan San Fransisco þar sem Rannveig starfaði á dönsku ræðismannsskrifstofunn um níu ára skeið. Árið 1944 missir hún eiginmann sinn. Ólafur Thors, ríkisstjóri, býður henni ári seinna til Íslands, sumarið 1945, og ferðaðist hún þá einnig nokkuð um Norðurlönd. Öðrum þræði langaði Rannveigu að setjast aftur að á Íslandi en fékk ekki starf við sitt hæfi og fór því aftur til Ameríku árið 1949. Hún andaðist 2. júlí árið 1952 í San Fransisco.

Rannveig sendi frá sér tvær bækur. Sú fyrri nefndist Hugsað heim og kom út árið 1944. Þá var Rannveig búin að dvelja erlendis í rúm þrjátíu ár og ekki séð Íslending í heilan áratug. Í bókínni má sjá að Ísland er henni mjög hugleikið þrátt fyrir fjarlægðina og hún saknar þess að geta ekki rætt um íslenskar bókmenntir við samtíðarfólk sitt. Halldór Laxness skrifaði formála að bókinni og fer þar fögrum orðum um Rannveigu. Ári síðar sendir Rannveig frá sér bókina Kurteisi sem geymir frásagnir af kurteisisvenjum ýmissa þjóða auk tilsagnar í almennri kurteisi. Auk þessa birtust greinar af ýmsu efni eftir Rannveigu í skandinavískum blöðum og Heimskringlu og sömuleiðis hélt hún fyrirlestra þar sem hún kynnti Ísland fyrir Vestur-Íslendingum.

Heimild:

Ragnheiður G. Möller. (1952, 23. Desember). Minningarorð: Rannveig Schmidt“ Vísir. Sótt af http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1175927

Myndin af Rannveigu er sótt á vefsíðuna lifdununa.is


Ritaskrá

  • 1945 Kurteisi
  • 1944 Hugsað heim