SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er fædd í Reykjavík 1988.

Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð, sviðshöfundanámi við Listaháskóla Íslands og MA-námi í ritlist við Háskóla Íslands.

Ragnheiður Harpa útskrifaðist úr Fræði & Framkvæmd frá LHÍ árið 2011. Hún hefur sett upp leiksýningar og innsetningar og tekið þátt í gjörningum af ýmsu tagi. Hún starfaði um skeið hjá Brut-leikhúsinu í Vínarborg.

Meðal verka hennar má nefna „Hyldýpi“ sem hún sýndi á Junge Hunde Festival í Árósum, á Baltic Circle hátíðinni í Helsinki og í Gamla bíói í Reykjavík.

Verk Ragnheiðar Hörpu, „Dagskrá um eldingar“, var sýnt á LÓKAL 2011 og verk hennar „Tómið – fjölskylduskemmtun” var sýnt á LÓKAL 2013.

Smásögur Ragnheiðar Hörpu Hvít mýkt og Svarthol komu út í seríu Meðgöngumála árið 2015.

Útvarpsverk hennar, Páfuglar heimskautanna flutt á Listahátíð í Reykjavík í sviðsettum leiklestri, en verkið var samstarfsverkefni Útvarpsleikhússins og Listahátíðar og var einnig flutt sem jólaleikrit Ríkisútvarpsins 2013. Páfuglar heimskautanna var eitt af sex útvarpsleikritum sem Listahátíð og Útvarpsleikhúsið fengu íslensk leikskáld til að semja sérstaklega fyrir sig. Verkin voru öll flutt í sviðsettum leiklestrum á Listahátíð í vor. Var hvert verk flutt tvisvar og var uppselt á alla leiklestrana sem mæltust ákaflega vel fyrir. Síðan fengu leikskáldin tækifæri til að þróa verkin enn frekar áður en þau yrðu tekin upp í endanlegri útgáfu til flutnings í Ríkisútvarpinu.

Ragnheiður Harpa er meðlimur í rithöfundakollektívinu Svikaskáld og hefur gefið út nokkrar bækur með þeim. Skáldsaga þeirra Olía var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021.

Ljóðabálkinn Eftirvæntingu samdi Ragnheiður í félagi við Þóru Hjörleifsdóttur og var hann gefinn út 2021. Hér má lesa umsögn um hann.

 

 


Ritaskrá

  • 2022  Urðarflétta
  • 2021  Eftirvænting (með Þóru Hjörleifsdóttur)
  • 2021  Olía (með Svikaskáldum)
  • 2019  Sítrónur og náttmyrkur
  • 2019  Nú sker ég netin mín (með Svikaskáldum)
  • 2018  Ég er fagnaðarsöngur - ljóðverk (með Svikaskáldum)
  • 2017  Ég er ekki að rétta upp hönd - ljóðverk (með Svikaskáldum)
  • 2015  Hvít mýkt / Svarthol
  • 2013  Páfuglar heimskautanna (jólaleikrit Ríkisútvarpsins)
  • 2013  Tómið - fjölskylduskemmtun - flutt á LÓKAL
  • 2011  Dagskrá um eldingar - flutt á LÓKAL

 

Tilnefningar

  • 2021  Til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Olíu (með Svikaskáldum)

 

Tengt efni